Saga Menntaskólans á Tröllaskaga

Framhaldsdeildir við utanverðan Eyjafjörð

Framhaldsdeildir við utanverðan Eyjafjörð voru í mörg ár starfræktar í Ólafsfirði og á Dalvík. Í Ólafsfirði var lögð áhersla á að gefa nemendum kost á að ljúka fyrsta hluta náms í framhaldsskóla í heimabyggð og það sama var upp á teningnum á Dalvík, að viðbættu námi í sjávarútvegsfræðum.
Gagnfræðaskólinn í Ólafsfirði var settur á stofn árið 1963 og sex árum síðar hófst bygging húsnæðis skólans, sem nú hýsir starfsemi Menntaskólans á Tröllaskaga. Kennsla hófst í Gagnfræðaskólahúsinu í janúar 1972. Í kjölfar þess að landspróf og gagnfræðapróf voru aflögð árið 1976 var strax mikill áhugi á því að stofna til framhaldsdeildar við Gagnfræðaskólann og má segja að henni hafi verið ýtt úr vör skólaárið 1977-1978. Áður höfðu þó verið kenndir áfangar í nokkrum iðngreinum. Framhaldsdeild GÓ var með svipuðu sniði meira og minna til 2000, boðið var upp á bóknám, sambærilegt við nám á fyrsta ári í framhaldsskóla. Einnig var boðið upp á fornám ætlað nemendum er höfðu ekki náð lágmarkseinkunn í grunnskóla í kjarnagreinum. Raunar var framhaldsdeildin ekki starfrækt veturinn 1986-1987 þegar of fáir nemendur innrituðu sig til náms. Þann vetur var Gagnfræðaskólinn með fyrsta stigs vélavarðanám og tveggja anna skipstjórnarnám.

Skýrsla Hermanns Jóns Tómassonar

Á tíunda áratugnum fækkaði þeim nemendum ár frá ári sem skráðu sig til náms í framhaldsdeildum í Ólafsfirði og á Dalvík. Í kjölfar fundar starfsfólks skólanna og sveitarstjórnarfólks á báðum stöðum í nóvember 1999 var skipuð fjögurra manna nefnd fulltrúa beggja sveitarfélaga og Verkmenntaskólans á Akureyri, er hafði verið móðurskóli framhaldsdeildarinnar á Dalvík, sem var falið að koma með tillögur um hvernig mætti efla framhaldsnám við utanverðan Eyjafjörð. Í nefndinni voru frá Ólafsfirði Óskar Þór Sigurbjörnsson og Helgi Jónsson, Ingileif Ástvaldsdóttir úr Dalvíkurbyggð og Hermann Jón Tómasson, fulltrúi VMA.

Alt texti
Morgunblaðið 6. apríl 2001.

Afrakstur vinnu nefndarinnar var skýrsla í september 2000 þar sem var lagt til að stofnaður yrði lítill framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð. Áfram var unnið að verkefninu og ný og ítarlegri skýrsla sem Hermann Jón vann var kynnt á Dalvík 14. júní 2001 þar sem voru sveitarstjórnarmenn, þingmenn kjördæmisins og fulltrúar menntamálaráðuneytisins. Í inngangi skýrslunnar segir m.a.:

Dalvíkurbyggð og Ólafsfjarðarbær vinna nú sameiginlega að því að stofna framhaldsskóla sem þjónað gæti svæðinu við utanverðan Eyjafjörð. Til skamms tíma voru starfræktar framhaldsdeildir á báðum þessum stöðum, framan af með ágætum árangri. Reynslan af rekstri þessara deilda er sú að ekki virðast forsendur fyrir því að halda úti lítilli framhaldsdeild á hvorum stað um sig og ekki er góð reynsla af því að framhaldsdeildum sé fjarstýrt frá Akureyri. Tveir kostir eru því í stöðunni. Annars vegar að leggja af allt framhaldsnám á svæðinu og sækja þessa þjónustu til Akureyrar. Hins vegar að sameinast um uppbyggingu lítils framhaldsskóla sem þjónað gæti íbúum beggja bæjarfélaganna og annarra íbúa við Eyjafjörð sem nýta vildu þjónustu skólans.

Í skýrslunni er velt upp nokkrum kostum en nefndarmenn urðu sammála um að sá vænlegasti væri stofnun nýs framhaldsskóla fyrir utanverðan Eyjafjörð sem hefði í boði tveggja ára framhaldsnám fyrir nemendur á aldrinum 16-18 ára. Að þeim forsendum gefnum að 70% nýnema úr Ólafsfirði og Dalvíkurbyggð myndu sækja skólann yrðu þar 40 nemendur fyrsta árið og 80 eftir það. Slík stærð af skóla væri sambærileg við nokkra af minni framhaldsskólum landsins. Lagt var til að skólinn myndi hefja starfsemi haustið 2002 og hann yrði til húsa í gamla grunnskólahúsinu á Dalvík en í Ólafsfirði yrði komið upp aðstöðu fyrir nemendur til fjarnáms. Í skýrslunni er þess getið að skóli af þessari stærð geti boðið persónulega þjónustu við nemendur með meira eftirliti og aðhaldi með hverjum nemanda. Áherslan yrði þannig á að bæta námsárangur og minnka líkur á brottfalli úr námi. Nefnd var sérstaklega áhersla á notkun upplýsingatækni í skólastarfinu, fjarnám með umsjón og stuðningi kennara yrði til að auka fjölbreytni námsframboðs, auk þess sem nemendur ættu þess kost að fá góða þjálfun í tölvunotkun. 

Varðandi námsframboð í hinum nýja skóla var í skýrslu Hermanns Jóns gert ráð fyrir fyrri hluta náms til stúdentsprófs á félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut. Einnig yrði boðið upp á fyrsta ár sjúkraliðanáms, starfsnám á uppeldissviði og/eða í íþróttum, eins árs tölvubraut, viðskipta-, fiskvinnslu- og skipstjórnarnám.

Í samantekt skýrslunnar segir:

Hinn nýi framhaldsskóli verður lítill skóli þar sem farnar verða nýjar leiðir til þess að tryggja nemendum betra og fjölbreyttara nám og til þess að styrkja rekstrargrundvöll skólans. Boðið verður upp á almennt bóknám fyrir nemendur á 1. og 2. ári í framhaldsnámi og nám á völdum starfsnámsbrautum.

Áhersla verður lögð á að nýta kosti smæðarinnar, nýta þá til að veita nemendum meira aðhald og persónulegri þjónustu en hægt er að bjóða upp á í stórum framhaldsskólum. Ókostir smæðarinnar verða yfirunnir með því að nota þá möguleika sem felast í notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Með fjarkennslu sérhæfðra og fámennra áfanga verður nemendum tryggður aðgangur að fjölbreyttara námi auk þess sem stoðum er rennt undir rekstrargrundvöll skólans. Jafnframt verður stoðum skotið undir rekstur og starfsemi skólans með því að leggja frá upphafi mikla áherslu á samstarf skólans og atvinnulífs á svæðinu og með því að skilgreina skólann sem viskubrunn eða menntunarveitu fyrir alla íbúa við utanverðan Eyjafjörð, ekki bara þá sem eru að sækjast eftir hefðbundnu framhaldsskólanámi.

Síðast en ekki síst verður áhersla á það lögð að skólinn taki þátt í að endurvekja nám í sjávarútvegs- og fiskvinnslufræðum sem fram hefur farið á Dalvík undanfarin ár. Stefnt er að því að skólinn verði síðan í fararbroddi í kennslu þessara greina og marki sér þannig sérstöðu á landsvísu.

Til þess að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika þarf vilja og samstillt átak. Það þarf vilja og samstillt átak sveitarstjórnarmanna og þingmanna til þess að vinna hugmyndinni fylgi og sjá til þess að hún fái brautargengi í ráðuneyti og á Alþingi. En fyrst og fremst er það vilji íbúa við utanverðan Eyjafjörð sem skiptir máli. Ef þeir sameinast um að gera þessa hugmynd að sinni mun það verða til þess að hún verður að veruleika. Afstaða íbúanna sjálfra mun ráða mestu um hvernig ráðamenn taka hugmyndinni, hvort nemendur velja skólann, hversu vel tekst að manna skólann og styrkja hann með tækjum og aðstöðu og hversu vel tekst að skapa jákvætt viðmót til skóla og menntunar sem mun hafa langtímaáhrif á velgengni skólans í samfélaginu og samfélagsins í skólanum.

