Fjölmenni og fjör á opnun haustsýningar skólans

Haustsýning skólans var opnuð í dag og var mæting með allra besta móti. Ákveðið hafði verið að blása til nýrrar sóknar og gera sýninguna í skólahúsinu glæsilega úr garði. Undanfarin ár hafa verið lituð af áhrifum Covid faraldursins og sýningarhald að mestu leyti farið fram á vefnum en færri verkum stillt upp í skólanum. Nú var þessu öfugt farið og veggir skólans þaktir verkum jafnt fjarnema sem staðnema. Kenndi þar ýmissa grasa og til sýnis voru ljósmyndir, þrívíð verk og málverk nemanda af listabraut sem og skapandi verkefni nemanda af öðrum brautum. Vakin er athygli á því að valin verkefni eru einnig til sýnis á heimasíðu skólans. Ungum sýningargestum var boðið upp á að fást við jólaföndur af ýmsu tagi og taka með sér heim kerti sem steypt voru á staðnum úr kertaafgöngum, enda skólanum umhugað um endurnýtingu.

Opnunardagurinn tókst eins og best verður á kosið og mun fleiri sóttu opnunina en síðustu ár. Sýningin verður opin til 20. desember á starfstíma skólans og er fólk hvatt til að líta inn og skoða afrakstur vinnu nemenda á haustönninni. Myndir