Lanzaroteferð

Lanzaroteferð mynd Ida Semey
Lanzaroteferð mynd Ida Semey

Undirbúningur ellefu nema fyrir næsta áfanga í erlenda samstarfsverkefninu um sjálfbærni og valdeflingu er í fullum gangi. Lagt verður af stað á föstudag og komið heim tíu dögum síðar. Samstarfsaðilar eru framhaldsskólar á Lanzarote, einni Kanaríeyja og á Ítalíu. Íslendingar og Ítalir ferðast til Lanzarote í þessum áfanga verkefnisins og njóta gestrisni heimamanna þar. Markmiðið er að sjá og skoða sem mest af því sem ferðaþjónusta á eynni býður gestum. Spurningin er - hvers njóta ferðamenn þar? Flestir MTR nemar gista hjá fjölskyldum og hafa þegar hafið samskipti við gestgjafa sína. Samstarfsaðilarnir á Lanzarote hafa undirbúið komu gestanna mjög vandlega og greinilega hugsað fyrir flestu. Almenningssamgöngur eru til dæmis lélegar á eynni og hafa gestgjafarnir því útvegað bílaleigubíla til að komast á milli staða. Sérstakir bolir hafa líka verið hannaðir fyrir þátttakendur. Ferðareglur hópsins frá MTR eru fimm og er þar efst á blaði að allir séu jákvæðir, haldi hópinn, sýni kurteisi og tillitssemi og láti strax vita ef eitthvað bjátar á.

Verkefnið tekur tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Hugmyndin er „samstarf við þróun viðskiptahugmynda sem geta veitt lífsviðurværi í sjálfbærum samfélögum á ólíkum stöðum“. Tilgangurinn er að auka líkur á að ungt fólk skapi sér framtíð í heimabyggð. Erasmusstyrkur að upphæð ellefu milljónir króna fékkst til verkefnisins og því er stýrt af starfsmönnum MTR.