Viðbrögð sveitarstjórnarmanna og þingmanna voru almennt jákvæð en fulltrúar ráðuneytisins drógu úr væntingum um að hugmyndir um nýjan skóla við utanverðan Eyjafjörð gætu orðið að veruleika og nefndu að hann gæti kippt stoðum undan rekstri framhaldsskólanna á Akureyri.

Erindi var sent til Tómasar Inga Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, en ráðuneytið taldi stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð ekki tímabæra fyrr en með Héðinsfjarðargöngum og lagfæringum á Múlagöngum og snjóflóðavörnum við Sauðanes norðan Dalvíkur.

Málinu var þó ekki lokið, heimamenn héldu því vakandi og reyndu að afla því fylgi hjá fjárveitingavaldinu og yfirvöldum menntamála. Snemma árs 2003 hafði Óskar Þór Sigurbjörnsson, skólamálafulltrúi ÚtEy og fyrrverandi skólastjóri Gagnfræðaskólans í Ólafsfirði, framsögu á fundi Framfarafélags Dalvíkurbyggðar um áform um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Þar sagði hann að hugmyndin væri að skólinn byði upp á nám fyrstu tvö árin til stúdentsprófs en einnig væri gert ráð fyrir skipstjórnar- og fiskvinnslunámi, að nokkru leyti í fjarnámi. Um leið yrði skólinn miðstöð fullorðinsmenntunar og fjölbreytts fjarnáms.

Árið 2003 tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við lyklavöldum í menntamálaráðuneytinu og árið eftir kom hún norður með ráðuneytismönnum til fundar við heimamenn um framhaldsskólamálið. Þar kom fram jákvæður tónn ráðherra í garð hugmyndarinnar um stofnun nýs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Framhaldsskólamálið í þingsölum

Í október 2004 lagði Siglfirðingurinn Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Meðflutningsmenn voru sjö þingmenn Norðausturkjördæmis og einn þingmaður Norðvesturkjördæmis. Í tillögunni segir:

Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra undirbúning að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Haft verði að markmiði að bjóða upp á nám til stúdentsprófs auk þess sem skólinn sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun. Ráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi menntamálaráðherra sem veiti hópnum forustu, fulltrúi ráðherra byggðamála, fulltrúi sjávarútvegsráðherra, fulltrúi Dalvíkurbyggðar, fulltrúi Ólafsfjarðarbæjar og fulltrúi Siglufjarðarkaupstaðar.

Birkir Jón mælti fyrir málinu 16. mars 2005 með þeim orðum að umræða um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð væri ekki ný af nálinni en hins vegar hafi hún ekki ratað áður í þingsali. Hann sagði til marks um stuðning við málið að flutningsmenn tillögunnar kæmu úr öllum þingflokkum.

Birkir Jón sagðist byggja þingsályktunartillöguna að nokkru leyti á framangreindri skýrslu Hermanns Jóns Tómassonar frá 2001 þar sem hafi komið fram að yfirgnæfandi meirihluti íbúa við utanverðan Eyjafjörð væri því fylgjandi að þar yrði boðið upp á framhaldsmenntun. Áhugi nemenda á framhaldsmenntun á svæðinu hafi þá verið kannaður og meirihluti þeirra lýst vilja sínum til þess að stunda nám í heimabyggð.

Fram kom mikill stuðningur við tillöguna á Alþingi og var samþykkt að vísa henni til menntamálanefndar þingsins sem kallaði eftir umsögnum. Bárust þær frá Byggðastofnun, Dalvíkurbyggð, Ólafsfjarðarbæ, Siglufjarðarkaupstað, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, menntamálaráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu. Öll sveitarfélögin lýstu eindregnum stuðningi við málið, eins og vænta mátti, sem og Eyþing og Byggðastofnun. Sjávarútvegsráðuneytið tók ekki afstöðu til stofnunar skólans en vegna áherslu hans á sjávarútvegsmenntun „vill ráðuneytið benda á að nauðsynlegt er að gera góða þarfagreiningu á því þar sem væri leitast við að kanna þarfir atvinnuvegarins fyrir þá menntun sem fyrirhugað væri að bjóða fram og hvort hún eigi heima á þessu skólastigi.“

Í umsögn menntamálaráðuneytisins við þingsályktunartillöguna segir:

Ráðuneytið telur eðlilegt að athugað verði hvort grundvöllur sé fyrir því að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð í ljósi þess að til stendur að gera jarðgöng um Héðinsfjörð. Að mati ráðuneytisins mun tilkoma þessara jarðgangna breyta forsendum þess að framhaldsskóli á svæðinu, sem þjóna mun Siglfirðingum, Ólafsfirðingum, Dalvíkingum og nágrannasveitarfélögum, geti staðið undir ásættanlegu námsframboði og að rekstrargrundvöllur hans sé fyrir hendi. Ráðuneytið telur eðlilegast að undirbúningi málsins verði hagað með hefðbundnum hætti þegar unnið er að stofnun framhaldsskóla, þ.e. að í undirbúningshópi verði fulltrúar heimamanna (Siglfirðinga, Ólafsfirðinga og Dalvíkinga), menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Jafnframt telur ráðuneytið rétt að námsframboð væntanlegs skóla verði ákveðið um leið og undirbúningi málsins vindur fram.

Birkir Jón Jónsson endurflutti tillöguna á Alþingi veturinn 2005-2006 og lét í ljós þá von við umræðu um hana að nýr skóli myndi taka til starfa árið 2009. Málinu var á ný vísað til menntamálanefndar Alþingis.

Sem að framan greinir hafði sveitarstjórnarfólk við utanverðan Eyjafjörð lengi talað fyrir því að byggja upp framhaldsmenntun á svæðinu og var málinu fylgt eftir á Alþingi.

Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, þótti hugmyndin um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð ögrandi og áhugaverð en hún mætti hins vegar töluverðri andstöðu víða í stjórnkerfinu:

Ég horfði m.a. til hins nýja framhaldsskóla í Grundarfirði og framhaldsdeildar sem var komið á fót á Patreksfirði í tengslum við þann skóla. Skólinn í Grundarfirði skipti strax miklu máli fyrir samfélagið á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Mér fannst hugmyndin um skóla við utanverðan Eyjafjörð einnig áhugaverð en hins vegar féll hún í nokkuð grýttan jarðveg í skólasamfélaginu á Akureyri og víðar. Og það var í sjálfu sér ekki skrítið. Sú spurning var réttmæt hvort stofnun framhaldsskóla í Ólafsfirði væri nauðsynleg, á sama tíma og tveir öflugir framhaldsskólar væru á Akureyri. En ég studdi þessa hugmynd á þeim forsendum að það skorti fjölbreyttari úrræði og bæta þyrfti aðgengi fólks að framhaldsnámi í Ólafsfirði, á Siglufirði og Dalvík. Mér fannst líka mikilvægt að nýr skóli markaði sér sérstöðu og yrði ekki einskonar eftirprentun skólanna á Akureyri. Það finnst mér hafa tekist mjög vel og skólinn hefur svarað spurn eftir annars konar námi, námsleiðum og kennsluaðferðum. Það hefur orðið til þess að aðrir skólar á svæðinu hafa skerpt á áherslum sínum og því hefur tilkoma Menntaskólans á Tröllaskaga að mínu mati styrkt menntun og skólaumhverfið á Norðurlandi. Innan stjórnkerfisins voru vissulega efasemdarraddir um skólann en Héðinsfjarðargöngin höfðu mikið að segja við að sigla málinu í höfn. Í ríkisstjórninni var ágætur stuðningur við málið og þar skipti sérstaklega stuðningur Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra miklu máli. Hann hafði brennandi áhuga á menntamálum og studdi þetta mál.

