Grænlandsverkefni að ljúka

mynd Lára Stefánsdóttir
mynd Lára Stefánsdóttir

Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Valgerður Ósk Einarsdóttir, námskrárstjóri eru í Sisimiut á Grænlandi að leggja lokahönd á verkefni sem skólinn tekur þátt í. Lára er í nefnd á vegum grænlenska menntamálaráðuneytisins, sem er að móta tillögur um skipan fjarkennslu í framhaldsskólum. Nefndin skilar af sér um næstu mánaðamót.

Helsta áherslan í verkefninu er að skapa möguleika fyrir eldri nemendur í fámennum byggðarlögum til að stunda nám að heiman. Áhugasamastar eru konur sem vilja auka menntun sína og gerast kennarar eða hjúkrunarfræðingar en auðvitað eru fleiri sem vilja ljúka framhaldsskólanámi og komast í háskóla. Áður var í boði eins árs brúarnám fyrir eldri nemendur en reynslan er talin sýna að það sé ekki nægur undirbúningur fyrir háskólanám og því er verið að leita annarra leiða.

 

Aðstæður á Grænlandi eru um margt ólíkar okkar, þar flækjast tungumálin helst fyrir mönnum. Nemendur frá austur Grænlandi tala annað tungumál en nemendur frá vestur Grænlandi og síðan hafa einhverjir dönsku að móðurmáli. Kennsla í framhaldsskólum fer að mestu fram á dönsku og margir danskir kennarar koma tímabundið til Grænlands að kenna. Því er starfsmannavelta hröð. Í einstaka tilvikum kenna fjarkennarar erlendis frá í framhaldsskólum í gegnum fjarfundabúnað og koma nokkrum sinnum yfir skólaárið. Ferðakostnaður er gríðarlega hár á Grænlandi og því skiptir miklu að geta fjarkennt. En sá böggull fylgir skammrifi að netsamband er erfitt. En það er verið að leggja sæstreng norður með vesturströndinni og binda menn vonir við að þá losni um á gervihnattarsambandi fyrir aðra sem geri þeim kleift að vinna hraðar. Strengurinn er kominn norður fyrir Nuuk og er reiknað með að Sisimiut tengist honum í nóvember.

Í Sisimiut þar sem þær Lára og Valgerður Ósk eru nú á fundum er 14-18 stiga frost og mikill snjór, ólíkt snjóleysi og hita hér heima. Íbúar bæjarins eru um fjögur þúsund en hundarnir eru hátt í tvö þúsund. Þær eru í góðu yfirlæti og njóta mikillar gestrisni heimamanna, bragða á sauðnautskjöti og selspiki milli vinnulota og hlusta á sleðahunda góla. Gönguleiðir um Sisimuitbæ eru vel mokaðar, líka sleðaleiðir og akstursleiðir og mættu Íslendingar læra af vinum sínum Grænlendingum um snjómokstur fyrir gangandi vegfarendur, segja þær. Myndir