Brautskráning

Hópmynd GK
Hópmynd GK

Fjörutíu nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Sextán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, þrír af íþrótta- og útivistarbraut, þrír af kjörnámsbraut, fimm af listabraut, myndlistarsviði, tveir af listabraut, listljósmyndunarsviði, tveir af náttúruvísindabraut, sjö af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og tveir af starfsbraut. Tuttugu og níu brautskráðra eru fjarnemar og voru ellefu þeirra viðstaddir útskriftarathöfnina. Skólinn hefur starfað í ellefu ár og hafa samtals 388 brautskráðst frá upphafi, flestir af félags- og hugvísindabraut, nær fjörutíu prósent hópsins.

Lára Stefánsdóttir, skólameistari hvatti nemendur sem voru að brautskrást til að standa með sjálfum sér - að vera eigin vinur í raun. Hættulegt væri að vera eins og sóðalegt kommentakerfi í eigin garð. Við sitjum uppi með okkur sjálf alla ævi en getum losnað við alla aðra, sagði Lára. Það þarf ögun til að vera glaður með eigið líf og veita okkur sjálfum þann stuðning sem þarf. Við erum ekki að tala um sérhygli, sagði hún, heldur að standa með okkur sjálfum í dagsins önn og öllum helstu verkefnum lífsins.

Sigrún Kristjánsdóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagði að í dag væri mikill hátíðisdagur. Bæði stað- og fjarnemar væru að ljúka námi eftir mislangan námstíma og komið að leiðarlokum. Hún sagðist alltaf hafa átt þann draum að útskrifast úr framhaldsskóla en hefði bara lokið skólaskyldu og svo hafi vinna, fjölskylda og börn tekið við. Hún hafi fyrir nokkrum árum leitað að rétta skólanum, þar sem hægt væri að stunda nám en sleppa við hefðbundin lokapróf. Hún fann MTR og hóf nám haustið 2013 í fjarnámi á listabraut fimmtíu og tveggja ára. Hún sagðist hafa blómstrað í náminu á listabraut og væri nú búin að ná markmiði sínu. Skólinn hefði verið við sitt hæfi og kennarar frábærir. Hún sagði að námið hefði verið fjölbreytt og skemmtilegt og hún væri stolt af hafa nú lokið því. Hún þakkaði Birgittu Sigurðardóttur, umsjónarkennara fjarnema, sérstaklega fyrir að vaka yfir velferð þeirra dag og nætur.

Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara, kom fram að í upphafi skólaársins voru 442 nemendur skráðir í skólann. Í upphafi vorannar voru nemendur 493, þar af 422 í fjarnámi. Af þessum tölum má sjá hversu mikilvægur þáttur fjarnámið er í skólanum og í raun gerir það okkur kleift að halda uppi námsframboði fyrir staðnemendur af svæðinu. Meira en helmingur fjarnema býr á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn skólans á vorönn voru 28.

Faraldurinn og samkomubann höfðu að sjálfsögðu mikil áhrif á skólastarfið í vetur. Framan af hausti gátu nemendur mætt í skólann með ákveðnum takmörkunum en seinni hluta haustannar var eingöngu fjarkennt. Á vorönn var unnt að halda uppi staðkennslu innan þess ramma sem sóttvarnareglur leyfðu. Nemendur og starfsfólk hafa staðið sig gríðarlega vel og samkvæmt könnunum hefur flestum liðið nokkuð vel miðað við aðstæður. Það hefur enn og aftur sannað sig að í MTR er hugsað í lausnum. Í þriðja sinn er til dæmis sýning á verkum nemenda í annarlok rafræn og öllum opin. Þá héldu nemendur í skapandi tónlist glæsilega fjáröflunartónleika fyrir jól sem sendir voru út beint á netinu. Hluti sama hóps gerði sér lítið fyrir og vann söngkeppni framhaldsskólanna í lok september.

Starfsmenn skólans hafa verið duglegir að taka þátt í erlendum verkefnum. Eins og gefur að skilja hafa samskiptin í slíkum verkefnum takmarkast við netsamskipti í vetur. En vonandi verður brátt breyting á og þá höldum við ótrauð áfram, því við teljum slík verkefni ákaflega gefandi og lærdómsrík og höfum verið svo heppin að fá marga styrki sem sótt hefur verið um. Skólinn hefur nú fengið staðfestingu sem Erasmus-skóli og auðveldar það allt starf á þeim vettvangi. Í skólanum er unnið ötullega að umhverfismálum og hefur skólinn tekið þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri“ og hefur nú, annar af tveimur skólum, lokið við að uppfylla öll skrefin fimm.

Eins og áður er umtalsverð þróun í gangi og hefur skólinn fyrir löngu skapað sér sérstöðu á sviði fjarkennslu og í notkun upplýsingatækni í skólastarfi og henta kennsluaðferðir skólans þar mjög vel. Kennslufyrirkomulag skólans kom sér margoft einstaklega vel síðustu tvo vetur og hefur svo sannarlega sannað sig. Starfsemi skólans hefur hlotið margs konar viðurkenningu og má nefna að á haustdögum var skólinn tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna og var það okkur mikill heiður.

Lísebet Hauksdóttir og Þórarinn Hannesson, kennarar við skólann glöddu viðstadda með tónlistarflutningi við útskriftarathöfnina. Þau fluttu lögin Kvöldsigling eftir Gísla Helgason og Jón Sigurðsson og Þannig týnist tíminn eftir Bjartmar Guðlaugsson. MYNDIR