Comeníusarheimsókn lokið

Mynd David Schuster
Mynd David Schuster

Samstarfsfólk okkar í Comeníusarverkefninu um vatn hélt heim á leið um helgina eftir vel heppnaða viku í Ólafsfirði. Anna Lena Victorsdóttir segir að gestirnir hafi verið áhugasamir, tekið myndir og spurt margs. Hún var í hópi þeirra nemenda MTR sem eyddu miklum tíma með gestunum og segir að það hafi verið gaman að kynnast þeim.

Samstarfsfólk okkar í Comeníusarverkefninu um vatn hélt heim á leið um helgina eftir vel heppnaða viku í Ólafsfirði. Anna Lena Victorsdóttir segir að gestirnir hafi verið áhugasamir, tekið myndir og spurt margs. Hún var í hópi þeirra nemenda MTR sem eyddu miklum tíma með gestunum og segir að það hafi verið gaman að kynnast þeim.

Hápunktur dvalarinnar var ferð í Mývatnssveit þar sem hópurinn skoðaði Dimmuborgir, Grjótagjá, hveraröndina við Námaskarð og jarðgufuvirkjunina í Kröflu. Hádegisverður var snæddur í Hótel Seli. Þar var á borðum séríslenskur matur, hárkarl, slátur, harðfiskur, silungur, skyr og fleiri slíkir réttir.

Á Akureyri skoðuðu gestir okkar frá Þýskalandi, Ítalíu og Spáni borholu hjá Norðurorku. Verið var að skipta um fóðringu og krakkarnir gátu þreifað á heitum rörum þegar þau voru dregin upp úr holunni. Í frjálsum tíma var spásserað um miðbæinn og heimamenn sýndu gestunum Glerártorg. Að lokum var snætt á Greifanum og haldið upp á afmæli eins þýska gestsins, Daniellu, með söng og afmælisís.

Gestunum þótti mikið koma til Skeiðsfossvirkjunar. Stjórnendur þar hleyptu gusu úr lóninu til að sýna hvernig vatsmiðlun virkar. Spákonuhofið á Skagaströnd var líka heimsótt og sundlaugin á Hofsósi þótti flott. Anna Lena segist hafa skoðað nokkra staði á Norðurlandi sem hún hafi ekki séð áður. Það hafi verið fróðlegt og gaman líka að kynnast samnemendum sínum á nýjan hátt.

Þeir sem önnuðust móttökuna segja að gestirnir hafi talað um hve við hefðum mikið vatn, mikið af grænni orku, til húshitunar og annarra þarfa. Þeim hafi fundist kalt í veðri en í fyrstu hafi þau verið hikandi við að fara í sund. Það hafi breyst og einnig hafi þau notað heita potta bústaðanna við Brimneshótel óspart og þótt gott. MYNDIR