Anna Kristín Semey málari

Anna Kristín Semey
Anna Kristín Semey

Anna Kristín fluttist til Ólafsfjarðar á unglingsárum. Hún útskrifaðist af myndlistasviði listabrautar MTR vorið 2017. Í kjölfarið skráði hún sig í kennaranám en fann sig ekki í því og fór út á vinnumarkaðinn. Löngunin til að læra meira blundaði samt alltaf í henni og haustið 2021 hóf hún nám í málaraiðn við Tækniskólann og útskrifaðist sem málari á dögunum. Anna Kristín býr í dag í Reykjavík og starfar sem málari hjá málningarþjónustunni 250 litir og í málningarversluninni Farver. Við spurðum Önnu Kristínu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir frekara nám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.

Ég lærði mikið um markmiðasetningu í MTR og hvernig á að skipuleggja nám sitt. Málaranámið er þannig uppbyggt að það er mjög einstaklingsmiðað og við höfum mikla stjórn á okkar verkefnaskilum. Það er líka á okkar ábyrgð hvernig við skipuleggjum námið. Ég tók t.d. ákveðinn fjölda verkefna á hverri önn, og miðaði við nokkur verkefnaskil í hverri viku. Það er eitthvað sem líkist mjög skipulaginu í MTR og ég var vel öguð í.

Þjálfunin á word, excel, google drive o.fl. forrit í MTR gagnaðist mér líka mjög vel þegar kom að því að skila verkefnum í málaranáminu þar sem ég fékkst við mælingar, excel skjöl og ýmislegt af því tagi. Í MTR lærði ég einnig hvernig hægt er að nýta allskonar tækni til að hjálpa mér með nám.

Hvað er eftirminnilegast úr MTR?

Litafræðin hjá Bergþóri og læra að skipuleggja mig. Skipulag er númer eitt tvö og þrjú í málaraiðn og því er ég vel undirbúin eftir námið í MTR og Tækniskólanum.

Síðustu annir höfum við birt viðtöl við nemendur sem hafa stundað nám hjá okkur í MTR og lokið framhaldsnámi í háskólum eða á öðrum vettvangi. Tilgangurinn er að fá að vita hvernig námið hjá okkur hefur undirbúið nemendur fyrir frekara nám. Við munum halda áfram að birta slík viðtöl og hér að ofan er það fyrsta á þessari önn.