Endurmenntun starfsfólks á Alicante

Um þessar mundir er megnið af starfsfólki skólans við endurmenntun í Alicante. Tveir skólar hafa verið heimsóttir, báðir leggja mikla áherslu á erlent samstarf, líkt og MTR, og var því margt að ræða og skoða. Í báðum skólum var ýmislegt fróðlegt að sjá, auk þess sem góð tengsl voru mynduð og hugað að frekara samstarfi í nánustu framtíð.

Fyrri skólinn heitir IES Severo Ochoa í borginni Elche, fjölmennur skóli með um 1500 nemendur frá 12 - 18 ára og sinnir einnig fullorðinsfræðslu. Skólinn er með vottun frá Erasmus+, sem er styrkjakerfi Evrópusambandsins til að styðja við fleiri tækifæri til samvinnu og menntunar. MTR er með samskonar vottun frá Erasmus+ og hefur nýhafið verkefni með þessum skóla, auk skóla frá Króatíu og Portúgal, sem kallast "Becoming a Biomaker School", snýst það verkefni um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni. Starfsfólk MTR fékk þarna kynningu á spænska skólakerfinu, starfi skólans og sérstöðu hans auk kynninga á fjölmörgum samstarfsverkefnum við skóla í öðrum löndum. Einnig var kíkt inn í skólastofur, en námið fer allt fram í því sem kallast “Project Based Learning” þar sem unnið er í hópum í gegnum þverfagleg 4 - 5 vikna verkefni, og svo var skoðuð spennandi grænmetis- og ávaxtaræktun nemenda á skólalóðinni.

Seinni skólinn er uppi í landi, hann heitir IES Andreu Sempere og er í bæ sem kallast Alcoy. Sá skóli er UNESCO skóli, líkt og MTR, þar sem unnið er með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að sjálfbærri þróun og skólinn er einnig með vottun frá Erasmus+. Nemendafjöldi er um 400 á aldrinum 12 - 18 ára og mikil áhersla er lögð á sköpun og tónlist. Heimsóknin var sérlega áhugaverð og reyndust margir snertifletir á mögulegu samstarfi milli MTR og þessa skóla. Þegar hefur verið ákveðið að 2 kennarar skólans heimsæki MTR næsta haust. Líkt og í fyrri heimsókninni fékk starfsfólk MTR kynningu á stefnum og starfi, lýsingar á ýmsum evrópskum samstarfsverkefnum og fékk að fylgjast með í kennslustofum en auk þess tónlistaratriði þar sem lúðrasveit nemenda lék.

Tilgangur ferðarinnar er einnig að kynna sér menningu og sögu Alicante. Í lok hvorrar heimsóknar var snætt með nokkrum kennurum skólanna og að sjálfsögðu var þjóðlegur matur úr héraði á borðum. Þarna voru skólamálin rædd nánar og auk þess skipst á upplýsingum um heimalöndin tvö; siði, venjur, menningu, veðurfar og fleira. Starfsfólk MTR hefur einnig heimsótt söfn og merka staði á svæðinu og ber þar hæst Santa Barbara kastalann sem trónir yfir Alicante. Myndir