Reglur um meðferð heimilda

Ritstuldur er með öllu óheimill í námi við Menntaskólann á Tröllaskaga.  Ritstuldur felur í sér að nemandi hagnýtir sér í verkefnum sínum og ritsmíðum  hugverk annarra án þess að láta þess getið og vísa til heimilda eftir þar til  gerðum reglum. Gildir þá einu hvort um er að ræða búta úr verki eða verkið í  heild.

Með hugverki er átt við höfundarverk á borð við bækur, greinar, ritgerðir, aðrar  ritsmíðar, myndir eða annað jafnt á prenti, tölvutæku formi eða á annars konar  formi sem tilheyrir tilteknum rétthafa þess.

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga er stuðst við APA-heimildaskráningarkerfið  og er  leiðbeiningar og upplýsingar um það að finna á heimasíðu skólans https://www.mtr.is/is/thjonusta-fyrir-nemendur/itarefni/islenska 
Viðurlög við brotum

Fyrsta brot: Verði nemandi uppvís að ritstuldi ræðir kennari við hann og gerir honum grein fyrir alvarleika málsins. Nemandanum er því næst veitt tækifæri til að endurvinna verk sitt og færa til betri vegar. Brot skulu færð í athugasemdir um nemanda á Innu.

Annað brot: Verði nemandi í annað sinn uppvís að ritstuldi telst verkefnið ógilt og gefin er einkunnin 0. Þá fær hann einnig formlegt aðvörunarbréf frá skólayfirvöldum.

Þriðja brot: Verði nemandi uppvís að ritstuldi í þriðja sinn verður honum vísað úr viðkomandi áfanga.

Ítrekuð brot á ofangreindri reglu geta leitt til brottvísunar úr skóla. Reglan gildir einnig ef hópur nemenda í samstarfsverkefni skilar sama hópverkefni og annar hópur að hluta eða heild.

Brot á þessari reglu fyrnast ekki milli anna eða áfanga. (Brjóti nemandi til dæmis af sér í einum áfanga á 1. önn og öðrum á 3. önn teljast það tvö brot).


Endurskoðað 28. nóvember 2019