Þorgerður Katrín minnist fundar í menntamálaráðuneytinu 12. janúar 2006 þar sem hún hitti sveitarstjórnarfulltrúa frá Ólafsfirði og Siglufirði. Þessi fundur var um þremur vikum fyrir kosningar um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar. Ólafur Haukur Kárason og Skarphéðinn Guðmundsson frá Siglufirði og Ásgeir Logi Ásgeirsson og Snjólaug Ásta Sigurfinnsdóttir frá Ólafsfirði fóru til Reykjavíkur í því skyni að hitta ráðamenn og fá fram afstöðu þeirra, í aðdraganda sameiningarkosninga til m.a. Héðinsfjarðarganga, atvinnusköpunar á vegum ríkisins í sameinuðu sveitarfélagi, málefna fatlaðra í sameinuðu sveitarfélagi og stofnunar nýs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ásgeir Logi Ásgeirsson minnist margra ára baráttu heimamanna við að fá framhaldsnám í byggðarlagið, sem ekki hafi skilað árangri vegna andstöðu á ýmsum stöðum, m.a. í embættismannakerfinu. Því hafi í sínum huga verið ljóst á þessum tíma að málinu yrði ekki þokað áfram nema með yfirlýstum stuðningi ráðamanna. Um Reykjavíkurferð hans, Ólafs H. Kárasonar, Snjólaugar Ástu Sigurfinnsdóttur og Skarphéðins Guðmundssonar þann 12. janúar 2006 segir Ásgeir Logi:

Ríkisvaldið hafði hug á því að fækka sveitarfélögum í landinu og vildi leggja því lið. Á þessum tíma heyrðust þær raddir í Ólafsfirði og á Siglufirði að rétt væri að bíða með sameiningu sveitarfélaganna þar til veggöng væru komin og samgöngurnar þar með öruggari á milli bæjanna. Í Reykjavíkurferðinni fórum við fyrst á fund Geirs H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra. Hjá honum kom fram sú skoðun að sameining sveitarfélaganna væri skynsamleg og hann fullyrti að Héðinsfjarðargöng yrðu að veruleika. Einnig var Geir jákvæður fyrir því að koma á fót framhaldsnámi í sameinuðu sveitarfélagi. Við fórum síðan á fund Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra og mér er minnisstætt að ég nefndi við hann að sumir teldu rétt að bíða með sameiningu sveitarfélaganna þar til göngin væru komin en aðrir væru þeirrar skoðunar að sameina sveitarfélögin strax. Halldór horfði þá á mig og sagði: "Veistu það Ásgeir Logi, mín skoðun er sú að ef þið hafið tekið ákvörðun um sameiningu er best að halda áfram þeirri för  og vinna út frá því strax." Ég spurði hvort við gætum þá verið viss um að göngin myndu koma. "Hérna," sagði þá Halldór og rétti fram hendina, við skulum handsala þetta hér og nú. Á meðan ég ræð einhverju skulum við standa við okkar." Í þessari sömu ferð höfðum við mikið reynt að fá fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra en ekki tekist. Við vorum komin út á flugvöll á leið norður þegar við fengum skilaboð um að ráðherra gæti hitt okkur í ráðuneytinu innan hálftíma. Við ákváðum að hætta við flug norður og fórum á fund Þorgerðar Katrínar. Við nefndum við hana þann möguleika að koma á fót tveggja ára framhaldsnámi í Ólafsfirði að loknum grunnskóla, sem yrði í nánum tengslum og lyti stjórn framhaldsskóla á Akureyri. Þá hugmynd sló Þorgerður strax út af borðinu og sagði að ef til þess kæmi að sett yrði upp kennsla á framhaldsskólastigi við utanverðan Eyjafjörð, þá yrði það sjálfstæð skólastofnun með yfirstjórn á staðnum. Þorgerður Katrín gat þess að stefnan væri að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár og hún gæti séð fyrir sér að nýr framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð yrði sá fyrsti á landinu til að bjóða upp á þetta þriggja ára nám. Ég tel, eftir á að hyggja, að á þessum fundi hafi verið lagðar mikilvægar línur um það sem síðar varð.

Þorgerður Katrín segir það rétt að á þessum tíma hafi verið farið að ræða um að stytta nám til stúdentsprófs og hún hafi séð fyrir sér að ef til kæmi yrði framhaldsskóli í Ólafsfirði sá fyrsti á landinu til að taka upp þriggja ára nám til stúdentsprófs:

Sveitarstjórnarfólk við utanverðan Eyjafjörð hafði lengi barist fyrir því að tryggja framhaldsnám á svæðinu og studdi mál sitt gildum rökum. Ég minnist þess að fundurinn með norðanfólki í ráðuneytinu 12. janúar 2006 var málefnalegur og góður og í kjölfarið komst aukinn skriður á málið.

Undir lok janúar 2006 skipaði Þorgerður Katrín starfshóp sem var falið að „yfirfara og meta fýsileika þeirra kosta sem til staðar eru varðandi byggingu nýrra framhaldsskóla. Starfshópurinn mun skoða sérstaklega kosti á höfuðborgarsvæðinu og við utanverðan Eyjafjörð.“ Í starfshópnum voru Aðalsteinn Eiríksson, Jón Þór Ragnars, Þórir Ólafsson og Arnór Guðmundsson.

Sameining Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar 

Þegar horft er um öxl er engum blöðum um það að fletta að stofnun Menntaskólans á Tröllaskaga var sterklega tengd annars vegar sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar og hins vegar tilkomu Héðinsfjarðarganga.

Frá aldamótum höfðu verið þreifingar um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði. Siglfirðingar horfðu til víðtækrar sameiningar við sveitarfélög í Eyjafirði en Ólafsfirðingar voru hlynntari sameiningu sveitarfélaga við utanverðan fjörðinn; Ólafsfjarðarbæjar, Dalvíkurbyggðar og Siglufjarðarkaupstaðar.

Árið 2005, í framhaldi af verkefninu Átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins, var kosið um tillögu að sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði, að Grímseyjarhreppi frátöldum, og var hún felld í sjö af níu sveitarfélögum en Ólafsfirðingar og Siglfirðingar samþykktu. Í framhaldinu ákváðu sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga að ganga til viðræðna um sameiningu þeirra. Í október 2005 skipuðu bæjarstjórnir Ólafsfjarðar og Siglufjarðar fulltrúa í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna. Í nefndina kaus bæjarstjórn Ólafsfjarðar Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur og Snjólaugu Ástu Sigurfinnsdóttur sem aðalmenn og Ásgeir Loga Ásgeirsson og Rögnvald Ingólfsson sem varamenn. Bæjarstjórn Siglufjarðar kaus Ólaf Hauk Kárason og Unnar Már Pétursson sem aðalmenn og Egil Rögnvaldsson og Skarphéðin Guðmundsson sem varamenn. Hlutverk samstarfsnefndarinnar var m.a. að kynna sameininguna og svara fyrirspurnum þar að lútandi. Í því skyni var m.a. efnt til kynningarfunda á Siglufirði og í Ólafsfirði 24. og 25. janúar 2006. Sameiningarkosningar fóru síðan fram 28. janúar. Á Siglufirði voru 86% þeirra sem greiddu atkvæði samþykk sameiningu en 77% Ólafsfirðinga sem greiddu atkvæði. Sameiningin var því samþykkt og sveitarstjórn kjörin fyrir nýtt sameinað sveitarfélag í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Jafnframt fékk nafnið Fjallabyggð mestan stuðning kjósenda sem nafn á hið nýja sveitarfélag.

Ekki þarf að efa að mikinn stuðning við sameiningu sveitarfélaganna má rekja til þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að ráðast í gerð Héðinsfjarðarganga er tengdu saman byggðarlögin og væru grunnur að samstarfi þeirra á mörgum sviðum. Um Lágheiði, sem var jafnan lokuð frá hausti og fram á vor, var vegalengdin milli bæjarfélaganna 65 km en með tvennum göngum varð vegalengdin um 15 km og leiðin opin allt árið.

Mörg mál báru á góma í aðdraganda sameiningarkosninganna í janúar 2006, ekki síst fræðslumál, sem jafnan hafa vakið hvað mesta umræðu í tengslum við sameiningu sveitarfélaga. Í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri (RHA) fyrir sameiningarkosningarnar er ítarlega fjallað um málefni leik- og grunnskóla enda sá málaflokkur á forræði sveitarfélaganna, en minna er rætt um framhaldsskólann, sem er kostaður af ríkinu. Hins vegar höfðu verið, sem að framan greinir, miklar umræður um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og er þeirra getið í skýrslu RHA: 

Mikil umræða hefur átt sér stað á sameiningarsvæðinu og í Dalvíkurbyggð um stofnun framhaldsskóla. Oftast hefur verið rætt um að skólinn yrði staðsettur í Ólafsfirði og ýmist hefur verið rætt um að yrði að ræða einskonar útstöð frá stærri framhaldsskóla eða fullgildan framhaldsskóla. Hvað sem þessum áformum líður má ætla að líkur aukist á að samstaða náist um stofnun framhaldsskólans verði sveitarfélögin sameinuð. Forsendur batna með öðrum orðum umfram þær sem skapast með samgöngubótum um Héðinsfjarðargöng. Rétt er að hafa í huga að samgöngur milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur kunna að vera hamlandi þáttur hvað þessar hugmyndir varðar.

