Brautskráning í dag

Ljósmynd: GK.
Ljósmynd: GK.

Í dag brautskráðust 39 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þetta var 23. brautskráningarathöfnin frá stofnun skólans og hafa nú alls 427 nemendur lokið prófi frá skólanum.

Í ræðu Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur aðstoðarskólameistara kom fram að langflest luku stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut eða nítján nemendur. Næstflest luku stúdentsprófi af kjörnámsbraut eða átta. Þá settu sex nemendur upp hvítu kollana eftir nám á lista- og náttúruvísindabratum, þrjú af hvorri braut. Fimm útskrifuðust af stúdentsbraut eftir starfsmám og einn nemandi af starfsbraut. Meirihluti útskriftarnema eru fjarnemar eða 34 og voru sjö þeirra viðstödd athöfnina í dag. Þau koma frá fjórtán stöðum á landinu, flest af höfuðborgarsvæðinu og einn er búsettur í Noregi.

Guðrún Júlíana Sigurðardóttir frá Hólmavík er dúx; hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi en einnig fyrir ágætiseinkunn í dönsku, íslensku, spænsku, félagsgreinum, lýðheilsu og stærðfræði. Hörður Ingi Kristjánsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í dönsku, lýðheilsu og tónlistargreinum og Jóhanna Sigurlaug Eiríksdóttir fyrir ágætiseinkunn í stærðfræði. Þá hlaut Oddný Ósk Sigurbergsdóttir viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í listljósmyndun og spænsku og Sara Samúelsdóttir fyrir ágætiseinkunn í spænsku Einnig hlaut Sigríður Guðrún Hauksdóttir viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn í íslensku og spænsku.

Lára Stefánsdóttir skólameistari sagði í ávarpi sínu að breytt heimsmynd í kjölfar heimsfaraldurs hefði kallað á miklar breytingar en fæli einnig í sér ný tækifæri og nýjar lausnir. Hún hvatti útskriftarnema til að tileinka sér seiglu og jákvæðni og að leita þess sem geri þau hamingjusöm og glöð því þannig geti þau fundið sér skemmtilegt og ánægjulegt líf.

Hörður Ingi Kristjánsson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Hann útskrifaðist af tónlistarsviði listabrautar og ræddi um námsferil sinn og hvað tíminn í skólanum hefði liðið hratt. Sagði Hörður að hápunkturinn hefði verið að sigra Söngkeppni framhaldsskólanna með félögum sínum. Þá nefndi hann sérstaklega tvær námsferðir til útlanda sem hann fór í á þessari önn og taldi sig hafa lært meira á þeim en öllu öðru þá önnina. Hörður er einn af hljómsveitinni Ástarpungunum sem auk hans skipa þrír aðrir nemendur skólans, kennari þeirra og einn aðstoðarmaður. Ástarpungarnir fluttu tvö tvö lög við athöfnina. Linkur til að sækja stærri hópmynd  Myndir