Lög nemendafélagsins Trölla

Nafn og aðild  
1. gr.
Félagið er á ábyrgð skólans og endurspeglar ímynd hans útávið og ber að fylgja reglum skólans.

Tilgangur
2. gr.
Tilgangur félagsins er m.a. að:
Styðja við bakið á félagslífi nemenda og hafa frumkvæði að því að virkja nemendur til þátttöku í hverskyns félagsstarfi innan skólans.
Gæta hagsmuna nemenda skólans.

Kjörstjórn og kosningar
3. gr.
Sérstök kjörstjórn er skipuð mánuði fyrir nýjar forsetakosningar og þeir einstaklingar undirbúa kosningar. Kjósa skal forseta og varaforseta nemendafélagsins.  Kjörstjórnina skipa, einn starfsmaður skólans og þrír nemendur sem ekki munu þá sjálfir geta farið í framboð það kjörtímabil.
Kjörstjórn skal halda uppi viku dagskrá sem varðar nýjar forsetakosningar og fylgja þeim lögum sem gilda hvað varðar undirbúning kosninga. Starfi kjörstjórnar lýkur á því að tilkynna úrslit forsetakosninga.
Kjörgengir eru þeir sem skráðir eru í nemendafélag skólans og hafa greitt nemendafélagsgjöld.
Fyrrverandi forseti skal nota tímann fyrir lok kennslu á vorönn til að koma nýjum forseta og varaforseta inn í stöðuna og hefur nýr forseti störf í upphafi haustannar.

Undirbúningur kosninga
4. gr.
Kjörstjórn skal ætla sér í að minnsta viku í kosningaferlið, það felur í sér:
Að opna fyrir sýnilega skráningu til framboðs.
Að tilkynna framboð að skráningu lokinni.
Að tryggja að hlutleysi eigi sér stað í umfjöllun fjölmiðla og kynninga innan skólans.
Að standa fyrir kynningu á frambjóðendum fyrir kosningar.
Að standa vörð um að frambjóðendur uppfylli sett skilyrði til forsetaembættis.
Að tryggja hlutleysi við framkvæmd kosninganna.
Að hafa yfirumsjón með talningu atkvæða.
Að sjá um undirbúning á innsetningarathöfn eftir að atkvæði hafa verið talin og nýr forseti og varaforseti tilkynntir.

5. gr.
Forseti nemendafélagsins er sá sem flest atkvæði hlýtur og varaforseti sá sem lendir í öðru sæti í forsetakosningunum. Ef einungis einn einstaklingur býður sig fram er sá hinn sami sjálfkjörinn sem forseti nemenfélagsins. Varaforseti verður þá kjörinn úr hópi fulltrúaráðs á haustönn. Forsetinn er höfuð nemendafélagsins og varaforsetinn starfar með honum að stjórn félagsins.
Forfallist kjörinn forseti, hætti námi eða uppfylli ekki skilyrði skal varaforseti taka við forsetaembættinu. Við slíkar aðstæður skal boðað til kjörs nýs varaforseta eins fljótt og unnt er. Varaforseti verður þá kjörinn úr hópi fulltrúaráðs.
Forfallist forseti og varaforseti er það starf félagsmálafulltrúa að gera upp og ganga frá bókhaldi annarinnar og kjörstjórn sér um að hefja undirbúning nýrra kosninga sem fara skulu fram innan tveggja vikna.
Komi upp þær aðstæður að nemendur nái ekki að mynda kjörstjórn skal skólameistari skipa nýja kjörstjórn.

Skyldur og skilyrði forseta og varaforseta
6. gr.
Forseti og varaforseti skulu vera í fullu námi við skólann (20 einingar) allan kjörtímann og skráðir í nemendafélag skólans.
Forseti og varaforseti eru skyldugir til að sækja alla skólaráðsfundi
Forseti og varaforseti sjá um tengsl og samskipti við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og málefni tengd því sambandi.
Forseti og varaforseti eru andlit skólans og skulu bera völd sín með sóma.
Forseti og varaforseti eiga að hvetja til þátttöku nemenda og nærsamfélags í því sem skólinn stendur fyrir.
Forseti og varaforseti hafa umsjón með fulltrúarráði, boða til vikulegra funda og hafa yfirstjórn með klúbbum nemendafélags skólans ásamt félagsmálafulltrúa.
Forseti og varaforseti verða að gefa lokasamþykki til þess að nýr klúbbur fái fulltrúa inn í fulltrúaráð nemendafélagsins.
Forseti og varaforseti hafa heimild til þess að leysa upp klúbb eða klúbba ef ekki er sýnt fram á næga virkni.
Forseti og varaforseti heyra undir skólameistara (sbr. 1.gr.)