Þrátt fyrir að ekki færi mikið fyrir umræðu í skýrslu RHA um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð fer þó ekki á milli mála að hann var ofarlega á baugi og á hann höfðu heimamenn lagt ríka áherslu í viðræðum við ríkisvaldið um hvernig þeir sæu fyrir sér nýtt sameinað sveitarfélag. Göngin voru ótvírætt ein mikilvægasta forsenda sameiningarinnar en nýr framhaldsskóli var þar einnig ofarlega á blaði og þeim skilaboðum var komið með skýrum hætti á framfæri við ráðamenn.

Héðinsfjarðargöng

Sem fyrr segir voru Héðinsfjarðargöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar ein af frumforsendum sameiningar sveitarfélaganna árið 2006 og átti gerð þeirra sér nokkuð langan aðdraganda.

Múlagöng voru opnuð fyrir umferð í desember 1990 en formleg opnun þeirra var 1. mars 1991. Í framhaldi af Múlagöngum, sem leystu úr langvarandi erfiðleikum í samgöngum Ólafsfirðinga við  Eyjafjörð, var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um gerð jarðganga ásamt vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Starfshópi vegamálastjóra var falið að kanna mögulega jarðgangagerð og hugsanlega uppbyggingu vegar um Lágheiði. Niðurstaða starfshópsins var að jarðgöng um Héðinsfjörð væru besti kosturinn.

Áfram var fjallað um málið og sýndist sitt hverjum. Vorið 2000 var samþykkt á Alþingi tillaga um gerð jarðganga á norðanverðum Tröllaskaga og voru rökin ekki síst þau að með þeim væri unnt að tengja Siglufjörð við byggðir Eyjafjarðar og þannig yrði Eyjafjarðarsvæðið eitt öflugt atvinnusvæði.

Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng voru fyrst boðnar út árið 2003 en ríkisstjórnin ákvað að slá málinu á frest og því var ekki samið við verktaka að svo komnu máli. Þó var það ár byggð brú yfir Ólafsfjarðarós sem hluti af nýrri veglínu að gangamunna Ólafsfjarðarmegin og árið eftir var byggð 12 metra brú yfir Fjarðará í Siglufirði.

Í janúar 2006 var gangagerðin aftur boðin út og var fyrsta formlega sprengingin Siglufjarðarmegin 30. september það ár. Fyrsta sprengingin Ólafsfjarðarmegin var 1. nóvember 2006.

Alt texti
Umfjöllun í Morgunblaðinu á opnunardegi Héðinsfjarðarganga.

Gangagröfturinn tók um tvö og hálft ár en heildar framkvæmdatími við Héðinsfjarðargöng, sem með vegskálum eru samtals um ellefu kílómetrar, var um fjögur ár. Göngin voru formlega opnuð fyrir umferð 2. október árið 2010.

Ráðning verkefnisstjóra

Skömmu fyrir jól árið 2007 auglýsti mennta- og menningarmálaráðuneytið lausa til umsóknar stöðu verkefnisstjóra vegna stofnunar framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og var umsóknarfrestur til 18. janúar 2008. Í auglýsingunni var þess getið að í menntamálaráðuneytinu væri „unnið að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og er stefnt að því að skólinn taki til starfa haustið 2009. Skólinn verður með höfuðstöðvar í Ólafsfirði og starfsemi hans miðuð við að mæta sem best þörfum íbúa í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð fyrir menntun á framhaldsskólastigi.“

Starf verkefnisstjóra, sem var gert ráð fyrir að starfaði til ársloka 2008, fólst í „að vinna að undirbúningi að stofnun framhaldsskólans í samvinnu við stýrihóp sem menntamálaráðherra skipaði á árinu 2007.“

Stýrihópinn, sem vísað er til í auglýsingunni, skipaði menntamálaráðherra í mars 2007 til undirbúnings að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og voru í honum bæjarstjórar Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar og sérfræðingar úr menntamálaráðuneytinu; Þórir Ólafsson, Marta Guðrún Skúladóttir og María Gunnlaugsdóttir. Stýrihópnum var falið að móta hugmyndir um námsframboð, námsfyrirkomulag, aðstöðu og staðsetningu fyrirhugaðs skóla og gera tillögu um upphafstíma skólahalds.

Þann 31. október lögðu tveir þingmenn Norðausturkjördæmis, Björn Valur Gíslason og Þuríður Backman, fram fyrirspurn á Alþingi til menntamálaráðherra: 

  • Hvenær er áætlað að hefja framkvæmdir við byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð?
  • Hvar verður skólinn og hvenær er áætlað að hann verði fullbúinn í nýju húsnæði?
  • Hver er áætlaður kostnaður við nýbyggingu framhaldsskólans?

Röskri viku síðar, 7. nóvember 2007, var umræða á Alþingi um málið þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði að unnið hafi verið að undirbúningi framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og ætlunin væri að hefja starfsemi hans á árinu 2009. Eitt af lykilatriðum við uppbyggingu skólans væri opnun Héðinsfjarðarganga. Þorgerður Katrín sagði að út frá því væri gengið að undirbúningsvinnunni að skólinn yrði í Ólafsfirði en engin ákvörðun hafi verið tekin um nýbyggingu skólahúsnæðis. Í fjáraukalögum fyrir árið 2007 og fjárlögum fyrir 2008 væri gert ráð fyrir samanlagt 20 milljónum króna til þess að "tryggja málinu framgang og hraða nauðsynlegum undirbúningi."

Á haustfundi Héraðsnefndar Eyjafjarðar 14. nóvember 2007 í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit komu fram ýmis sjónarmið um kostnað sveitarfélaganna í Eyjafirði um væntanlegan skóla og var lýst efasemdum um að unnt yrði að hefja kennslu haustið 2009 miðað við þá fjármuni sem til skiptanna væru. Niðurstaða Héraðsnefndar Eyjafjarðar var þó afdráttarlaus:

Héraðsnefnd Eyjafjarðar samþykkir að undirbúningur framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð miðist við það að skólinn verði einn af framhaldsskólum Eyjafjarðar. Það þýðir að bæði uppbygging hans og þátttaka í stjórnun verður á ábyrgð og forræði allra sveitarfélaga sem aðild eiga að héraðsnefnd, með sama hætti og framhaldsskólar á Akureyri.

Í framhaldinu samþykkti Héraðsnefnd Eyjafjarðar að setja á stofn fimm manna framhaldsskólanefnd sem væri skipuð tveimur fulltrúum Akureyrarkaupstaðar, einum úr Fjallabyggð og öðrum úr Dalvíkurbyggð og fimmti nefndarmaður yrði fulltrúi hinna sveitarfélaganna við Eyjafjörð. Hlutverk nefndarinnar væri að vera héraðsnefnd og héraðsráði og sveitarfélögum til ráðgjafar vegna byggingar nýrra framhaldsskóla við Eyjafjörð eða stækkunar þeirra skóla sem fyrir voru, leggja fram tillögur um skólabyggingar sem fyrirhugaðar væru varðandi námsframboð, námsleiðir og rekstur, meta hugsanlegt samstarf við aðra skóla, leggja fram tillögur um málsmeðferð og tilhögun vinnu vegna samnings við fjármála- og menntamálaráðuneytið um byggingu á nýjum framhaldsskóla og að hafa samstarf við stýrihóp sem menntamálaráðherra skipaði í mars 2007 til undirbúnings að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Fyrsti fundur framhaldsskólanefndarinnar var 6. febrúar 2008 og var upplýst á fundi Héraðsráðs Eyjafjarðar 27. febrúar að á honum hafi ekki verið einhugur um ýmislegt er lyti að stofnun nýs framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, þrátt fyrir einróma samþykkt Héraðsnefndar Eyjafjarðar 14. nóvember 2007. Einkum væri ekki einhugur um skiptingu byggingarkostnaðar milli sveitarfélaganna. Þessi ágreiningur var staðfestur á öðrum fundi nefndarinnar 20. febrúar og var ljóst að henni væri vandi á höndum með frekara nefndarstarf. Fram kom að Bæjarstjórn Akureyrar væri ekki tilbúin að greiða jafn mikinn hluta byggingarkostnaðar og samkvæmt reiknireglu um skiptingu kostnaðar á sveitarfélög við byggingu skólahúsnæðis við annars vegar Verkmenntskólann á Akureyri og hins vegar Menntaskólann á Akureyri – þ.e. að heimasveitarfélagið greiddi helming af hlut sveitarfélaganna en hin sveitarfélögin við Eyjafjörð greiddu það sem út af stæði samkvæmt íbúafjölda.

