Sérfræðiþekking flutt út til Póllands

Kolbrún, Inga, Björk, Diljá og Birgitta í Póllandi.
Kolbrún, Inga, Björk, Diljá og Birgitta í Póllandi.

Menntaskólinn á Tröllaskaga er í margvíslegu erlendu samstarfi og mörg verkefni í gangi hverju sinni. Eitt þeirra er vinna með aðilum í Póllandi að gerð rafræns kennsluefnis í ensku.

Að verkefninu koma fimm kennslukonur frá MTR og eru þær nýkomnar frá Katowice í Póllandi þar sem nokkurra daga vinnutörn var í verkefninu. Áður höfðu pólsku samstarfsaðilarnir komið til Ólafsfjarðar í september á síðasta ári.

Þetta er tveggja ára verkefni sem styrkt er af EFTA og miðar sem fyrr segir að því að búa til kennsluefni í ensku sem verður aðgengilegt ókeypis á netinu. Okkar konur koma að verkefninu sem sérfræðingar og eru að aðstoða pólska kennara við að þróa kennsluhætti og innleiða notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Vinnan heldur áfram á netinu en næsti vinnufundur er fyrirhugaður í september í Ólafsfirði.

Það er talsverð eftirspurn eftir þeirri þekkingu sem orðið hefur til í fjarkennslu og upplýsingatækni í MTR, ekki síst erlendis þar sem skólastarf er víða ekki eins vel á veg komið og hér á landi hvað varðar upplýsingatækni.