Nýbreytni í félagslífi nemenda

Eins og við höfum sagt frá hér áður er öflugt félagsstarf í skólanum sem stjórn nemendafélagsins Trölla leiðir. Félagsstarfið markast þó af þeirri staðreynd að staðnemar skólans koma frá nokkrum byggðakjörnum á Eyjafjarðarsvæðinu, allt frá Akureyri til Siglufjarðar, og ekki eru almenningssamgöngur á milli þeirra nema á daginn. Félagsstarfið er því að einhverju leyti bundið við skóladaginn en stakir stærri viðburðir eru á kvöldin s.s. jólakvöld, árshátíð og spila- og lankvöld enda nemendur oft uppteknir við vinnu eða að sinna félagsstarfi í sinni heimabyggð á kvöldin. Má þar t.d. nefna íþróttaæfingar og tónlistariðkun, margir starfa með ungliðasveitum björgunarsveita og einhverjir hafa stigið á leiksvið með leikfélögum á svæðinu, svo eitthvað sé nefnt.

Á síðustu önn var tekin upp sú nýbreytni að nemendum MTR var boðinn aðgangur að félagsmiðstöðinni Neon í Fjallabyggð eitt kvöld í mánuði, að frumkvæði starfsfólks Neon. Hefur þessu samstarfi verið haldið áfram á þessari önn og opnunarkvöldin verið vel sótt. Félagsmiðstöðin er á Siglufirði og var tekin í notkun í fyrra. Hún er hin glæsilegasta og vel tækjum búin svo ungmennin hafa nóg við að vera.