Umhverfismál fréttir

Hreinsunarátak

Allir staðnemar MTR sem staddir voru í skólanum í gær og nokkrir starfsmenn tóku sig til og tíndu rusl í poka. Farið var vítt um Ólafsfjarðarbæ, nágrenni skólans og íþróttamannvirkja, í kirkjugarðinn, á Flæðurnar og víðar. Af nógu mun hafa verið að taka og sáu bæjarstarfsmenn um að koma ruslinu sem tínt var á viðeigandi stað. Þetta átak nemenda var í tilefni stóra plokkdagsins sem var síðastliðinn laugardag. Eftir hreinsunina bauð skólinn nemum og starfsmönnum upp á pitsur sem runnu ljúflega niður.
Lesa meira

Fimmta Græna skrefið

MTR hefur stigið fimmta og síðasta Græna skrefið og fengið það viðurkennt. Skólinn er tólfta ríkisstofnunin til að ná þessum áfanga. Aðeins einn framhaldsskóli, Menntaskólinn við Sund, tók skrefið á undan MTR. Aðgerðir í verkefninu miða að því að efla umhverfisvitund starfsmanna og draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi stofnana á umhverfið. Hjá MTR hefur verið farin sú leið að nokkrir starfsmenn hafa séð um að breyta verkferlum, bæta flokkun, setja upp grænt bókhald og fleira slíkt sem nauðsynlegt er að gera. Mikill áhugi og samstaða hefur ríkt í hópi starfsmanna. Fimm manna umhverfisráð hefur fundað reglulega á vorönninni. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarmeistari, hefur borið hitann og þungann af skjölun vegna fimmta skrefsins. Björg Traustadóttir hefur í öllu ferlinu annast skipulag flokkunar og aðgerðir gegn matarsóun. Fuglar himinsins fá að njóta þeirra afganga sem verða af mat. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóg en tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, segist vera ótrúlega stolt af þeim góða árangri sem náðst hafi. Duglegir og lausnamiðaðir starfsmenn hafi dregið vagninn og náð árangri sem sé skólanum og skólaumhverfinu til sóma.
Lesa meira

Fjórða græna skrefið í höfn

Í dag fékk Menntaskólinn á Tröllaskaga 4. græna skrefið. Græn skref er verkefni á vegum Umhverfisstofnunar en fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Stjórnandi verkefnisins í skólanum er Unnur Hafstað og hefur hún verið traustur leiðtogi og leiðbeinandi fyrir aðra starfsmenn stofnunarinnar.
Lesa meira

Rafræn afhending grænfánans

Menntaskólinn fékk grænfánan afhentan í morgun. Katrín Magnúsdóttir, sem stýrir grænfánaverkefninu hjá Landvernd afhenti fánann, í fyrsta sinn með rafrænum hætti. Grænfánaverkefnið er alþjóðlegt og taka skólar í sextíu og átta löndum þátt í því. Það snýst um að breyta heiminum til hins betra. Menn eru hluti náttúrunnar og þurfa að gæta hennar fyrir komandi kynslóðir. Störf umhverfisnefndar MTR á síðasta skólaári eru forsenda þess að skólinn fær grænfánann nú afhentan. Starfinu verður fram haldið í vetur. Nemendur einstakra áfanga skiptast á um annast umhverfisverkefni í samhengi við námsefni hverju sinni.
Lesa meira

Rafræn úttekt á grænfánaverkefninu

MTR hóf á síðasta ári þátttöku í grænfánaverkefninu, Skólar á grænni grein, sem er rekið er af Landvernd á Íslandi. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education. Skólar þurfa að taka sjö markviss skref áður en hægt er að sækja um afhendingu grænfánans. Sótt var um fyrstu úttekt á grænfánastarfinu síðastliðið vor, en vegna aðstæðna var henni frestað og fór úttektin því fram rafrænt í gær. Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstýra, hitti nýnema í áfanganum Inngangur að náttúruvísindum, sem eru að vinna að umhverfismálum þessa stundina og einnig fulltrúa úr umhverfisnefnd skólans sem starfaði síðasta vetur. Farið var yfir markmið og aðgerðir sem fram hafa farið til að ná þeim, en unnið var með þemað: Neysla og úrgangur. Katrín spurði nemendur meðal annars hvort aðrir nemendur og kennarar hefðu vitað af starfinu og sýnt því áhuga. Kom í ljós að margir kennaranna eru með fræðslu um umhverfismál sem þeir flétta inn í fjölbreytt fög í námskránni án þess að þau beri yfirskriftina umhverfisfræðsla og allir staðnemar hafa verið hvattir til að fylgja instagramsíðu nefndarinnar. Meðal verkefna sem þóttu vel heppnuð á síðasta ári var fataskiptasláin. Það verkefni er komið til að vera. Um tvö hundruð skólar eru þátttakendur í grænfánaverkefninu á Íslandi. Fyrstu skólarnir voru grunnskólar en nú eru skólar á öllum skólastigum þátttakendur, þar á meðal tveir háskólar. MTR mun flagga sínum fyrsta grænfána þann 23.september næstkomandi. Verkefnisstýra grænfánans í MTR er Karólína Baldvinsdóttir.
Lesa meira

