Andleg líðan staðnema svipuð

Sólsetur í Ólafsfirði mynd GK
Sólsetur í Ólafsfirði mynd GK

Niðurstöður könnunar sem Sigríður Ásta Hauksdóttir, námsráðgjafi gerði meðal staðnema skólans og foreldra þeirra bendir til þess að andleg líðan nemendanna sé svipuð núna og hún var áður en skólinn skellti í lás og öll kennsla færðist á netið. Jafnframt kemur fram að foreldrar og nemendur eru sammála um að fjarkennslustofurnar (google meet) virki vel og nemendur fái skýrar leiðbeiningar og nægjanlega leiðsögn. Það gangi nokkuð vel að mæta í tíma, halda rútínu og skila úrlausnum verkefna á réttum tíma.

Nemendur voru beðnir að nefna þrjú lýsingarorð sem lýstu líðan þeirra daginn sem þeir svöruðu. Algengustu orðin sem sem þeir nefndu voru gleði og kvíði en örlítið færri nefndu stress. Foreldrar voru beðnir að velja þrjú orð sem þeir töldu lýsa líðan barnsins síns. Algengasta orðið var leiði en nokkuð færri nefndu einmana og eirðarleysi.

Þátttaka í könnuninni var valfrjáls. Spurningalisti var sendur til sextíu staðnema en nítján svör bárust. Foreldrar þrjátíu og eins nemanda, yngri en átján ára, fengu spurningalista en þrettán svör bárust.