Aðeins fjórðungur með fjölnota poka

Lítil vettvangsathugun sem gerð var í Kjörbúðinni á Dalvík bendir til þess að um 73% þeirra sem þar versla noti plastpoka undir vörurnar en um 27% fjölnota poka.  Athugunin fór fram tvo daga um miðjan nóvember og var fylgst með viðskiptavinum í tvær og hálfa klukkustund samtals. Hlutfallslega eru fleiri konur með fjölnota poka en karlar, hjá konum var hlutfallið 33% en hjá körlum aðeins 17%. Setja verður þann fyrirvara að athugunin er ekki umfangsmikil en niðurstöðurnar veita þó ákveðna vísbendingu.

Vettvangsathugunin var verkefni í sálfræðiáfanga á öðru þrepi. Nemendur völdu viðfangsefni og rannsóknaraðferð og bárust margar athyglisverðar úrlausnir.

Nemandi sem kannaði áhrif skammdegis á andlega líðan fann vísbendingar um að konur væru næmari fyrir skammdeginu en karlar en fram kom að þær kynnu að vera opnari fyrir því að ræða um andlega líðan sína en karlar og virtust hafa jákvæðara viðhorf til faglegrar aðstoðar.

Tveir nemendur athuguðu hvort foreldrar notuðu viðeigandi öryggisbúnað þegar þeir sækja börn í leikskóla. Flestir reyndust gera það en athygli vakti að nokkuð hátt hlutfall, 23%, lét bílvélina ganga á meðan börnin voru sótt og var bílunum í flestum tilvikum lagt við skilti þar sem því er beint til fólks að drepa á bílnum.

Nemendi sem rannsakaði sjóveiki komst að því að þetta er afbrigði af ferðaveiki sem stafar yfirleitt af veltingi. Lyf lækna hana ekki en draga úr einkennum. Fram kom að níu af hverjum tíu sem við var rætt og höfðu sótt sjó höfðu orðið sjóveikir og er það sambærileg niðurstaða og aðrir rannsakendur hafa fengið.

Nemandi sem fylgdist með hverjir hrækja á gervigrasið í fjölnota íþróttahúsi tók fram að það hefði ekki verið mjög skemmtilegt. Tilefni þessarar vettvangsathugunar var hætta á sýkingum vegna óhreininda frá fólki í gervigrasinu. Vísbending fékkst um að það væru fremur fullorðnir en yngri knattspyrnuiðkendur sem hræktu á gólfið.