Kynning á Evrópuverkefnum fyrir ungt fólk

Kynning mynd GK
Kynning mynd GK

Í síðustu viku fengum við góða heimsókn þegar fulltrúar Rannsóknarstöðvar Íslands, Rannís, komu í skólann. Þetta voru þær Miriam Petra Ómarsdóttir Awad og Svandís Ósk Símonardóttir sem báðar starfa sem sérfræðingar á mennta- og menningarsviði hjá Rannís. Miriam er m.a. verkefnastýra Eurodesk á Íslandi og sér um kynningar og fyrirspurnir um tækifæri fyrir ungt fólk í evrópsku samstarfi og Svandís Ósk hefur umsjón með samstarfsverkefnum í háskólahluta og æskulýðshluta Erasmus+ auk þess sem hún er hluti af kynningarteymi Landskrifstofu Erasmus+.

Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir nemendum og starfsfólki skólans hin ýmsu styrkhæfu verkefni sem bjóðast á vettvangi Erasmus+, hvort sem er innanlands eða utan. Má þar t.d. nefna ungmennaskipti þar sem ungt fólk kynnist lífi og menningu jafnaldra þeirra í Evrópu, þátttökuverkefni sem hvetja ungt fólk til virkni og þátttöku í samfélaginu, sjálfboðaliðastörf til að gefa af sér, efla sjálfstraust og færni og samfélagsverkefni til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt.

Mynd GK

Funduðu þær stöllur m.a. með Idu Semey, sem er verkefnastýra erlendra verkefna við skólann, og nemendaráði skólans og sáu fulltrúar þess ýmis tækifæri í því sem þær höfðu fram að færa. Aðrir kennarar og nemendur hlustuðu einnig af athygli og ýmsar hugmyndir að verkefnum spruttu út frá umræðum sem fylgdu í kjölfar kynningarinnar. Svo er bara að sjá hvort einhverjar þeirra verði að veruleika.