Áhersla á hamingjuna í kínverskum skólum

Lára og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari FSN á ráðstefnunni. Mynd: Sumarliði Ásgeirsson
Lára og Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari FSN á ráðstefnunni. Mynd: Sumarliði Ásgeirsson

Heimsráðstefna skólastjóra var haldin í Shanghai í Kína 23.-25. október s.l. Lára Stefánsdóttir skólameistari MTR sótti ráðstefnuna ásamt hópi íslenskra skólameistara. Ráðstefnan var einstaklega góð, fjölmargt mátti læra og skipulag og utanumhald til fyrirmyndar. Markmiðið með ferðinni var að meta hvað væri helst á döfinni í skólastjórnun í heiminum, kynnast áherslum Kína í menntun og hver framtíðarsýn væri á skólastarf. 

Weng Tiehui aðstoðarmenntamálaráðherra Kína sagði að gríðarlegar uppgötvanir í vísindum og tækni leiddu til breytinga á samfélaginu, menntun og kennsluaðferðum um allan heim. Hún sagði Kína standa frammi fyrir flóknum vandamálum í menntun og þyrfti að tryggja rétt hvers barns til menntunar og styðja þau til að velja sér eigin leið í lífinu. Hamingjan væri mikilvægur þáttur í skólastarfi. Fyrirlesarar frá Kína lögðu einmitt oft áherslu á hamingjuna sem líklega mætti yfirfæra á það sem við köllum vellíðan.

Mest spennan á ráðstefnunni var í kringum fyrirlestur Jack Ma eins stofnanda AliBaba Group en hann er einn ríkasti maður í heimi og talsmaður Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmið SÞ. Hann spáði styttri vinnuviku, unnið yrði þrjá daga og í þrjá tíma á dag. Okkur myndi þykja það nóg. Jack Ma er menntaður enskukennari og kenndi í sjö ár áður en hann lagði viðskipti fyrir sig. Hann leggur mikla áherslu á menntun og hefur stofnað skóla Yungu í Hangzhou með áherslum sem eru virkilega eftirtektarverðar varðandi tvítyngda kennslu, tækni, fjölda nemenda á hvern kennara og margt fleira. 

Fyrirlestur Yuan Zhenguo prófessors við East China Normal University var einnig mjög eftirtektarverður. Hann talaði um breytt hlutverk kennara, það væri flóknara en áður, kennarinn þyrfti að sýna meiri samhygð, væri leiðtogi og meiri áhersla á sköpun og listir. Auka þyrfti hæfni kennara í stafrænum heimi, efla vitund um áreiðanleika upplýsinga sem væri á ábyrgð samfélagsins. Mikilvægast væri að læra að læra vegna þeirra miklu breytinga sem framundan eru, vita sjálfur; hvað - af hverju - hvernig - hver.  Breytingin fælist í að fara frá því að ákvarða nám með kennslu í að ákveða kennslu með námi. Frá stjórn kennara til nemanda. Taka þyrfti á móti framtíðinni með byltingarkenndum huga. Myndir