Fyrsta græna skrefið

Jónína, Unnur, Hólmfríður, Gísli og Björg mynd LS
Jónína, Unnur, Hólmfríður, Gísli og Björg mynd LS

Ákveðið var í MTR í haust að hefja þátttöku í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Skólinn hefur nú tekið fyrsta skrefið og fengið það vottað og viðurkennt. Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun kom og skoðaði sérstaklega flokkunarmál og innkaup með tilliti til þess hvort keyptar væru vistvænar hreingerningavörur og pappír. Skilyrði er að nota umhverfisvottaðar vörur. Athugasemd var gerð við flokkun hjá nemendum og í almannarýminu. Gera þarf úrbætur sem Nemendafélagið þarf að koma að en því sem að var fundið verður snarlega kippt í liðinn.

Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst haustið 2014.  Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa tekið þátt í að aðlaga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi  stofnana og draga úr kostnaði. Sjá nánar hér: http://graenskref.is/um-verkefnidh

Tengiliður verkefnisins í MTR er Unnur Hafstað en við framkvæmdina reynir mest á Björgu Traustadóttur, Gísla Kristinsson og Jónínu Kristjándóttur, sem sjá um rekstur, innkaup og þrif hússins. Þau eru með Hólmfríði Þorsteinsdóttur á myndinni, sem tekin var þegar viðurkenningin fyrir fyrsta skrefið var afhent.