Skyldur og skilyrði starfandi klúbba nemendafélagsins
7. gr.
Boða skal vikulega til funda innan klúbbs til undirbúnings á verkefnum og kynningar á starfi klúbbsins.
Semja verður starfs- og fjárhagsáætlun fyrir stærstu viðburði skólaársins sem á að standa fyrir.
Boða skal til fundar með forseta ef ná þarf í aðstoð til annarra klúbba sem starfa innan félagsins.
Vinna skal að framgangi mála í þágu nemenda á hvern þann hátt sem samrýmist tilgangi félagsins.
Innan viku eftir að klúbbur fær viðurkenndan starfsrétt frá forseta og varaforseta skal kjósa fulltrúa til setu í fulltrúaráði nemendafélagsins og kjörinn fulltrúi sækir svo fundi fulltrúaráðsins með forseta, varaforseta og félagsmálafulltrúa.
Lágmarksvirkni innan klúbba verður skipulögð á fulltrúaráðsfundum.
Fyrir lok annarar viku hverrar annar skal haldinn fyrsti fundur fulltrúaráðs.
Hver klúbbur skal vinna markvisst að uppbyggilegum verkefnum og sjá til þess að hans þáttur sé sýnilegur í nærsamfélaginu.
Segi fulltrúi af sér störfum skal viðkomandi klúbbur kjósa nýjan fulltrúa innan viku.
Klúbbar innan nemendafélagsins starfa í umboði forseta og varaforseta.

Skyldur og skilyrði formanna klúbba
8. gr.
Formaður klúbbs skal vera skráður í nemendafélag skólans og hafa greitt nemendafélagsgjöld líkt og allir aðrir klúbbameðlimir.
Formaður klúbbs ber ábyrgð á vinnu og starfi síns klúbbs og þarf að gera kröfur til meðlima um að lágmarksstarfsemi fari fram.
Formaður klúbbs skal sækja fundi fulltrúaráðs eða finna staðgengil.
Á fyrsta fundi fulltrúaráðs þarf formaður klúbbs að kynna verkefni klúbbsins þá önnina og hafa skýr markmið um hvernig klúbburinn mun haga sinni vinnu.
Formaður klúbbs ber ábyrgð á að rituð sé fundargerð í þar til gerðar fundargerðarbækur á öllum fundum klúbbsins ásamt því að allir fundarmeðlimir skrifi fullt nafn sitt undir fundargerð í lok fundar.

Vinnureglur
9. gr.
Bókhald er haldið af félagsmálafulltrúa skólans sem hann upplýsir fulltrúaráð um á fundum ráðsins.
Allar ákvarðanir varðandi fjármál nemendafélagsins skulu vera teknar á fulltrúaráðsfundum.
Félagsmálafulltrúi skólans ber ábyrgð á fjármálum nemendafélagsins og starfar við hlið forseta og varaforseta.
Félagsmálafulltrúi hefur völd yfir fjármálum nemendafélagsins og eigum, svo sem inneign í banka, búnaði og öllum þeim munum sem eru í eigu þess.
Fulltrúaráð vinnur að fjárhagsáætlun í samræmi við verkefni klúbba í upphafi hverrar annar fyrir stærstu gjörninga annarinnar.
Bókhald nemendafélagsins er ávallt opið fulltrúaráði en óski þeir eftir nánari skýringum þá eru þær skýringar veittar á fulltrúaráðsfundum.

Fundir
10. gr.
Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok apríl mánaðar ár hvert eða fyrir forsetakosningar. Forseti skal boða aðalfundar með minnst tveggja sólahringa fyrirvara og telst hann þá löglegur. Starfsár/reikningsár félagsins er skólaárið.

Dagskrá aðalfundar:
Fundarsetning
Skýrsla forseta
Bókhald félagsins
Lagabreytingar
Önnur mál

11. gr.
Komi fram rökstudd tillaga um að breyta þessum lögum þarf að boða til fundar í nemendafélaginu og þar þurfa lögin að hljóta samþykki meirihluta félagsmanna.

12. gr.
Forseta nemendafélagsins ber skylda að boða til fundar í nemendafélaginu ef 10 nemendur eða fleiri óska eftir því með rökstuddri ástæðu. Dagskrá fundarins skal mótuð af erindi þeirra sem óska eftir honum. Slíkan fund skal boða með sama hætti og um aðalfund væri að ræða. Fundir af þessu tagi skal boða með nákvæmri dagskrá með hið minnsta tveggja daga fyrirvara.

Síðast breytt 29. nóvember 2013