Þriðja græna skrefið

MTR hefur stigið þriðja skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, fyrstur framhaldsskóla landsins. Þorbjörg Sandra Bakke, starfsmaður Umhverfisstofnunar, afhenti viðurkenningu á þessu í skólanum í dag. Tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað, kennari á náttúruvísindabraut.
Lesa meira

Drasl eða djásn

Í miðannarvikunni hefur hópur nemenda endurnýtt gamla hluti og búið til nýjar vörur. Nemendur öfluðu sér hráefnis, rannsökuðu það, greindu og mátu möguleikana á nýtingu. Í vettvangsferð um bæinn og heimsókn í nokkur fyrirtæki var aflað fanga og fróðleiks um smíði og framleiðsluaðferðir. Meðal hluta sem til urðu er borð sem hefur brúsa fyrir fætur en brotnar flísar skreyta plötuna, stólar úr rörum og líka stólar úr frauðplasti. Gamall þrýstikútur varð að fótstykki fyrir lítið borð og lampa en rör úr fótboltamarki heldur ljósinu uppi. Þá eru markmannshanskar að öðlast framhaldslíf sem blómapottar. Lokaskrefið er síðan að stilla vörunni upp til kynningar eða auglýsingar. Almenn ánægja er með námskeiðið og orðaði einn nemandinn það svo að sjónsviðið hefði stækkað varðandi hvað hægt væri að gera úr gömlum hlutum. Leiðbeinandi var Dagur Óskarsson, vöruhönnuður.
Lesa meira

Verðlaun í myndbandasamkeppni

Tveir hópar MTR-nemenda hafa unnið til verðlauna fyrir myndbönd í norrænni samkeppni. Þemað var sýn nemenda á plastmengun í heimshöfunum og hvernig þeir sjá fyrir sér að hægt sé að leysa vandamálið, eða hluta þess. Birna Björk Heimisdóttir og Sara Sigurbjörnsdóttir fengu fyrstu verðlaun, þyrluferð, fyrir sitt myndband. Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus Þorvaldsson, Mikael Sigurðsson og Tryggvi Þorvaldsson fengu önnur verðlaun og verður myndbandið þeirra sýnt ásamt hinum myndböndunum sem lentu í efstu sætunum. Það gerist á ráðstefnunni „Plastic in the Artic“ sem haldin verður í Reykjavík í apríl.
Lesa meira

Trjám plantað

Jólafastan er að jafnaði ekki tími gróðursetningar. Þvert á móti er hefð fyrir því að fella tré, skreyta þau og kalla jólatré. En í MTR eru hefðir ekki allsráðandi og skapandi hugsun í hávegum höfð. Því var ákveðið að nýta þennan hlýja og fallega desemberdag til að gróðursetja nokkur tré á skólalóðinni. Tegundirnar eru birki og reynir og eru trén mera en tveir metrar á hæð. Samkvæmt almennum ráðleggingum Hafsteins Hafliðasonar er tíminn til að gróðursetja tré frá lokum ágústmánaðar og eiginlega allur veturinn, svo framarlega að mold sé það þíð að handhægt sé að grafa holur fyrir ræturnar. Þetta síðasta skilyrði má deila um hvort verið hafi fyrir hendi í Ólafsfirði í dag. En við vonum hið besta og ætlum að trúa því að trén sem plantað var lifi og verði nemendum og starfsmönnum til yndisauka.
Lesa meira

Náttúra og listir

Nokkrir nemendur á starfsbraut hafa að undanförnu unnið með nærumhverfi sitt í Ólafsfirði. Það var m.a. gert með því að fara í gönguferðir, taka ljósmyndir og rýna í kort til að átta sig á staðháttum og örnefnum. Síðan var unnið með ljósmyndirnar og útlínur fjallahringsins teiknaður upp, örnefni sett inn og fræst í glært plexígler með laserskera. Þannig er hægt að bera saman við fjöllin og sjá hvað þau heita. Þetta verkefni var unnið sameiginlega í náttúruvísindum og listum. Hægt verður að sjá afraksturinn af þessu skemmtilega verkefni á haustsýningu skólans 14. desember. Á myndinni virða Kristinn Gígjar Egilsson og Sæbjörg Ágústsdóttir stuðningsfulltrúi fyrir sér fjöllin í Ólafsfirði.
Lesa meira