Aukið val – fjölþjóðlegt verkefni

Hópmynd GK
Hópmynd GK

MTR tekur þátt í Nordplus Horizontal verkefni sem snýst um að kennarar og skólastjórnendur skiptist á upplýsingum um gagnlegar aðferðir við að auka val nemenda í framhaldsskólum og sveigjanleika í námi. Tveir háskólar og sjö framhaldsskólar í Eistlandi, Finlandi, Lettlandi og á Íslandi taka þátt í verkefninu. Hópur kennara frá samstarfslöndunum þremur heimsótti MTR í vikunni. Lára Stefánsdóttir skólameistari sagði þeim frá tilurð skólans og námsskránni sem er sveigjanleg og veitir mikið frelsi við skipulagningu námsins. Einnig ræddi hún þær samfélagsbreytingar sem framundan eru og huga þarf að í námsframboði og vinnubrögðum. Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari kynnti kennslu og nám í skólanum og sýndi myndbönd þar sem nemendur njóta sín við ólík viðfangsefni úti og inni. Síðan kynntu samstarfsskólarnir áherslur í sínum námsskrám og aðferðir við að gera námið sem fjölbreyttast. Meðal þess sem bar á góma var fjarnám og upplýsingatækni, viðurkenning eða mat á fyrra námi og starfi, samstarf skóla og annarra menntastofnana og þátttaka nemenda í að móta námsskrá skóla og skipuleggja eigin námsferil.