Góðir dagar í Portúgal í spennandi verkefni

Ljósmynd: Þórarinn Hannesson
Ljósmynd: Þórarinn Hannesson

Þessa dagana er 14 manna hópur frá MTR staddur úti í Portúgal að taka þátt í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School", snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni. Þetta er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu og vinnur MTR með skólum í Portúgal, Spáni og Króatíu í þessu verkefni næstu árin.

Flogið var út seinni part föstudags og því átti hópurinn nokkuð náðuga tvo daga áður en vinnan með vinaskólunum hófst fyrir alvöru. Helgin var notuð til að kynnast nánasta umhverfi, kíkja á ströndina, smakka framandi mat og njóta lífsins. En þetta var þó ekki bara sól og sæla því einnig var tíminn nýttur til að spá í hvaða væntingar nemendur hefðu i tengslum við verkefnið, hvernig hópurinn gæti náð þeim markmiðum sem hópurinn hafði sett sér fyrir ferðina, einnig var unnið var að kynningum á Íslandi, Fjallabyggð og skólanum til að kynna fyrir öðrum þátttakendum í verkefninu og hópurinn setti sér samverureglur svo ferðin gengi sem best fyrir sig. Gaman er að segja frá því að það er fjarnemi í hópnum og fellur hann einstaklega vel inn í hópinn og einnig er kennaranemi með, sem hefur verið í starfsþjálfun í skólanum í vetur.

Fyrsti dagurinn í dagskránni var í vinaskólanum í Lissabon og var hann nýttur í alls kyns hópefli og ratleik auk þess sem nemendur kynntu sín samfélög og skóla. Einnig var tími til að nærast og leika sér og var m.a. farið bæði í fótbolta og blak úti í sól og blíðu. Verður að segjast eins og er að knatttækni Portúgalana sló öðrum tilþrifum við á knattspyrnuvellinum. Á degi tvö heimsóttu nemendur nokkra sögustaði í Lissabon og fræddust um þá, einnig skoðuðu þeir stórglæsilegt sjávardýrasafn þar sem þeir tóku m.a. þátt í vinnu um ástand loftsslagsmála í heiminum. Framundan er svo vinna í þrjá daga til viðbótar í vinaskólanum sem utan hans, alltaf með nemendunum frá Portúgal og Spáni, en þeir króatísku taka þátt í gegnum netið, í þeim viðburðum þar sem því verður við komið.

Nemendur okkar meta vinnu hvers dags með því að svara nokkrum spurningum að dagskrá dagsins lokinni. Af svörum þeirra er ljóst að verkefnið víkkar sjóndeildarhring þeirra, tengslanetið stækkar, þau fræðast um hefðir og sögu annarra landa og þau gera sér grein fyrir að umhverfismálin snerta okkur öll.

Fjölmargar myndir úr ferðinni hér