Alt texti
Jón Eggert Bragason. Mynd: Skessuhorn

Jón Eggert Bragason var ráðinn verkefnisstjóri vegna stofnunar framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og hóf störf vorið 2008. Hann hafði nýlega lokið meistaranámi og kenndi veturinn 2007-2008 við Menntaskólann í Kópavogi. Til þess að taka að sér verkefnisstjórnina fékk Jón Eggert eins árs leyfi frá kennslu. Hann hafði aðsetur í menntamálaráðuneytinu en fór margar ferðir norður til skrafs og ráðagerða.

Þann 3. september 2008 átti Jón Eggert fund með Héraðsráði Eyjafjarðar þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að stofna bæri fagnefnd um starf hins nýja skóla sem myndi leggja línur um skólastarfið, námsframboð o.fl. Slíkt væri forsenda þess að byggingarnefnd, þegar henni yrði komið á fót, gæti unnið sitt starf. Þessu sjónarmiði voru fulltrúar í héraðsráði samþykkir og jafnframt voru þeir sammála um að framhaldsskólanefnd Héraðsnefndar Eyjafjarðar, sem þá hafði starfað um nokkurra mánaða skeið, yrði leyst frá störfum, „enda hefði hún leitt tiltekin mál vegna kostnaðarskiptingar til lykta, ásamt því að benda á tiltekin atriði sem hugsa þyrfti fyrir við stofnun á nýjum framhaldsskóla.“

Fagnefnd framhaldsskóla í Ólafsfirði

Um miðjan september 2008 var Fagnefnd framhaldsskóla í Ólafsfirði skipuð og áttu sæti í henni Anna Sigríður Hjaltadóttir, ráðgjafi á Dalvík, Garðar Lárusson, áfangastjóri við Verkmenntaskólann á Akureyri, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Ólafsfjarðar, Jónína Magnúsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Siglufjarðar, og Valdimar Gunnarsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri. Vinnu nefndarinnar stýrði Jón Eggert Bragason verkefnisstjóri. Vikudagur birti þessa frétt um undirbúning að stofnun skólans í lok september 2008.

Fagnefndin hittist á sex fundum, til skiptis í Ólafsfirði og á Dalvík og var síðasti fundurinn 12. desember 2008. Athyglisvert er að nefndin hittist reglulega á fundum um haustið, þrátt fyrir efnahagshrunið, og raunar var fyrsti fundur hennar 8. október, tveimur dögum eftir sjónvarpsávarp Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, til þjóðarinnar.

Þess má geta í þessu sambandi að á vegum stýrihóps bæjarstjóranna í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð og fulltrúa menntamálaráðuneytisins var könnun meðal íbúa í báðum sveitarfélögum á viðhorfi þeirra til framhaldsskólans og voru niðurstöður hennar skólanum hagfelldar í Fjallabyggð en ekki í Dalvíkurbyggð. Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, studdi þó málið eftir sem áður og það gerði hún einnig sem formaður Héraðsnefndar Eyjafjarðar. Þrátt fyrir þessa neikvæðu niðurstöðu viðhorfskönnunar í Dalvíkurbyggð var það engu að síður niðurstaða bæjaryfirvalda að vinna áfram að málinu og veittu þau Svanfríði umboð til þess.

Þrátt fyrir að Fagnefnd framhaldsskóla í Ólafsfirði hafi unnið markvisst að málinu á haustdögum 2008 var það henni og Jóni Eggerti verkefnisstjóra ljóst að málið væri í hálfgerðri pattstöðu vegna efnahagshrunsins.

Í nóvember 2008 kom Þorgerður Katrín menntamálaráðherra norður til fundar við fulltrúa sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð, héraðsnefndarmenn og þá sem unnið höfðu að undirbúningi að stofnun skólans. Þar ítrekaði ráðherra stuðning við málið en sagði jafnframt að í ljósi stöðunnar í efnahagsmálum þjóðarinnar hefði hún ekki umboð til þess að skrifa undir eitt eða neitt að svo komnu máli.

Afrakstur vinnu Fagnefndar framhaldsskóla í Ólafsfirði á haustdögum 2008 var skýrslan Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð – skýrsla faghóps um námsframboð og kennsluhætti, dagsett 16. desember 2008. Þær hugmyndir sem þar eru settar fram  byggðu á vinnu nefndarinnar, hugmyndum heimamanna í Fjallabyggð um námsframboð í hinum nýja skóla, sem voru settar fram síðla árs 2007, sjónarmiðum sem fram komu á íbúafundum í Fjallabyggð 4. september og 15. september 2008 og hugmyndum grunnskólanemenda á unglingastigi í Fjalla- og Dalvíkurbyggð sem Jón Eggert Bragason verkefnisstjóri hitti 7. og 8. október 2008. Í inngangi að skýrslunni segir m.a.:

Tillögur þessar byggja á nýjum lögum um framhaldsskóla þar sem fræðsluskylda til 18 ára aldurs er lögfest og kveðið skýrt á um námsframboð fyrir alla. Hugmyndirnar snúa að því að bjóða öllum nemendum nám við hæfi í samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök á svæðinu og framhaldsskólana á Akureyri.

Í skýrslunni er lagt til að skólinn verði áfangaskóli og öllum opinn en áhersla verði á að hann þjóni íbúum við utanverðan Eyjafjörð. Áætlað var, samkvæmt skýrslunni, að í skólanum, sem tæki til starfa haustið 2010 í nýju 1200 fermetra húsnæði, yrðu  120 ársnemar.

Í kafla skýrslunnar um áherslur og stefnumótun kemur fram að skólinn verði skipulagður út frá hugmyndum um dreifmennt og nýti upplýsingatæknina eins og kostur er. Undirstrikað er mikilvægi þess að skólinn marki sér sérstöðu meðal framhaldskóla og hún skuli fólgin í kennsluháttum og nánu samstarfi við nærumhverfið, öllum nemendum skólans skuli standa til boða að velja áfanga eða braut sem tengist nærumhverfinu – hvort sem er í t.d. íþróttum eða vettvangsnámi hjá fyrirtækjum og stofnunum.

Í skýrslunni er gert ráð fyrir stúdentsprófsbrautum sem skiptist í kjarna, sérsvið og val. Ferðabraut er nefnd og einnig möguleiki á íþróttabraut og útilífsbraut. Þá er rætt um grunndeild starfsnáms er byggi að stórum hluta á verklegu námi í samstarfi við aðra skóla eða vinnustaði. Nám til annarra lokaprófa en stúdentsprófs er í skýrslunni nefnt almenn námsbraut með námi í skóla og á vinnustað, félagsliðabraut, stuðningsfulltrúanám, smáskipanám, fiskiðnaðarbraut, sjúkraliðabraut og starfsbraut.

Sem fyrr segir gerði skýrslan ráð fyrir 120 ársnemendum við hinn nýja framhaldskóla – þ.e. 70% hvers árgangs nýútskrifaðra nemenda grunnskólanna í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð og allt að 10 eldri nemendur myndu sækja hann fyrstu starfsárin, annað hvort sem dagskólanemendur eða í fjarnámi.

