Fyrsti nemendadagurinn á nýrri önn

Skólasetning mynd GK
Skólasetning mynd GK

Í dag mættu nemendur að nýju í skólann eftir gott sumarleyfi. Urðu þar fagnaðarfundir og nýnemar voru greinilega spenntir að stíga næstu skref á námsferlinum. Lára Stefánsdóttir skólameistari bauð nemendur velkomna, hvatti þá til dáða í náminu á komandi vikum og lagði áherslu á að námið væri á þeirra ábyrgð. Fulltrúar nemendaráðs kynntu stuttlega starfsemi ráðsins, óskuðu eftir hugmyndum til að gera gott félagslíf betra og áhugasömum fulltrúum í ráðið; það væru tvö sæti laus.

Að venju fór fyrsti skóladagurinn annars í að koma hlutunum af stað. Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi, kynnti nýnemum helstu kerfi skólans með aðstoð nokkurra kennara. Var þar um að ræða kennslukerfið Moodle og Innu þar sem haldið er utan um mætingu nemenda, stundatöflur, námsferil og einkunnir. Auk þess fræddust nýnemar um vinnulagið í skólanum s.s. vikulotur, símat, fjölbreytt skil verkefna og ábyrgð nemenda á eigin námi. Að lokinni kynningu skráðu nýnemar sig inn í þá áfanga sem þeir munu sitja á önninni. Reyndari nemendur skoðuðu stundatöflur sínar, spjölluðu við starfsfólk skólans og athuguðu hvaða verkefni bíða þeirra þegar skólastarfið fer af stað af fullum krafti á mánudaginn.

Skólasetning mynd Gk