Vinnudagar kennara

Að venju setti undirbúningur skólastarfsins í vetur svip á sérstaka vinnudaga kennara í upphafi haustannar. Einnig var nokkrum tíma varið til að ræða stöðu fjölmargra samstarfsverkefna við skóla í öðrum löndum. Þá var hugarflug í sambandi við undirbúning alþjóðlegu ráðstefnunnar EcoMedia 2018 sem MTR skipuleggur og heldur í Fjallabyggð í október á næsta ári.

Umræður um aukið samstarf skólans og Grunnskóla Fjallabyggðar tóku nokkurn tíma. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri GF upplýstu að þar væri verið að fara yfir hverju þurfi að bæta við í sambandi við snjalltæki. Gert sé ráð fyrir að nemendur í efri bekkjum þrói notkun sína á símunum, einkum í 8.- 10. bekk t.d. til að afla upplýsinga, hlusta á hljóðbækur og reikna. Notkunin verði aukin á sanngjarnan hátt en tryggt þurfi að vera að góðum siðum sé fylgt í notkuninni. Kennarar bjuggu til sameiginlegan hóp kennara í Fjallabyggð á Facebook sem vettvang upplýsingagjafar og skoðanaskipta starfsmanna í skólunum tveimur.

Anna Ólafsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri ræddi um aðferðir við að efla virkni nemenda í þróun náms og skólastarfs. Anna hefur fjallað fræðilega um mismunandi hugmyndir um gæði kennslu og leitað leiða til að auka lýðræði í menntun. Miklar umræður urðu í starfsmannahópnum um námsskrá, um frelsi skóla og starfsmanna þeirra til að ráða námsefni, kennsluaðferðum og námsmati.

Aðstæður til náms, skipulag námsrýmisins og val nemenda á stað til að læra er lykilatriði. Ólöf Kristín Ásgeirsdóttir kennari í Grunnskóla Fjallabyggðar fræddi MTR-kennarana um sitt kennslukerfi og aðferðafræðina sem hún beitir. Ólöf Kristín hefur verið umsjónarkennari á yngsta stigi í GF.