Ævintýri á Ítalíu

Sjálfbærni og valdefling ungs fólks til atvinnusköpunar er þema Erasmusverkefnis sem MTR hefur tekið þátt í og lýkur á Ítalíu í næstu viku. Verkefnið tók tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Samstarfsskólarnir eru á Lanzarote, einni Kanaríeyjanna og á Ítalíu. Heimsókn ítölsku og íslensku nemanna til Lanzarote í febrúar í fyrra tókst með miklum ágætum og í haust dvöldu hópar frá samstarfsskólunum hér á Tröllaskaga.

Um helgina kynnti íslenski hópurinn sér sögu Rómar, skoðaði ýmsar menningarminjar og fylgdist með mannlífinu. Ellefu nemendur og tveir starfsmenn eru í ferðinni.

MTR-nemar söfnuðu fyrir aukadvöl í Róm með því að þrífa bifreiðar. Þau kynntu spænskum og ítölskum félögum sínum hugmynd að bifreiðaþvottafyrirtæki sem hægt væri að stofna og reka á Tröllaskaga.