Lýðheilsustefna

Menntaskólinn á Tröllaskaga tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og er núna á fyrsta árinu sem er undirbúningsár.

Um verkefnið
Verkefnið snýr að heildrænni stefnu í forvarna- og heilsueflingarmálum sem  gerir framhaldsskólum kleift að marka sér skýra stefnu, skerpa á aðgerðaráætlunum og forvörnum og jafnframt mynda á hagnýtan hátt skýran ramma utan um þennan almenna málaflokk.

Verkefnið hefur verið þróað í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, undir formerkjum HoFF samstarfsins. (Heilsuefling og forvarnir í framhaldsskólum (HoFF) er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar, Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og Hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema (HÍF).


Markmið
Markmiðið með verkefninu er að stuðla markvisst að velferð og góðri heilsu framhaldsskólanemenda. Enda hafa rannsóknir sýnt að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda og stuðlar að betri násmárangri.

Aðferð
Áherslur í heilsueflingu og forvörnum hafa þróast í áranna rás. Reynsla og rannsóknir hafa smám saman fært okkur frá innrætingu yfir í upplýsingagjöf, þaðan yfir í sjálfsstyrkingu og svo loks yfir í heildrænni og almennari nálgun. En samantektir á rannsóknum frá ýmsum löndum sýna okkur nú að forvarnir sem virka best eru þær sem nýta sér heildræna nálgun, sbr. hugmyndafræði Heilsueflandi skóla.

Meðal þeirra sem sinna heilsueflingu hefur verið vaxandi skilningur á því að nauðsynlegt sé fyrir skólasamfélagið að stofna til nýrra og fjölþættari tengsla, og jafnframt milli ólíkra faghópa, til að takast á við félagsleg og fjárhagsleg mál sem lúta að heilsufari. Skólarnir þurfi að setja sér stefnu í heilsueflingarmálum þannig að kennarar, foreldrar, nemendur og aðrir sem taka þátt í skólastarfinu hafi í höndum traustar leiðbeiningar og geti gripið til aðgerða í heilsueflingarmálum. Slík stefna getur orðið til þess að skólarnir ráði betur við ýmis heilsu- og félagsleg málefni, efli námsgetu nemenda og bæti skólastarfið í heild sinni. Rannsóknir benda til þess að þegar skólum tekst vel til við að setja sér stefnu og framkvæmdaáætlun í heilsueflingarmálum geti það haft verulegan áhrif á líf og starf alls ungs fólks sem nemur og hrærist innan skólanna, sem og starfsfólksins.


Unnið að verkefninu
Í verkefninu er m.a. leitast við að samtvinna stefnu og starfsemi Heilsueflandi framhaldsskóla öðru íþrótta-, forvarna-, heilbrigðis- og menntastarfi í samfélaginu. Samhliða verður unnið að því að efla tengsl við foreldra og grenndarsamfélagið. Verkefnið er árangursmetið og er könnun á viðhorfum og hegðun nemenda í byrjun skólaárs til grundvallar í árangursmati. Fyrsta skrefið í stefnumótun skólans er þróun gátlista, markmiða, aðgerðaráætlunar og tengslanets.

Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl, en eitt viðfangsefni er tekið fyrir á hverju ári. Því eru viðfangsefnin jafn mörg og námsár flestra framhaldsskólanema (en sameina má málaflokka í samræmi við styttri námsbrautir).

Þegar skólinn hefur uppfyllt lágmarkskröfur gátlista Heilsueflandi framhaldsskóla öðlast hann bronsviðurkenningu, en með tímanum getur hann fengið silfur og gull, þ.e. ef hann uppfyllir fleiri atriði gátlistanna. Gátlistarnir eru að hluta til ákveðnir fyrirfram með tilliti til þess sem verkefnið felur í sér, en jafnframt að hluta til unnir í samvinnu við skólann (þ.e. stýrihóp verkefnisins í skólanum), s.s. vegna umhverfis, aðstæðna og áherslna skólans.

Mikilvægt er að taka fram að stefna þarf að vera til staðar í öllum málaflokkum og því ýmis vinna í gangi öll árin, en einn málaflokkur er hinsvegar í brennidepli á hverju skólaári og því sýnilegastur í skólastarfinu. Þessir fjórir málaflokkar munu svo taka við hver af öðrum um ókomna tíð – og verkefnið endar því ekki fyrr en skóli annað hvort ákveður að hætta þátttöku eða uppfyllir ekki lengur lágmarkskröfur um Heilsueflandi framhaldsskóla.

Endurskoðað 12. febrúar 2013