Áætlun vegna eineltismála

Áætlun Menntaskólans á Tröllaskaga um viðbrögð við einelti og öðru ofbeldi

Starfsfólk og nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga taka skýra afstöðu gegn einelti. Lögð er áhersla á að allir njóti virðingar í námi og starfi og fái að njóta sín. Traust, jafnræði, jákvæðni og uppbyggileg endurgjöf eiga að vera höfð að leiðarljósi í öllum samskiptum.

Skilgreining eineltis og birtingaform
Almennt um einelti:
Talað er um einelti þegar einn eða fleiri einstaklingar (meðvitað eða ómeðvitað) sýna öðrum einstaklingi eða einstaklingum reglubundið, og yfir langt tímabil, neikvæða framkomu sem þolandi eða þolendur eiga erfitt með að verjast. Einelti getur líka birst sem skortur á ákveðinni hegðun, þ.e. afskiptaleysi sem veldur þolanda kvíða, ótta og vanmáttarkennd.
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa í skólanum milli nemenda, stjórnenda og starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi eða endurtekinn kerfisbundið.
Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Kynbundin áreitni er skilgreind í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 en þar segir:
Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Birtingarmyndir eineltis geta verið margs konar

 • Andlegt einelti getur t.d. verið niðrandi athugasemdir, hótanir, stríðni og uppnefni, munnleg og/eða skrifleg. Einnig getur verið um líkamstjáningu að ræða, svo sem augnagotur, andlitsgrettur o.s.frv.
 • Félagslegt einelti: t.d. baktal, rógi dreift um viðkomandi, útilokun, hunsun eða höfnun frá félagahópi.
 • Rafrænt einelti: t.d. sms, facebook, blogg eða msn.
 • Beint líkamlegt ofbeldi: t.d. að slá, sparka eða hrinda.
 • Efnislegt einelti: t.d. skemmdir á eigum svo sem fatnaði.
 • Kynferðisleg áreitni: t.d. líkamleg, orðabundin eða táknræn athugasemd eða spurningar um kynferðisleg málefni.

Einelti á sér stað í framhaldsskólum líkt og á öðrum stöðum í samfélaginu en birtingarmynd þess er líkari því sem gerist á vinnustöðum en í grunnskólum. Birtingarmyndir í framhaldsskólum eru aðallega af andlegum og félagslegum toga. Rafrænt einelti hefur einnig aukist með breyttu samskiptaformi og getur oft verið mjög dulið. Kynferðisleg áreitni er ein tegund eineltis, hún er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður.

Vísbendingar um einelti
Mikilvægt er að nemendur, foreldrar og kennarar séu meðvitaðar ef breytingar verða á líðan og hegðun einstaklings og ber að skoða hvort hugsanlegt sé að viðkomandi upplifi að hann verði fyrir einelti. Afleiðingar geta lýst sér sem almenn vanlíðan og því mikilvægt að ræða við hlutaðeigandi um hvað hann telji að valdi breyttri líðan eða hegðun. Líkamleg og sálræn einkenni geta komið fram og þróast út í mjög alvarleg einkenni sé ekkert að gert.

Sálrænar afleiðingarnar geta til dæmis birst í:

 • Kvíða eða þunglyndi.
 • Miklum skapsveiflum.
 • Ótta eða örvæntingu.
 • Minnimáttarkennd eða minnkuðu sjálfsáliti.
 • Andúð á skóla eða vinnu.
 • Félagslegri einangrun eða öryggisleysi.
 • Biturð eða hefndarhug.
 • Sjálfsvígshugleiðingum.Líkamlegar afleiðngar geta til dæmis birst í:

 • Svefnleysi eða svefnóróa.
 • Höfðuðverk eða vöðvabólgu.
 • Hjartsláttartruflunum, skjálfta eða svima.
 • Þreytutilfinningu eða sljóleika.

Hafa ber í huga að það er ekki einungis sá sem verður fyrir eineltinu sem skaðast. Fjölskylda þolanda finnur oft fyrir miklu álagi þar sem afleiðingar eineltis geta haft svo víðtæk áhrif. Þar sem einelti er látið viðgangast í skóla eða á vinnustað getur það einnig haft umtalsverð áhrif á þá sem þar starfa og mótað þann vinnuanda sem ríkir. Það er því ábyrgð allra þeirra sem verða varir við einelti af einhverju tagi að koma ábendingum þar um til réttra aðila til að hægt sé að vinna með málið.

