Íslandsklukkan mynd GK
Í vikunni var hinn árlegi Opni dagur í Háskólanum á Akureyri þar sem áhugasamir gátu fengið svör um skólann og skólastarfið frá fyrstu hendi. Var boðið upp á rútuferðir frá framhaldsskólum við Eyjafjörðinn, nýttu nemendur frá MTR sér það og kíktu í heimsókn. Námsleiðir skólans í grunnnámi voru kynntar á sérstökum básum þar sem stúdentar og starfsfólk skólans tóku gestum fagnandi og svöruðu spurningum um námsframboð, félagslíf, möguleika að námi loknu, sveigjanlegt nám og ýmislegt fleira.
Þessar heimsóknir hafa reynst nemendum MTR vel undanfarin ár og hafa þótt áhugaverðar og hvetjandi. Þeir sem hafa þegar ákveðið hvaða nám þeir ætla í að loknu stúdentsprófi hafa getað rætt málin við kennara og nemendur viðkomandi sviðs og hjá öðrum hafa hugmyndir að frekara námi jafnvel kviknað. Sem fyrr voru nemendur ánægðir með að hafa þegið boðið, sáu margt forvitnilegt, hittu fyrrum samnemendur og tóku þátt í bollaleggingum um hvaða leiðir ætti að feta í framtíðinni.