Fræðsla um kynbundið ofbeldi

Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og einn liðurinn í að rækja skyldur sínar sem slíkur er að halda upp á nokkra alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna þar sem sjónum er beint að ákveðnu málefni. Á skólafundi í haust völdu nemendur fjögur málefni sem þeim þótti mikilvægast að fá fræðslu um og vekja athygli á og eitt þeirra var kynbundið ofbeldi. Alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi var 25. nóvember og þá hófst 16 daga herferð þar sem athyglinni er beint sérstaklega að kynbundnu ofbeldi sem fer fram með stafrænum hætti. Það er áreitni, misnotkun eða annað ofbeldi sem á sér stað í síma, tölvum eða á netinu. Átakinu lýkur 10. desember, á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna.

Í tilefni átaksins var dagskrá í skólanum í dag þar sem farið var yfir mögulegar birtingarmyndir stafræns ofbeldis og viðbrögð gegn því. Fræðsla er mikilvæg í þessum efnum sem öðrum því með aukinni vitund, stuðningi og skýrum viðbrögðum getum við dregið úr þessu vaxandi vandamáli og stutt þau sem verða fyrir slíku ofbeldi. Einkennislitur 16 daga átaksins er appelsínugulur, táknar hann von og líf án ofbeldis. Mættu þó nokkrir klæddir þessum líflega lit í skólann í dag og boðið var upp á mandarínur meðan fræðslan fór fram.

Meðfylgjandi er glærukynning sú sem farið var yfir í dag og talar Ida Semey, kennari skólans inn á hana. Einnig er hér að neðan slóð á síðu UN Women þar sem er frekari fræðsla og frétt um átakið.

https://unwomen.is/16-daga-atak/