Hekl - PRH2A02

Lýsandi heiti áfanga: Hekl fyrir byrjendur
Framhaldsskólaeiningar: 2 einingar
Undanfari: Enginn

Lýsing á efni áfangans:
Nemendur kynnast hekli og helstu heklaðferðum. Nemendur læra meðal annars loftlykkjur, keðjulykkjur, fastalykkjur/pinna, stuðla og tvöfalda stuðla, að hekla fram og tilbaka og í hring.
Nemendur vinna prufur með mismunandi heklaðferðum og ömmudúllu. Þeir læra að lesa úr mynstrum og fylgja einföldum hekluppskriftum og svo vinna þeir að verkefni að eigin vali, annaðhvort eftir uppskrift eða eigin hönnun. Meginmarkmið áfangans er að nemendur verði sjálfbjarga að honum loknum og geti heklað áfram sjálfir.

Lokamarkmið áfanga:
Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

 • helstu heklaðferðum og möguleikum þeirra
 • mismunandi heklgarni, áferð og eiginleikum
 • helstu heklverkfærum
 • heklheimi alheimsvefsins
 • möguleikum hekls í hönnun og listum


Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

 • beita mismunandi heklaðferðum
 • fylgja einföldum hekluppskriftum
 • lesa úr mynstrum
 • hekla fram og til baka
 • hekla í hring
 • leita að uppskriftum á netinu


Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

 • beita helstu heklaðferðum og sjá möguleikana í þeim
 • finna þær uppskriftir sem hann hefur áhuga á að vinna eftir
 • velja sér garn og heklunálar eftir hentugleika
 • kynna sér verk fagmanna og möguleikum hekls í hönnun og listum
 • hekla sjálfstætt eftir einföldum uppskriftum og mynstrum og sé fær um að halda áfram að bæta við sig kunnáttu að áfanganum loknum


Námsmat:
Í áfanganum er viðhaft leiðsagnarmat með símati, nemendur þurfa að standast mætingarkröfur áfangans.

Birt með fyrirvara um breytingar