Atli Tómasson er listamaður mánaðarins

Atli Tómasson mynd GK
Atli Tómasson mynd GK

Listamaður mánaðarins er fyrrverandi nemandi skólans, Atli Tómasson. Í miðrými skólans, Hrafnavogum, eru nú til sýnis ýmis portrettverk sem hann hefur málað að undanförnu. Hugmyndin á bak við verkin á rætur sínar að rekja til súrrealisma og expressjónisma þar sem listamaðurinn reynir að fanga ákveðnar tilfinningar og hughrif með aðferð sem kallast automatic drawing. Þar reynir listamaðurinn að láta undirmeðvitundina ráða ferðinni eins og kostur er.

Atli er Ólafsfirðingur en býr nú og starfar á Akureyri. Hann útskrifaðist af listabraut Menntaskólans á Tröllaskaga, myndlistar- og listljósmyndunarsviði, árið 2013 og hélt svo áfram námi í fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist vorið 2017. Atli hélt einkasýningu í Kaktus á Akureyri árið 2018 og tók þátt í samsýningunni Salon Des Refuses í Deiglunni á Akureyri árið 2023.

Listamaður mánaðarins er sýningarröð sem féll niður á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir en er nú komin af stað á ný. Er öllum velkomið að líta inn í skólann og njóta sýningarinnar.