Heilsustefna MTR

Heilsuefling í Menntaskólanum á Tröllaskaga er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemenda og skal unnið í góðum tengslum við nærsamfélagið. Verkefnið miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Því er ætlað að auka meðvitund um gildi bættrar heilsu og líðanar og hvetja nemendur og starfsmenn til virkrar þátttöku. Stefna skólans er að tryggja eins góða og heilsusamlega vinnuaðstöðu og kostur er.  

Meginmarkmið: Að marka og framfylgja stefnu um heilbrigði, hollustuhætti, aðbúnað og öryggi þeirra sem nema og starfa í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Stefnunni er ætlað að hafa áhrif á allar daglegar venjur og starf í skólanum.

 

Undirmarkmið:  

Menntaskólinn á Tröllaskaga setur sér sex undirmarkmið er lúta að aukinni hreyfingu, hollu mataræði, góðri andlegri og líkamlegri heilsu og vímuefnavörnum ásamt því að stuðla að jafnrétti og öryggi í skólanum.

Það eru markmið Menntaskólans á Tröllaskaga að:

 1. Hvetja til hreyfingar og heilsusamlegs lífernis og auka vitund um gildi hreyfingar fyrir heilsu, vellíðan og árangur.

Þetta verður t.d. gert með

 • því að nemendur og starfsfólk er hvatt til markvissrar daglegrar hreyfingar 
 • því að skólinn standi reglulega fyrir hreyfiviðburðum 
 • því að kennarar séu meðvitaðir um nýtingu nærumhverfis í kennslu
 • fræðslu og viðburðum sem stuðla að aukinni hreyfingu og vellíðan meðal nemenda og starfsfólks.

 2. Öll samskipti einkennist af jákvæðni og gagnkvæmri virðingu og að hver einstaklingur fái tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum. Skólabragurinn endurspegli virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og unnið sé gegn fordómum.

Þetta verður t.d. gert með     

 • fræðslu, þjálfun og vitundarvakningu um gildi geðræktar, t.d. með því að bjóða upp á slíka áfanga og með uppbroti í skólastarfi  
 • því að miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsfólks um hvert sé hægt að leita ef vandi steðjar að.

 3. Efla vitund um holla næringu og gildi næringar fyrir vellíðan og velgengni. 

Það verður t.d. gert með

 • því að mötuneyti bjóði upp á hollan valkost í samræmi við Handbók um næringu í framhaldsskólum
 • fræðslu og uppákomum sem vekja fólk til umhugsunar um næringu. 

4. Skólinn sé vímulaus. Það verður t.d. gert með

 • því að fræðsla um skaðsemi tóbaks, rafretta, áfengis og annarra vímuefna sé aðgengileg í skólanum ásamt upplýsingum um leiðir til að hætta neyslu
 • því að forvarnarteymi skipuleggi leiðsögn/aðstoð við einstaklinga (nemendur/starfsmenn) sem vilja hætta notkun tóbaks eða vímuefna
 • því að leggja áherslu á eflingu félagsfærni og styrkingu sjálfsmyndar. Árangur verður mældur með könnun (Framhaldsskólapúlsinn).

 

5. Skólinn hafi jafnréttisfulltrúa og jafnréttisáætlun og kennarar hafi jafnrétti í huga í sinni kennslu, bæði í orðalagi og við val á efni. 

Það verður t.d. gert með

 • aukinni umræðu og fræðslu um jafnréttismál
 • því að sýna gott fordæmi í jafnréttismálum
 • því að taka afstöðu og hafa áhrif á nærsamfélagið. 

6. Tryggja öryggi í skólahúsnæðinu og að öryggisáætlun skólans sé framfylgt.

 Það verður t.d. gert með

      

 • því að rýmingaræfing verði haldin á hverju skólaári 
 • því að öryggis- og áhættumati sé viðhaldið og leitað sé úrbóta hið fyrsta þegar

þörf er á      

 • því að bjóða reglulega upp á skyndihjálparnámskeið.

 

Samþykkt 30. sept. 2019