Erla Marý íþróttafræðingur með kennsluréttindi

Erla Marý Sigurpálsdóttir
Erla Marý Sigurpálsdóttir

Erla Marý Sigurpálsdóttir er frá Ólafsfirði. Hún útskrifaðist af íþróttabraut MTR í maí 2017. Hún ákvað í framhaldinu að skrá sig í íþrótta- og heilsufræði með kennsluréttindum í Háskóla Íslands og er nú útskrifuð með meistaragráðu úr því námi. Í dag starfar Erla Marý sem íþrótta og sundkennari við Réttarholtsskóla í Reykjavík auk þess að þjálfa fimleika, parkour og sjá um leikfimi fyrir eldri borgara hjá íþróttafélaginu Ármanni. Við spurðum Erlu Marý hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanám og hvað sé eftirminnilegast úr skólagöngunni?

Mér fannst námið í MTR nýtast mér mjög vel þar sem fyrsta árið í háskóla var eins og ákveðin upprifjun á því sem ég var nú þegar búin að læra í MTR. Í háskólanáminu var farið aðeins dýpra í þættina en mjög hentugt að þurfa aðeins að leggja áherslu á dýpri þættina frekar en að læra allt frá grunni á staðnum. Þar sem námið í MTR var svo tengt því sem ég lærði í háskólanum fann ég ekki fyrir þessu mikla stökki við að fara úr menntaskóla í háskóla, eins og oft er talað um.

Í MTR þjálfaðist ég í að læra jafnt og þétt með því að hafa viku skil í öllum áföngum. Þannig lærði ég að það er best að læra alltaf stöðugt í stað þess að lenda í stressi rétt fyrir próf. Einnig var ég mjög þakklát fyrir líffræði- og lífeðlisfræði kennsluna ásamt stærðfræðinni.

Það að hafa gengið í gegnum tölvuvænan skóla hjálpaði mér einnig þegar það kom að verkefnum og hópavinnu þar sem allt fer í gegnum tölvur í dag. Ég er þakklát að hafa vanist því í menntaskóla í stað þess að þurfa að læra á það í háskólanum samhliða öllu hinu.

Mér fannst í raun og veru ekkert vanta upp á í undirbúningi fyrir mitt nám í HÍ. Íþróttabrautin í MTR undirbýr mann mjög vel fyrir nám í íþróttafræði. Hefði mögulega verið sniðugt að hafa einn eðlisfræði áfanga sem skylduáfanga þar sem það er einn áfangi um lífaflfræði sem er eintóm stærðfræði og eðlisfræði.

Ég á margar góðar minningar úr MTR. Það var svo margt skemmtilegt í skólanum að erfitt er að velja hvað stendur upp úr. Ég hugsa þó að ferðirnar til Spánar og Danmerkur séu hátt á þeim lista, ásamt því að taka á móti nemendunum frá Danmörku. Einnig að hafa þetta fjölbreytta val, eins og útivistar áfangarnir, allar íþróttirnar (og þar með að keppa í blaki fyrir hönd skólans), ljósmyndun og tónlistin. Ég elskaði að vera í MTR og sakna þess innilega. Ég get talið upp endalausar sögur af skemmtilegum upplifunum og held fast í þær minningar.

Menntaskólinn á Tröllaskaga er búinn að slíta barnsskónum, er nú á sínu fjórtánda starfsári, og alls hafa 495 nemendur brautskráðst frá skólanum. Gerðar hafa verið kannanir meðal útskrifaðra nemanda til að fylgjast með því hvort þeir halda áfram í námi og þá hvaða námi. Hefur svörun í þeim könnunum verið góð og komið í ljós að útskrifaðir nemendur hafa stundað ótrúlega fjölbreytt nám í framhaldi af veru sinni hjá okkur og gegna í dag ýmsum störfum vítt og breitt um landið og reyndar víða um heiminn. En okkur fýsti einnig að vita hvernig námið í MTR hafi undirbúið nemendur okkur fyrir frekara nám. Því var haft samband við nokkra þeirra og óskað eftir upplifun þeirra og reynslu af því.