Starfsfólk og starfstengdar athafnir
Hér koma dæmi um hvers konar athafnir eða atferli getur verið um að ræða sem valda því að þolandi upplifir að hann sé lagður í einelti en hægt er að skipta einelti í þrjá meginþætti:

Starfstengdar athafnir

 • Þegar grafið er undan faglegri hæfni starfsmanns eða frammistöðu hans.
 • Þegar starfsmaður er hafður undir stöðugu eftirliti og leitað eftir mistökum.
 • Þegar starfs- eða verkefnatengdum upplýsingum er haldið frá starfsmanni.
 • Þegar geðþóttakenndar breytingar verða á verksviði starfsmanns.
 • Ábyrgð er tekin af starfsmanni án þess að það sé rætt við hann.


Félagsleg útskúfun

 • Starfsmaður er markvisst sniðgenginn og útilokaður frá starfshópnum og félagslífinu.


Særandi stríðni og niðurlæging

 • Niðrandi athugasemdir eða dylgjur.
 • Endurteknar skammir eða hótanir.
 • Slúður og baktal.
 • Endurtekin stríðni.


Viðbragðsáætlun
Ef upp kemur grunur um einelti eða annað ofbeldi í skólanum.
Verði nemendur, foreldrar eða starfsmenn varir við einhver þessara einkenna eða önnur sem benda til að nemandanum líði illa, eða grunur er um einelti eða annað ofbeldi í skólanum, er mikilvægt að kanna málið og hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem er formaður eineltisteymis.
 
Náms- og starfsráðgjafi skoðar málið í samræmi við skilgreiningu skólans á einelti og ákveður næstu skref. Ef náms- og starfsráðgjafi telur að um einelti sé að ræða kallar hann saman eineltisteymi skólans sem vinnur að lausn málsins. Það skipa tveir starfsmenn skólans, náms- og starfsráðgjafi, áfangastj og fulltrúi kennara.
Náms- og starfsráðgjafi skólans stýrir vinnu eineltisteymisins og ber ábyrgð á að kalla það saman. Annað starfsfólk, foreldrar og nemendur geta aðstoðað við lausn mála. Hlutverk eineltisteymisins er að skoða öll mál sem til þeirra er beint og það kallar aðra til eftir þörfum.
Upplýsingar um starfandi eineltisteymi hverju sinni er að finna á heimasíðu skólans.

Starfsmaður sem verður fyrir einelti skal tilkynna það sem fyrst. Hann getur snúið sér til yfirmanns eða leitað stuðnings trúnaðarmanns, Menntamálaráðuneytisins, til starfsmannafélags síns eða Vinnueftirlits ríkisins sem hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu í eineltismálum.
Sá sem verður vitni að einelti getur gert athugasemd við framkomu gerandans, komið að máli við þolandann og boðið fram stuðning eða snúið sér til yfirmanns. Yfirmaður skal vera til taks og tilbúinn að hlusta á undirmenn sína og taka kvartanir og ábendingar um einelti alvarlega og sýna jafnframt þagmælsku og tillitssemi.

Farið er með allar upplýsingar og tilkynningar um einelti eða annað ofbeldi sem trúnaðarmál.

Aðgerðaráætlun/viðbragðsferli
Mjög áríðandi er að allir þekki einkenni eineltis og er brýnt fyrir nemendum og starfsfólki skólans að þegar ágreiningur kemur upp þeirra á milli sé rétt að ræða málin og reyna að komast að málamiðlun og fá aðstoð til þess frá öðrum ef á þarf að halda.
Verði nemendur uppvísir að einelti eða ofbeldi getur þurft að beita viðurlögum s.s. tímabundnum brottrekstri úr skóla. Um viðurlög vegna starfsmanna gilda lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004.

Ferli vegna nemenda
Náms-og starfsráðgjafi eða annað starfsfólk fær ábendingu um eineltið/ofbeldið
Ef náms- og starfsráðgjafi telur að um einelti sé að ræða þá er ferlið eftirfarandi:

 • Teymið virkjað, það aflar sér upplýsinga um meint einelti/ofbeldi og skráir niður.
 • Staðfestur grunur um einelti/ofbeldi.
 • Samband við aðila málsins nemendur og/eða forráðamenn nemenda undir 18 ára aldri.
 • Unnið að lausn samkvæmt aðgerðaáætlun skólans.
 • Stuðningur við gerendur og/eða þolendur sé þess þörf.