Samningur um stofnun framhaldsskóla

Til hafði staðið að samningur um stofnun og byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð, sem yrði staðsettur í Ólafsfirði, yrði undirritaður 11. október 2018. Af því varð þó ekki af þeirri ástæðu að dagana á undan höfðu allir stóru íslensku bankarnir, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing, fallið og neyðarlög voru sett 6. október. Undirritun samnings um skólann var því sjálfkrafa frestað um óákveðinn tíma en engu að síður vann Fagnefnd framhaldsskóla í Ólafsfirði að undirbúningi hans og kom saman til fyrsta fundar tveimur dögum eftir að neyðarlögin voru sett, sem að framan greinir.

Þrátt fyrir háa brimskafla í samfélaginu undir lok árs 2008 og á fyrstu mánuðum 2009, sem lyktaði með því að ríkisstjórn Geirs H. Haarde fór frá 26. janúar og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við 1. febrúar 2008, var áfram unnið að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafði verið menntamálaráðherra frá árinu 2003 til 2009 en í nýrri ríkisstjórn tók Katrín Jakobsdóttir við lyklavöldum í menntamálaráðuneytinu.

Þann 16. mars 2009 var loks komið að því að undirrita samning menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd ríkissjóðs, og Héraðsnefndar Eyjafjarðar um stofnun og byggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Samninginn undirritaðu í Tjarnarborg í Ólafsfirði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra,  Svanfríður Jónasdóttir, oddviti Héraðsnefndar Eyjafjarðar og bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, fyrir hönd Héraðsnefndar Eyjafjarðar, og Þórir Kr. Þórisson bæjarstjóri í Fjallabyggð.

Alt texti
Að lokinni undirritun samnings um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Aftari röð frá vinstri: Anna María Elíasdóttir, Anna Sigríður Hjaltadóttir, Hermann Jón Tómasson, Jón Eggert Bragason, Jónína Magnúsdóttir, Karítas Skarphéðinsdóttir Neff, Hermann Einarsson, Bjarnveig Ingvadóttir, Þórir Kristinn Þórisson og Þorsteinn Ásgeirsson. Fremri röð frá vinstri: Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir.

Í samningnum segir:

Menntamálaráðuneyti mun skipa skólanefnd og ráða skólameistara er hefji störf eigi síðar en í janúar 2010. Stefnt er að því að hefja kennslu haustið 2010. Skólameistari vinnur að undirbúningi námsframboðs og uppbyggingu framhaldsskólans í samvinnu við íbúa, atvinnulíf, grunnskólana á svæðinu og framhaldsskólana á Akureyri. Stefnt er að því að menntamálaráðuneytið semji við starfandi framhaldsskóla um að bjóða nám á framhaldsskólastigi frá hausti 2009 á Dalvík, í Ólafsfirði og á Siglufirði ef ásættanlegur fjöldi nemenda innritast. Útfærsla á þessu námsframboði verður í höndum þess framhaldsskóla sem tekur það að sér en stefnt er að nánu samstarfi við heimamenn um tilhögun námsins.
Stefnt er að því að byggja yfir skólann í Ólafsfirði. Aðilar eru sammála um að byggingin verði 1100-1300 m² er rúmi allt að 120 ársnemendur. Byggingarnefnd hefur þegar verið skipuð og skal hefja störf hið fyrsta. Við hönnun hússins og undirbúning skólastarfs verður lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni. Haga skal undirbúningi í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Stefnt er að því að undirbúningur framkvæmda hefjist þegar á árinu 2009 í samræmi við fjárheimildir.
Gert er ráð fyrir að gerður verði sérstakur samningur milli aðila um nýbygginguna sjálfa þegar fyrir liggja endanlegar tillögur um stærð og gerð húsnæðisins og kostnaðaráætlun. Gert er ráð fyrir að hlutdeild ríkissjóðs í kostnaði greiðist að stærstum hluta í fernu lagi á árunum 2009-2012.

Skólanefnd skipuð

Í samræmi við stofnsamninginn var skipuð skólanefnd með bréfi dagsettu 24. apríl 2009. Aðalmenn án tilnefningar voru Anna Sigríður Hjaltadóttir, Bergþór Morthens og Helgi Jóhannsson og aðalmenn tilnefndir af Héraðsnefnd Eyjafjarðar voru Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir og Jónína Magnúsdóttir. Þórir Ólafsson, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, boðaði til fyrsta fundar nefndarinnar í Höllinni í Ólafsfirði 12. maí 2009. Auk hans og nefndarfólks sátu fundinn Þórir Kr. Þórisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, Karitas Skarphéðinsdóttir, fræðslufulltrúi Fjallabyggðar, og Karl Kristjánsson og Sölvi Sveinsson, fulltrúar menntamálaráðuneytisins. Á þessum fyrsta fundi nefndarinnar var Jóna Vilhelmína kjörin formaður, rætt var um stofnsamning skólans frá 16. mars, óformlega könnun á áhuga nemenda í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð á að stunda nám við skólann og áhyggjur fólks af vetrarsamgöngum milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.

Jón Eggert Bragason verkefnisstjóri starfaði til vors 2009 er hann var ráðinn aðstoðarskólameistari nýs framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

Þann 4. júní 2009 var sameiginlegur fundur skólanefndar og byggingarnefndar framhaldsskólans. Þar upplýsti Þórir Ólafsson, sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu, að Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hafi samþykkt að veturinn 2009-2010 yrði kennt í Ólafsfirði og á Siglufirði í samræmi við stofnsamninginn sem ráðherra hafði undirritað 16. mars, samið yrði við starfandi framhaldsskóla um að bjóða upp á framhaldsnám við utanverðan Eyjafjörð frá hausti 2009 ef ásættanlegur fjöldi nemenda innritaðist. Fram kom á fundinum að Verkmenntaskólinn á Akureyri yrði þessi móðurskóli veturinn 2009-2010.

Á þessum sama fundi skóla- og byggingarnefndar kom fram sú skoðun að brýnt væri að móta skýra framtíðarsýn fyrir skólann með heimamönnum, foreldrum, sveitarstjórnum og væntanlegum nemendum. Rætt var um væntanlega nýbyggingu skólans, gerð rýmisáætlunar og að efnt yrði til samkeppni um hönnun skólahússins áður en verkið færi í útboð. Einnig kom fram að búið væri að ráða verkfræðistofuna Verkís á Akureyri til ráðgjafar um undirbúning byggingarframkvæmda.

Eftirtalin hafa setið í skólanefnd Menntaskólans á Tröllaskaga frá upphafi:

2009-2013
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, formaður, hætti í maí 2010 og í stað hennar tók Sigurður Valur Ásbjarnarson sæti í nefndinni
Anna Sigríður Hjaltadóttir, flutti 2010 og hennar sæti tók Hildur Ösp Gylfadóttir
Bergþór Morthens, hætti 2010 og sæti hans tók Aðalsteinn Þór Arnarsson
Helgi Jóhannsson, formaður frá maí 2010
Jónína Magnúsdóttir

2013-2017
Hildur Ösp Gylfadóttir, formaður
Helgi Jóhannsson
Jónína Magnúsdóttir
Edward Huijbens
Preben Jón Pétursson

Ekki var skipað í nýja skólanefnd fyrr en sumarið 2018.

2018-
Edward Huijbens, formaður
Dóróþea Reimarsdóttir
Ásgeir Logi Ásgeirsson
Katrín Freysdóttir
Rósa Jónsdóttir

Fjarkennsla frá VMA veturinn 2009-2010

Alt texti
Nemendur í fjarkennsluveri á Siglufirði. Mynd: Siglo.is

Í samræmi við stofnsamning hins nýja framhaldsskóla voru veturinn 2009-2010 starfræktar framhaldsdeildir á Siglufirði og í Ólafsfirði undir stjórn Verkmenntaskólans á Akureyri. Nemendur skráðu sig til náms í VMA en stunduðu það í fjarkennsluverum í heimabyggð. Haustið 2009 sóttu samtals þrjátíu og fimm nemendur námið á báðum stöðum. Bergþór Morthens hafði umsjón með kennslunni á Siglufirði en Margrét Lóa Jónsdóttir í Ólafsfirði. Á Siglufirði var kennt í húsakynnum Einingar-Iðu við Eyrargötu en í Ólafsfirði var námsverið á efri hæð ÚÍÓ-hússins, sunnan Gagnfræðaskólans.

