Námstækni - NÁM1A03

Lýsandi heiti áfanga: Ábyrgð, þjálfun, velgengni
Framhaldsskólaeiningar: 3
Undanfari: Enginn

Lýsing á efni áfangans:
Þessi áfangi í námstækni er sérstaklega hugsaður fyrir þá nemendur sem skilgreindir hafa verið með ákveðna námsörðugleika en einnig þá nemendur sem einhverra hluta vegna náðu ekki lágmarksárangri á grunnskólaprófi.   
 
Farið verður yfir það með nemendum hvaða ástæður geta legið að baki námsörðugleikum þeirra á sama tíma og styrkleikar þeirra í námi eru dregnir fram. Rætt verður hvernig hægt er að nýta styrkleika nemenda og ná árangri í námi. Sjálfsmynd nemenda er markvisst styrkt með æfingum og þjálfun í þeim atriðum sem þeir eiga í erfiðleikum með í námi sínu.  
 
Við upphaf annarinnar eru allir nemendur kallaðir inn í viðtal þar sem þeir fá tækifæri til að upplýsa kennara um það hvað það er sem þeir sjálfir telja einna helst sem valda þeim vandræðum í námi. Hugmyndir til úrlausnar eru lagðar fram og þeim fylgt eftir í umræðum, verkefnum og sjálfsmati.
 
Mikil áhersla er lögð á það að nemendur taki ábyrgð á sjálfum sér sem námsmenn og nái að hagnýta sér þá hæfileika sem þeir búa yfir.

Lokamarkmið áfanga:
Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

  • námskröfum skólans
  • aðferðum til að skipuleggja tíma og nám
  • árangursríkum námsaðferðum
  • leiðum til að efla sjálfsmynd og eiga góð samskipti við aðra


Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • nýta tíma sinn vel og nota námsaðferðir sem skila árangri
  • setja sér markmið sem námsmaður og einstaklingur
  • eiga góð samskipti við aðra


Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • efla styrkleika sína og vinna að því að þeir nýtist sem best


Námsmat:
Í áfanganum er viðhaft leiðsagnarmat með símati alla önnina. Öll verkefni gilda til einkunnar og þess vegna er það mikilvægt að nemendur stundi námið reglulega.

Birt með fyrirvara um breytingar