Upplýsingatækniþjálfun kennara

Andreas Riepl mynd GK
Andreas Riepl mynd GK

Í Austurríki er sérstök stofnun sem sinnir því hlutverki að auka hæfni kennara og bæta frammistöðu skóla á sviði upplýsingatækni. Hún er í menntamálaráðuneyti Austurríkis. Andreas Riepl, framkvæmdastjóri hennar, lýsti skipulaginu á evrópuráðstefnunni í MTR. Einstakir skólar skrá sig til þátttöku í verkefninu og þurfa síðan að gera reglulega grein fyrir þeim skrefum sem tekin hafa verið. Frammistaðan hefur áhrif á fjárveitingar til skólanna. Þeir eru á ýmsum stigum. Á þriðja þúsund skólar taka þátt og hafa tæplega átta hundruð náð því stigi að teljast „sérfræðingar“ í notkun upplýsingatækni. Mat er bæði sjálfsmat og formleg úttekt. Stofnunin útbýr líka eða útvegar námsefni fyrir kennara á mismunandi skólastigum. Einnig er kennurum greitt fyrir efni sem sett er inn í gagnabanka sem kallast eTapas. Andreas Riepl sagði að reynt væri að fókusera á nám og kennslu fremur en tæknina sem notuð er. Hann greindi frá ráðstefnu sem hann hefði sótt nýlega þar sem risarnir á sviði uppýsingatækni, Google, Microsoft, Apple og fleiri kynntu sig og sitt. Ekki fór á milli mála að hann taldi Google vera með bestu nálgunina á viðfangsefnið út frá námi, hæfni og þróun. Hin fyrirtækin væru uppteknari af því að selja sín eigin tæki.

Fjölmörg fróðleg erindi hafa verið haldin á GERE evrópuráðstefnunni um hnattræna menntun í dreifbýli. Kennarar og aðrir skólamenn hafa einnig í smærri hópum sýnt hverjir öðrum og sagt frá aðferðum og nálgunum sem þeir nota.

Hluti dagskrárinnar samanstendur af kynnisferðum, samveru og upplifunum af ýmsu tagi. Mikið stuð ríkti á kvöldvöku á Siglufirði á þriðjudagskvöld, heimsókn í Síldarminjasafnið var eftirminnileg en þeir sem reyndu sjósund í Ólafsfirði gleyma þeirri reynslu sennilega seint. Þá hefur fólk heimsótt skóla bæði í Fjallabyggð og á Akureyri, skoðað hvali, hitaveitu, minjar um atvinnuhætti og menningu fyrri tíðar og ýmislegt fleira sem of langt er upp að telja en MYNDIR segja sína sögu.