Kennslan hófst 21. ágúst 2009. Mætingarskylda var í námsverin alla virka daga kl. 08:15-13:30 en nemendur gátu nýtt sér þau til kl. 16 á daginn. Öll kennsla var í fjarnámi frá VMA að öðru leyti en því að Bergþór og Margrét Lóa kenndu nemendum lífsleikni og voru þeim til aðstoðar í fjarnáminu. Ljóst var að þetta kennslufyrirkomulag yrði einungis þennan eina vetur, á sama tíma var unnið að undirbúningi hins nýja skóla er taka myndi til starfa haustið 2010. 

Ráðning skólameistara

Þann 19. nóvember 2009 auglýsti mennta- og menningarmálaráðuneytið embætti skólameistara framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð lausa til umsóknar og var umsóknarfrestur til 15. desember 2009. Í auglýsingu ráðuneytisins kemur fram að menntamálaráðherra skipi í stöðuna að fenginni umsögn skólanefndar til fimm ára, frá og með 1. janúar 2010. Í auglýsingunni segir um starfssvið skólameistara:

Skólameistari veitir framhaldsskólanum forstöðu. Hann stjónar daglegum rekstri og starfi skólans og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans. Skólameistari mun leiða hugmyndavinnu, uppbyggingu og skipulagningu faglegrar starfsemi skólans í samstarfi við hagsmunaaðila en gert er ráð fyrir sveigjanleika og möguleikum til nýbreytni í starfsháttum skólans.

Sjö umsóknir bárust um skólameistarastöðuna:

Elías Gunnar Þorbjörnsson, meistaranemi
Jón Eggert Bragason, aðstoðarskólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Ólafsfjarðar
Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Lind Völundardóttir, meistaranemi
Margrét Lóa Jónsdóttir, verkefnastjóri
Pétur Ingi Guðmundsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

Snemma árs 2010 dró Jón Eggert Bragason umsókn sína til baka.

Þann 3. mars 2010 gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út tilkynningu um að mennta- og menningarmálaráðherra hefði að fenginni umsögn skólanefndar skipað Láru Stefánsdóttur í embætti skólameistara til fimm ára frá 1. mars 2010. Lára rifjar upp:

Þegar ég sótti um stöðuna var umsóknarfrestur til 15. desember og skólameistari átti að hefja störf 1. janúar 2010. Ráðningin dróst hins vegar og það var ekki fyrr en 3. mars að hringt var í mig úr ráðuneytinu og mér tilkynnt um að ráðherra hefði skipað mig í starfið. Á þessum tíma var fjölmargt í lausu lofti varðandi skólann og ég fann ekki fyrir miklum áhuga á honum í menntamálaráðuneytinu. Það mátti líka skynja neikvæða strauma frá nokkrum stjórnendum annarra framhaldsskóla, sem var á vissan hátt skiljanlegt því þetta var ekki löngu eftir efnahagshrunið og þrengt hafði fjárhagslega að framhaldsskólum í landinu. Ýmsum fannst það skjóta skökku við að á sama tíma og aukið fjármagn sárvantaði inn í framhaldsskólakerfið ætti að setja á stofn nýjan framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Mér þótti þessi umræða erfið því ég hafði ekkert með ákvörðun um stofnun skólans að gera, hún var annarra. Ég hafði einungis sótt um vinnu eins og aðrir og vildi sinna starfi mínu eins vel og ég gæti.

Vorið 2009 lauk Lára meistaraprófi í listljósmyndun frá Academy of Art University í San Francisco og hún horfði til þess í framhaldinu að kenna listljósmyndun. Hún hafði áður starfað í Fjölbrautaskólanum við Ármúla á árunum 1988 til 1992 og 1992 til 1996 tók hún þátt í því að byggja upp Íslenska menntanetið með Pétri Þorsteinssyni, Jóni Eyfjörð og Birni Þór Jónssyni. Á árunum 1998-2001 vann Lára að uppbyggingu upplýsingatækni í Menntaskólanum á Akureyri, hún stýrði tölvudeild skólans, endurmenntun kennara og kenndi nemendum á tölvur. Á þeim tíma var MA annar tveggja þróunarskóla í framhaldsskólakerfinu í upplýsingatækni.

Eftir tímann í MA vann Lára sjálfstætt að ýmsum verkefnum og lauk jafnframt meistaraprófsritgerð í menntunarfræðum við Kennaraháskólann þar sem hún fylgdi eftir þriggja ára rannsókn í MA um fartölvunotkun nemenda og kennara. Síðar vann hún m.a. hjá tölvufyrirtækjunum Þekkingu og Stefnu á Akureyri.

Lára minnist þess að eftir að hún var ráðin til að stýra hinum nýja skóla hafi hún í fyrstu horft til þess að búa áfram á Akureyri og aka daglega á milli en á nokkrum vikum hafi hún komist að því að það gæti aldrei gengið upp auk þess sem hún hafi fljótlega séð hversu mikilvægt það væri fyrir nærumhverfi skólans að stjórnendur hans væru á staðnum og ynnu náið með fólkinu í byggðarlaginu að uppbyggingu og þróun skólans.

Ég hafði aldrei stýrt framhaldsskóla og stóð nú frammi fyrir því verkefni að byggja upp nýjan skóla. Það var mikil áskorun. Ég leitaði mikið til Þráins Sigurðssonar, sem hafði unnið að húsnæðismálum skólans og þekkti því til málsins. Hann stóð þétt við bakið á mér og veitti mér góð ráð. Til þess að skólinn hefði aðgang að þeim fjármunum sem hann hafði þegar fengið á fjárlögum þurfti hann kennitölu. Einn daginn þegar ég var stödd í Reykjavík gékk ég inn á skrifstofu á Laugaveginum og fékk þar skráða kennitölu fyrir hinn nýja skóla og þar með var hann orðinn til í kerfinu og peningar frá ríkinu komu inn á reikning skólans. Fram að því hafði óstofnaður skóli verið rekinn á minni kennitölu og ég greiddi reikninga úr eigin vasa. Það var á margan hátt skrítin byrjun í starfi skólameistara nýs framhaldsskóla.

Alt texti
Menntaskólinn á Tröllaskaga í húsinu þar sem áður var Gagnfræðaskólinn í Ólafsfirði.

Nafn á nýjan skóla

Kennitalan var skráð við nafn hins nýja skóla – Menntaskólinn á Tröllaskaga.

Í aðdraganda að stofnun skólans var vinnuheiti hans Framhaldsskólinn við utanverðan Eyjafjörð en almennt var fólk sammála um að það væri heldur óþjált og yrði því ekki nafn skólans til frambúðar. Á íbúafundum sem Jón Eggert Bragason verkefnisstjóri hélt með íbúum í Fjallabyggð var kastað fram ýmsum hugmyndum um nafn á skólann: Mímisbrunnur, Tröllaskóli, Opni starfsgreinaskólinn, Framhaldsskólinn í Fjallabyggð, Framhaldsskólinn Tröllaskaga, Framhaldsskólinn Fjórðungur, Framhaldsskólinn Eyjafirði, Framhaldsskólinn Ólafsfirði og Framhaldsskóli Norðurlands. Á íbúafundi á Dalvík komu fram eftirfarandi tillögur að nafni á skólann: Útey, Tröllaskagi, Tröllaskóli, Frútey og Drangur. Jón Eggert hélt einnig fundi með grunnskólanemum á Dalvík og í Fjallabyggð og þar voru settar fram ýmsar hugmyndir að nöfnum: Menntaskóli Ólafsfjarðar, Menntaskóli Fjallabyggðar, Framhaldsskóli Ólafsfjarðar, Framhaldsskóli Eyjafjarðar, Framhaldsskóli Eyfirðinga, Dalvíkurskóli, Eyjafjarðarskóli, Framhaldsskóli Fjallabyggðar, Fjölbrautaskóli Fjallabyggðar, Verkmenntaskóli Fjallabyggðar, Framhaldsskóli Norðurlands, Framhaldsskóli Norðausturlands, Íslandsskóli, Fjallaskóli, Framhaldsskóli Tröllaskaga, Fjallabyggð listaskólinn, Framhaldsskóli Siglufjarðar, Framhaldsskólinn Múlinn, Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð og Framhaldsskólinn Fjalló.

