Ort af kappi

Ort af kappi mynd GK
Ort af kappi mynd GK

Undanfarna tvo daga hafa nemendur úr 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar komið í skólann til að yrkja. Tilefnið er hin árlega ljóðasamkeppni þessara bekkja sem er liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem haldin hefur verið í Fjallabyggð undanfarin 17 ár. Hátíðin er samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa en Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga eru meðal þeirra aðila sem koma að framkvæmdinni. Nemendur nota listaverk sem innblástur að ljóðum og að þessu sinni voru sett upp verk eftir starfsfólk skólans og fyrrverandi nemendur hans.

Þórarinn Hannesson kennari í MTR og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands veitti nemendum góð ráð í ljóðagerðinni áður en haldið var af stað. Vel gekk hjá nemendum að setja í orð túlkun sína á þeim listarverkum sem prýddu veggi og tæplega áttatíu ný ljóð urðu til. Næstu daga mun dómnefnd vega og meta afurðirnar og höfundar bestu ljóðanna verða svo verðlaunaðir. Úrslit verða kunngjörð á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði í desember.

Það er mikils virði fyrir skólann að fá ungmenni úr grunnskóla byggðarlagsins í heimsókn. Með því fá þau að kynnast andrúmsloftinu í skólanum sem eykur líkurnar á að þau sækist eftir skólavist þegar þar að kemur. Myndir