Ánægjulegur árangur nemenda

Nemendur vinna mynd GK
Nemendur vinna mynd GK

Námsárangur var venju fremur góður á haustönninni. Meðaleinkunn í öllum fögum var ívið hærri en á síðustu vorönn og þetta er hæsta meðaleinkunn sem nemendur hafa fengið síðan skólinn hóf starfsemi. Allir nýnemarnir sem byrjuðu í haust náðu öllum áföngunum sem þeir voru í, sem verður að teljast mjög jákvæður árangur. Almennt virðast bæði staðnemar og fjarnemar hafa sýnt dugnað og þrautseigju á þessum erfiðu tímum þegar heimsfaraldur hefur truflað allt líf fólks. Vegna skipulags náms og kennslu í MTR var breytingin yfir í fjarnám auðveldari bæði nemendum og kennurum en víða annars staðar. Kennslukannanir í lok haustannar komu mjög vel út, nemendur voru í heildina ánægðir með kennsluna og greindu almennt frá því að líðan þeirra í einstökum áföngum væri góð eða mjög góð. Miðað við ástandið í samfélaginu er full ástæða til að gleðjast yfir þeim upplýsingum sem fram koma í kennslukönnunum.