Patrekur Þórarinsson húsasmiður og slökkviliðsmaður

Patrekur Þórarinsson er frá Siglufirði. Hann útskrifaðist af náttúrufræðibraut og útivistarsviði íþróttabrautar MTR í desember 2016. Eftir það hefur hann sótt sér ýmsa menntun m.a. sveinspróf í húsasmíði og meirapróf og er að ljúka námi sem slökkviliðsmaður. Patrekur býr enn á Siglufirði og starfar sem smiður hjá L7 verktökum auk þess sem hann er hlutastarfandi slökkviliðsmaður í Slökkviliði Fjallabyggðar og starfsmaður í félagsmiðstöðinni Neon. Við spurðum Patrek hvernig námið í MTR hafi undirbúið hann fyrir áframhaldandi nám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.

Námið í MTR undirbjó mig vel fyrir framhaldsnám. Símatið heldur manni á tánum og maður lærði fljótt að gera hlutina jafnt og þétt í stað þess að geyma þá fram á síðustu stundu. Það sem hefur líklega gagnast mér mest er að læra að vinna í tölvu því framtíðin liggur í tækninni og tölvukunnáttan hefur komið sér mjög vel. Ég hef verið í námi meira og minna síðan ég útskrifaðist úr MTR og megnið af því hefur verið fjarnám í gegnum tölvuna og þar er ég á heimavelli eftir árin í MTR.

Að lokinni útskrift fór ég í lýðháskóla í Danmörku, Gerlev Idrætshöjskole, það var frábær upplifun, mikil útivist og allskonar íþróttir og þar kynntist ég fólki frá ýmsum heimshornum. Í byrjun árs 2018 skráði ég mig svo í húsasmíði í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Þar sem ég hafði lokið stúdentsprófi gat ég tekið bóklega þáttinn heima, í fjarnámi, en fór svo nokkrar helgar á önn upp á Krók í verklega þáttinn. Ég útskrifaðist með sveinspróf í húsasmíði í byrjun árs 2021. Síðan þá hef ég verið að mennta mig sem slökkviliðsmaður, hef einnig tekið meiraprófið og er að læra spænsku. Fyrir utan verklegu þættina hef ég stundað þetta nám í fjarnámi.

Það eftirminnilegasta úr MTR er án efa fólkið. Kennararnir voru frábærir og ég eignaðist góða vini á þessum árum. Ég verð líka að minnast á allar útivistarferðirnar og ferðirnar erlendis, þær voru virkilega skemmtilegar en einnig krefjandi.

Síðasta vor birtum við nokkur viðtöl við nemendur sem höfðu stundað nám hjá okkur í MTR og lokið framhaldsnámi í háskólum eða á öðrum vettvangi. Tilgangurinn var að fá að vita hvernig námið hjá okkur hafi undirbúið nemendur fyrir frekara nám. Við munum halda áfram að birta slík viðtöl og hér að ofan er það fyrsta á þessari önn.