Akrólistakynning

Fimleikanemendur MTR fengu kynningu á akrólistum í síðustu viku. Þetta eru listir sem sækja í smiðju danslista, fimleika og sirkuslista og sumir kennarar tengja við hugmyndafræði jógaiðkunar. Það var Unnur María Máney Bergsveinsdóttir sem kynnti akrólistirnar. Hún er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona í Ólafsfirði.

 

Akrólistirnar eru afar fjölbreyttar. Unnið er saman í pörum eða litlum hópum með æfingar sem byggjast á að finna sameiginlegt jafnvægi milli þeirra sem eru að vinna saman. Byggðir eru pýramídar, tveggja eða margra manna plankar, iðkendur standa, sitja, eða hanga hverjir á öðrum. Þegar lengra er komið snúa iðkendur jafvel félaga sínum í loftinu eins og flatbökumeistarar!

 

Unnur María segir ekki nauðsynlegt að vera fimleikameistari eða búa yfir sérstökum liðleika eða styrk til þess að byrja að æfa akró heldur bara að vera tilbúinn að prófa, treysta og læra að beita líkamanum rétt. Við séum öll ólík og það skemmtilega við akróið sé að allir geti fundið stöður og æfingar við sitt hæfi. Það sé stórkostlegt að sýna fólki hvað það getur gert, því nánast án undantekninga geti fólk meira en það heldur. Allir geti gert akró, óháð aldri, stærð eða líkamlegu formi.  Akró byggi upp líkamlegan styrk, samhæfni og hreyfigetu og virki ýmsa litla vöðva sem fæstir noti mikið dags daglega.  Mest reyni á kvið- og bakvöðva og séu þeir fljótir að byggjast upp á æfingum. Hún segir að mikil áhersla sé lögð á rétta tækni og líkamsbeitingu og meðvitaða líkamsvitund.

 

Unnur María Máney Bergsveinsdóttir kallar sig Húlladúlluna. Hún er sjálfstætt starfandi

sirkuslistakona, nýflutt til Ólafsfjarðar. Hún hefur starfað með Sirkus Íslands og breska

sirkusnum Let’s Circus auk þess að hafa komið fram á sirkussýningum í Frakklandi, Bretlandi og Mexíkó. Auk þess að leika listir sínar kennir hún bæði börnum og fullorðnum ýmsar

sirkuslistir, með sérstakri áherslu á húlla, akró, loftfimleika og jafnvægiskúnstir. Hún lauk

húllakennaranámi frá Live Love Hoop í Bristol árið 2016 og er nú í alþjóðlegu Social Circus

kennaranámi á vegum Caravan sirkussamtakanna og Evrópusambandsins. Unnur María

starfar einnig með kabarettinum Drag-Súgi og með Reykjavík Kabarett og er ein af stofnendum Akró Íslands hópsins. Myndir