Birgitta Þorsteinsdóttir grunnskólakennari

Birgitta Þorsteinsdóttir er frá Siglufirði. Hún útskrifaðist af listabraut MTR árið 2015. Þá lá leiðin í Háskólann á Akureyri þar sem hún lauk B.Ed í kennarafræði og tók svo masterinn í beinu framhaldi þar sem hún lagði áherslu á upplýsingatækni í skólastarfi. Einnig hefur hún sótt sér menntun í andlegri einkaþjálfun. Birgitta er í dag kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem hún kennir sjónlistir, upplýsingatækni á öllum stigum sem og nokkra valáfanga á unglingastigi. Við spurðum Birgittu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.

Mér fannst námið í MTR undirbúa mig mjög vel fyrir háskólanám því í MTR er símat í öllum áföngum og engin lokapróf. Þannig ég lærði að skipuleggja mig og og gat því dreift álaginu jafnt og þétt yfir vikuna. Það er að mínu mati mun meiri gæði í þannig lærdómi heldur en að læra á fullu fyrir lokapróf, leggja á minnið allar glósur rétt fyrir próf sem hverfa svo um leið og þú skilar prófinu. Persónulega fyrir mig þá vinn ég best þegar ég veit að ég hef eitthvað “deadline” eins og í MTR, skil á sunnudegi og ég get þá skipulagt mig eftir því.

Það sem gagnaðist mér sérstaklega við námið í MTR var að þú berð sjálf/sjálfur alla ábyrgð á þínu námi og það kenndi mér að vera sjálfstæð í námi og bera virðingu fyrir mínum tíma og annarra. Þegar ég kom í háskólann þá var þetta eiginlega alveg eins, nema skiladagar á verkefnum dreifðust yfir alla önnina.

Það eftirminnilegasta úr MTR! Það er svo ótrúlega margt. Björg Traustadóttir! Alltaf til staðar og alltaf svo fyndin og hress! Svo þegar ég hætti í framhaldsskóla til þess að verða vitleysingur í Reykjavík, en gafst svo upp á því og flutti aftur heim. Þá bókaði Lára skólameistari (pjúsari) mig á fund og sagði að hún ætlaði að útskrifa mig, og ég sem nennti sko ekki að fara í skóla aftur. En hún gafst ekki upp og hannaði námsbraut fyrir mig út frá mínum áhugamálum (plús auðvitað skyldu áfangana sem ég nennti ekki að læra) og svo fékk ég allan mögulegan stuðning frá kennurum, starfsfólki og meira að segja fólki úr bæjarfélaginu sem hjálpaði mér í gegnum stærðfræðina, sem hefur alltaf verið minn akkilesarhæll. Ég hef ekkert nema ást og virðingu gagnvart þessum skóla, því starfsfólk hans hjálpaði mér að skilja sjálfa mig og ég væri ekki á þeim stað þar sem ég er í dag án þeirra.