Elfa Sif hjúkrunarfræðingur

Elfa Sif
Elfa Sif

Elfa Sif Kristjánsdóttir er frá Siglufirði. Hún útskrifaðist af félags- og hugvísindabraut MTR vorið 2015. Skömmu síðar hóf hún nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Elfa býr í dag í Ólafsfirði og starfar sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Fjallabyggð. Við spurðum Elfu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanámið og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.

Mér fannst námið í MTR undirbúa mig ágætlega fyrir háskólagönguna. Vikuloturnar í MTR hjálpuðu mér að skipuleggja mig og taka ábyrgð á eigin námi. Verkefnapakki vikunnar opnaði á mánudagsmorgnum og þurfti að skila úrlausnum í síðasta lagi á miðnætti næsta sunnudag á eftir. Þannig lærði maður að vinna jafnt og þétt yfir önnina og láta ekki verkefnin hlaðast upp.

Námið í MTR hentaði mér líka mjög vel að því leytinu til að það voru engin lokapróf. Mér finnst miklu skynsamlegra að lokaeinkunn sé byggð á vinnuframlagi yfir önnina, árangri og ástundun heldur en á einu prófi í lok annar. Í flestum háskólum eru þó enn lokapróf og í hjúkrunarfræðinni þá voru 100% lokapróf í öllum áföngum á fyrstu önninni. Var það töluvert stökk að takast á við svona stór próf eftir árin í MTR þar sem ekki var eins mikið undir í þeim prófum sem ég tók þar.

Eftirminnilegast úr MTR er klárlega þegar strákurinn minn var lítill og kom með mér í skólann. Ég man að ég fór til Láru skólastjóra og sagði henni að ég væri ófrísk og þyrfti að taka hlé frá námi, þá átti ég eitt ár eftir. Hún vildi ekki heyra á það minnst og það kom aldrei neitt annað til greina hjá henni en að ég myndi klára námið og útskrifast. Mér fannst hún nú frekar hörð við mig á þeim tíma en það sem ég er þakklát henni í dag. Það voru allir boðnir og búnir í skólanum að aðstoða mig með strákinn og þá sérstaklega hún Björg. Ég tók hann með mér í skólann í vagninum og Björg hlustaði eftir honum meðan hann svaf úti og passaði hann fyrir mig þegar þess þurfti. Mér þykir mjög vænt um þessar minningar og er starfsfólki skólans afar þakklát.