Erlent samstarf til fyrirmyndar

Tvö erlend verkefni bíða á hillunni eftir að covid-faraldurinn réni eða gangi yfir. Annað er samstarf við framhaldsskóla á Spáni, Ítatíu og Portúgal en hitt er endurmenntunarverkefni fyrir starfsmenn. Þessi verkefni eiga að hefjast um áramótin. MTR hefur bæði gengið vel að afla samstarfskóla og fengið sérlega jákvæð viðbrögð við umsóknum um Erasmusstyrki. Ástæða þess er að verkefni sem skólinn hefur tekið þátt í hafa gengið mjög vel. Í formlegu mati á endurmenntunarnámskeiði sem lauk í vor kom fram að framkvæmdin hefði að mörgu leyti verið til fyrirmyndar. Allar ferðir tengdust skipulögðum námskeiðum eins og gert var ráð fyrir í umsókn. Allar ferðir voru farnar og ein að auki. Flest námskeiðin tengdust nýjum kennsluháttum eða nýrri tækni í námi og kennslu í samræmi við stefnu skólans. Fram kom líka í matinu að miðlun á reynslu þátttakenda væri markviss á reglulegum fundum og á facebooksíðu starfsmanna. Segja megi að skapast hafi sterk alþjóðleg menning innan skólans, það þyki sjálfsagt að starfsmenn taki þátt í alþjóðlegu samstarfi og stuðningur stjórnenda við það sé afgerandi. Í formlegri umsögn RANNÍS segir að þátttaka í Evrópuverkefnum hafi haft mikil áhrif bæði á einstaklingana og skólann í heild. Einstaklingar hafi vaxið í starfi, eigi auðveldara með að takast á við krefjandi aðstæður og hafi byggt upp net tengsla við erlenda kollega. Verkefnisstjóri erlendra samskipta í MTR er Ida Semey.