Nám til framtíðar

Guðbjörn og Ida
Guðbjörn og Ida

Menntaskólinn á Tröllaskaga er meðlimur í FLUID, sem eru dönsk samtök um fjarnám. Samtökin skipulögðu ferð á hina árlegu ráðstefnu Online Educa Berlin, OEB 2023, sem bar undirtitilinn “The 29th Annual Global Cross-Sector Conference and Exhibition on Digital Learning and Training “ og fór hún fram dagana 22. - 24. nóvember sl. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 2000 og þar af voru tveir kennarar frá MTR. Þema ráðstefnunnar í ár var “The learning futures we choose” .

Fyrsta daginn voru ýmsar áhugaverðar vinnustofur en hinir tveir dagarnir hófust á stórum fyrirlestrum fyrir alla þátttakendur og síðan tóku við minni málstofur, samtals um 120 talsins. Fyrirlesarar voru af ýmsum sviðum menntageirans: prófessorar, stjórnendur rannsóknarstofa og fjarnámsdeilda ýmissa háskóla, heimspekingar, ráðgjafar með reynslu úr skólakerfinu o.fl. Það var því um mjög margt að velja fyrir kennarana tvo úr MTR sem gerðu sitt besta til að komast yfir það áhugaverðasta.

Rauði þráðurinn í öllum erindum var svipaður; hvaða framtíðar námsumhverfi veljum við, hvernig förum við að því, hvaða breytingar hefur það í för með sér og hvað ber að hafa í huga í því tilliti. Mikið var rætt um þýðingu og nauðsyn þess að bregðast við tilkomu gervigreindar eins og CHatGTP og vangaveltur voru um hönnun námsefnis, námsumhverfi, námsmat, kennslufræði, siðfræði og gagnrýna hugsun svo dæmi sé tekið.

Eftir að hafa innbyrt og melt það sem kennarar MTR komust yfir af erindum á ráðstefnunni voru þeir sammála um að MTR væri á góðum stað. Kennarar skólans væru í sífelldri starfsþróun og skólinn stæði framarlega í þeim málum sem rædd voru á ráðstefnunni.. Myndir