Hrekkjavökugleði og annað félagsstarf

Nemendaráð mynd Hólmar
Nemendaráð mynd Hólmar

Í síðustu viku var Hrekkjavökunni fagnað hjá nemendafélagi skólans með hryllilegri samkomu í skólanum. Salur skólans var skreyttur hátt og lágt með graskerjum og viðeigandi verum og vefjum. Hryllingsmynd rúllaði á skjánum og nemendur klæddust ýmsum búningum í anda dagsins. Skemmtu allir sér hið besta.

Það sem af er hausti hefur nemendafélagið Trölli staðið fyrir mörgum viðburðum. Gleðin hófst með nýnemadeginum þar sem farið var í ratleik um Ólafsfjörð, spilaður fótbolti og svamlað í sundlauginni og heitu pottunum. Síðan var haldið spilakvöld þar sem ýmis borðspil voru leikin og tvö lan-kvöld hafa verið haldin þar sem tölvuleikir áttu sviðið. Ekki má gleyma hinum vinsælu þemadögum en alla miðvikudaga mæta nemendur í skólann klæddir eftir mismunandi þemum og starfsfólkið tekur einnig virkan þátt. Undirbúningur fyrir jólakvöldið í desember er einnig hafin hjá nemendafélaginu en sá viðburður er sá stærsti á önninni í félagslífinu.

Nemendaráði til halds og trausts við skipulag þessara viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, en rík áhersla er þó lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.