 

 • Staðfest að ekki sé um einelti/ofbeldi að ræða.
 • Gögn geymd.


Ferli vegna starfsfólks
Þegar einelti hefur verið tilkynnt er það hlutverk yfirmanns að taka formlega á málinu, greina vandann, grípa til viðeigandi ráðstafana og fylgjast með framvindu málsins. Einnig er hægt að kalla til eineltisteymi skólans. Ef aðilar eru sammála um að ekki sé um að ræða einelti samkvæmt skilgreiningu ber yfirmanni samt sem áður að ráðast að vandanum sem skapast hefur með sáttaumleitun milli aðila. Sé um einelti að ræða er málið formlega rannsakað af yfirmanni sem m.a. felur í sér viðtöl við meintan geranda/gerendur og aðra sem geta veitt upplýsingar án þess þó að fleiri séu dregnir inn í málið en nauðsynlegt er. Þegar atvik hafa verið upplýst þarf að huga að afleiðingum málsins en stjórnendum ber að hafa í huga lög og reglugerðir sem við eiga þegar viðurlög eru ákveðin við broti í eineltismálum. Í vafatilfellum ætti ávallt að leita eftir áliti sérfræðings.

Eftirfylgni
Yfirmanni ber að fylgjast með aðstæðum og líðan gerenda og þolenda og veita viðeigandi upplýsingar, aðstoð og hjálp. Stuðningur við þolendur og gerendur þarf að miðast við hversu alvarlegt eineltið hefur verið og mun Menntskólinn á Tröllaskaga koma til aðstoðar með því að benda á ráðgjafa, geðlækni eða sálfræðihjálp ef þess gerist þörf. Kanna þarf síðan árangur aðgerða og endurskoða þær ef ástæða þykir.

Forvarnir
Það er hlutverk nemenda og starfsfólks að hindra einelti í skólanum.
Stjórnendur skulu ganga á undan með góðu fordæmi og sýna nemendum og starfsfólki tillitssemi, virðingu og umburðarlyndi og stuðla að góðum starfsanda, fylgjast með samskiptum nemenda og starfsfólks og taka á ágreiningsmálum. Allir nemendur og allt starfsfólk á að þekkja og virða stefnu Menntaskólans á Tröllaskaga gegn einelti, vera meðvitað um hegðun sína og stuðla að því að tekið sé á ágreiningsmálum. Starfsfólk og nemendur ættu að benda á það sem betur má fara í skólanum og stuðla að jákvæðri skólamenningu sem byggist á trausti og gagnkvæmri virðingu. Stjórnendur bera ábyrgð á því að stefnan sé höfð í hávegi og að á öðru hverju ári sé gerð áætlun um það hvernig á að fyrirbyggja einelti í skólanum, m.a. með símenntun starfsfólks um hvað einelti er og fræðslu til nemenda. 
Náms- og starfsráðgjafi heldur utan um gerð þessarar stefnu og ábyrgist uppfærslu hennar.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar


Við gerð þessarar viðbragðsáætlunar var stuðst við eftirfarand heimildir:
 1. Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, Sif Einarsdóttir og Vanda Sigurgeirsdóttir. (2007). Hægist mein þá um er rætt. Uppeldi og menntun, 16. árg., 1. hefti, 2007.
 2. Félags- og tryggingamálaráðuneytið, Mennta- og menningamálaráðuneytið og Heilbrigðisráðuneytið. (2010). Greinagerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum.
 3. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Ása Guðbjörg Ásgeirsdóttir og Þóra Magnea Magnúsdóttir. (2004). Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustöðum - forvarnir og viðbrögð. Leiðbeiningabæklingur. Reykjavík: Vinnueftirlitið.
 4. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sótt 7. sept. 2011 af: http://vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/upload/files/log/log_nr_46_1980.pdf
 5. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sótt 7. sept. 2011 af: http://www.althingi.is/altext/135/s/0698.html
 6. Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004.
 7. Roland, Erling, og Vaaland, Grete, S. (2001). Saman í sátt - Leiðir til að fást við einelti og samskiptavanda í skólum. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
 8. Sara Hlín Hálfdánardóttir. (2004). Samstaða gegn einelti á vinnustöðum. Reykjavík: SFR - Stéttarfélag í almannaþjónustu.
 9. Sharp, Sonja, og Smith, Peter, K. (Ritstj.). (2000). Gegn einelti: handbók fyrir skóla. Reykjavík: Æskan.


Endurskoðað 12. febrúar 2013