Heimsókn til Monterey

Mynd Lára Stefánsdóttir
Mynd Lára Stefánsdóttir

Menntaskólinn á Tröllaskaga er í samstarfi við Monterey Peninsula College (MPC) í Monterey í Kaliforníu um verkefni sem kallast „Shared Seas“ og fjallar um að við deilum hafinu. Verkefnið tengist listum, náttúru hafsins og sérstöðu staða við sjó. Í janúar fóru þau Lára Stefánsdóttir skólameistari, Bergþór Morthens listakennari og Tómas Atli Einarsson er kennir á tækjabúnað í ArtFabLab til Monterey ásamt Alice Liu forstöðumanni Listhúss í Fjallabyggð. 

Farið var í heimsókn í vinsælt sædýrasafn „Monterey Bay Aquarium“ og skoðaður himinhár sjávartankur ásamt ýmsum sædýrum og auðvitað hinum sérstöku sæotrum. Í safninu er líka eftirlitsverkefni sem kallast „Seafood WATCH“ þar sem gefinn er út listi með sjávarfangi sem aflað er á vistvænan hátt og kaupendur hvattir til að sneiða hjá vöru sem stenst ekki kröfur. Næst ætla þeir að taka fyrir íslenskan eldislax og kanna hvort hann stenst kröfur, til dæmis hvort eitt kíló af laxi sé framleitt með meira en kílói af öðrum fiski og fleira slíkt. Neytendum býðst smáforrit sem ráðleggur um val á vöru í veitingahúsi eða verslun. 

Nemendur í  MPC voru afar meðvitaðir um sjálfbærni fiskveiða og tengdu hana viðfangsefnum sínum. Þau sýndu okkur hugmyndir að samstarfsverkefnum þar sem þau báru saman Ólafsfjörð og Monterey,  hverjar væru auðlindir á hvorum stað og hvernig mætti tengja svæðin saman. Til dæmis eru staðirnir hvor á sínum enda sama jarðfleka. 

Flutt var erindi um starfsemi MTR, fjarnám, námsskipulag og listir í námi á starfsmannafundi „Flex Day“ við gríðarlega góðar undirtektir. Auk þess var farið nánar í fjarnámið og nám á starfsbrautum með fámennari hópum sem völdu það efni. 

Hópnum var boðið heim til Marilyn Gustafson sem situr í stjórn skólans, í vinnustofu listamannsins Evelyn Klein og heim til Robyn Smith sem er tengiliður verkefnisins í MPC. Robynn er grafíklistamaður og hefur unnið gríðarlega skemmtileg verkefni á Íslandi eða um Ísland. 

Síðasta daginn var hópurinn í vinnustofu sem fjallaði um leirprent með þema verkefnisins „Shared Seas“ þar sem hafið varð uppspretta fjölmargra listaverka. Alice Liu hélt erindi um Listhúsið í Ólafsfirði og Gamble Madsen prófessor í listasögu við MPC flutti erindi um hafið í listasögunni. 

Hópurinn var afar ánægður með ferðina, ferðast var um hina ægifögru sjávarleið suður af Monterey. MYNDIR