Lára Stefánsdóttir rifjar upp að þegar komið var að því að finna skólanum nafn hafi hún ekki fallið fyrir neinni af framangreindum nafnahugmyndum. Hún hafi hvorki verið hrifin af framhaldsskólifjölbrautaskóli. Í sínum huga snúist skólastarf fyrst og síðast um menntun og þess vegna hafi hún talað fyrir því að skólinn bæri nafnið menntaskóli en jafnframt ekki talið rétt að skólinn héti Menntaskóli Ólafsfjarðar, um það yrði ekki samstaða:

Þá fór ég að velta fyrir mér hvaða nafn fólk hér á svæðinu gæti almennt sammælst um, nafn sem hefði ákveðinn kraft og dug. Þá kom upp í hugann tengingin við Tröllaskaga. Einn morguninn hugsaði ég með mér, Menntaskólinn á Tröllaskaga, já, það er kröftugt og flott nafn! En þar með var björninn ekki unninn því menntamálaráðherra þurfti að leggja blessun sína yfir nafnið. Mér lá á að fá nafnið staðfest til þess að geta sótt um kennitölu fyrir skólann og stofnað hann. Ég hringdi því í Björn Val Gíslason, mág minn, sem þá var þingmaður Vinstri grænna, og útlistaði fyrir honum málfræðileg rök fyrir því að leggja til þetta nafn á skólann og bað hann jafnframt að mæla fyrir því við Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Hann gerði það og ráðherra samþykkti strax nafnið. Daginn eftir sótti ég um og fékk kennitölu fyrir Menntaskólann á Tröllaskaga.

Undirbúningur skólastarfsins   

Innritun nemenda á haustönn 2010 hófst 1. apríl og fyrir þann tíma þurfti að vera búið að skrifa námskrá fyrir áfanga sem yrði boðið upp á og kynna þá. Tíminn var naumur, tæplega mánuður frá því að Lára var ráðin skólameistari:

Á Akureyri hitti ég af tilviljun Valgerði Ósk Einarsdóttur kennara sem ég hafði kynnst vestur í Grundarfirði þegar ég vann tímabundið að verkefni við upphaf skólastarfs Framhaldsskóla Snæfellinga. Valgerður hafði komið að því að skrifa námskrá fyrir framhaldsskólann í Grundarfirði og hún varð við þeirri beiðni minni að leggja mér lið við þessa vinnu fyrir Menntaskólann á Tröllaskaga. Ekki nóg með það, Valgerður ákvað að taka slaginn og kenndi við skólann frá 2010. Það var gríðarlega mikilvægt að fá notið krafta hennar og þekkingar við að koma þessu öllu í gang.

Þegar ég horfi til baka er mér ljóst að hugmyndir að skólanum sótti ég í töluverðum mæli til þeirrar sköpunarþekkingar sem ég aflaði mér í meistaranámi mínu í listljósmyndun. Til viðbótar nýttist vel þekking mín úr menntunarfræðum og það sem ég kunni í tölvunarfræði. Í framhaldinu lét ég hanna og búa til vef skólans og jafnframt fól ég Dagnýju Reykjalín á Akureyri að hanna merki skólans. Frá upphafi hefur Dagný hannað allt auglýsinga- og kynningarefni skólans. Á vef skólans voru frá fyrsta degi sett einkunnarorð skólans sem ég átti von á að myndu smám saman taka breytingum en það hefur ekki gerst og þau eru óbreytt frá upphafi; Frumkvæði – Sköpun – Áræði.

Megináhersla í skólastarfinu lá fyrir áður en farið var í að ráða starfsmenn að skólanum og hún hefur í öllum aðalatriðum verið hin sama frá upphafi. Með frumkvæði er vísað til frumkvæðis í kennslu og að kenna nemendum að tileinka sér frumkvæði - þess vegna höfum við kennt frumkvöðlafræði. Sköpun vísar til skapandi hugsunar og að hugsa í lausnum. Þess vegna þurfa allir nemendur skólans að taka áfanga í listum. Áræði vísar til þess að þora að feta ótroðna slóð. 

Alt texti
Merki Menntaskólans á Tröllaskaga hannaði Dagný Reykjalín.

Merki skólans

Eins og Lára skólameistari nefnir hér að framan hannaði Dagný Reykjalín á Akureyri merki Menntaskólans á Tröllaskaga og hefur frá byrjun komið að útfærslu auglýsinga- og kynningarefnis skólans. Dagný lýsir merkinu svo:

Merki Menntaskólans á Tröllaskaga er upprunnið í ölduforminu en hafið er einkennandi í umhverfi skólans. Aldan er táknræn fyrir orku og kraft, auðlind, óendanlega endurnýjun og sjálfbærni. Í forminu má einnig sjá hvernig flett er blaðsíðum í bók. Bogarnir sem falla í sömu átt í sameiginlegan punkt tákna samvinnu ólíkra aðila. Einnig má hugsa sér að þeir eigi sameiginlegan uppruna og blómstri hver í sína átt. Úr því má lesa að áhersla sé lögð á þarfir hvers og eins.

Jóna Vilhelmína ráðin aðstoðarskólameistari

Níu umsóknir voru um stöðu aðstoðarskólameistara MTR:

Anna Hulda Hjaltadóttir
Arnfríður Aðalsteinsdóttir
Harpa Jörundardóttir
Herþrúður Ólafsdóttir
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir
Lind Völundardóttir
Óskar Þórðarson
Sigrún Birta Viðarsdóttir
Sigurður Þ. Ragnarsson

Fjórir umsækjenda voru boðaðir í stjórnendapróf, þrír tóku prófið. Lára Stefánsdóttir skólameistari ákvað að gangast sjálf undir stjórnendaprófið til þess að kalla fram veikleika sína og styrkleika. Út frá eigin prófi og prófum umsækjenda valdi Lára í starf aðstoðarskólameistara þann umsækjanda sem próf hans sýndi mestu styrkleikana á því sviði sem Lára sjálf sýndi mestu veikleikana. Sá umsækjandi var Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, sem hefur verið aðstoðarskólameistari MTR frá upphafi.

Jóna Vilhelmína hafði starfað við kennslu í Ólafsfirði í tæpa tvo áratugi þegar hún var ráðin aðstoðarskólameistari á vordögum 2010. Á árunum 1991-2005 var hún kennari við Gagnfræðaskólann í Ólafsfirði og 2005-2010 við Grunnskóla Ólafsfjarðar, skólaárið 2009-2010 var Jóna Vilhelmína aðstoðarskólastjóri. Árið 1989 lauk hún BA-prófi frá Háskóla Íslands í annars vegar bókasafns- og upplýsingafræði og hins vegar íslensku. Árið 1990 lauk hún námi í uppeldis- og kennslufræðum og tveimur árum síðar M. Paed gráðu í íslensku frá HÍ. Árið 2008 lauk Jóna Vilhelmína diplómu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ og árið 2012 MPA í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla.

Húsnæðismál MTR

Í tengslum við stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð var þann 29. janúar 2009 sett á stofn byggingarnefnd fyrir skólann sem í voru Þráinn Sigurðsson, formaður, Þórir Ólafsson og Sölvi Sveinsson, allir frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Þorsteinn K. Björnsson úr Dalvíkurbyggð, og Guðmundur Skarphéðinsson, fulltrúi Fjallabyggðar. Nefndin fékk verkfræðistofuna Verkís til samstarfs og var Jónas V. Karlesson, verkfræðingur á Akureyri, verkefnisstjóri.

Byggingarnefndin fundaði oft á árinu 2009 um húsnæðismál hins nýja skóla og fór m.a. í vettvangsheimsóknir 28. ágúst 2009 í tvo nýlega framhaldsskóla, Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði og Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi.

Fram eftir ári vann nefndin að því að gera sér grein fyrir húsnæðisþörfinni, hversu miklu rými skólinn þyrfti að ráða yfir til þess að koma starfseminni fyrir. Af fundargerðum byggingarnefndar má ráða að fyrst og fremst hafi verið horft til þess að byggt yrði nýtt skólahús í Ólafsfirði og það myndi rísa nálægt Gagnfræðaskólahúsinu. Ein hugmyndin var sú að bókasafn skólans yrði í GÓ-húsinu og tengigangur yrði á milli þess og nýbyggingar framhaldsskólans. Vinna byggingarnefndar tók mið af því að í skólanum yrðu um 120 nemendur. Í þarfagreiningu og rýmisáætlun sem Verkís vann var gert ráð fyrir að skólinn yrði 1250 brúttófermetrar að stærð.

Í samantekt frá nóvember 2009 kemur fram að Verkís var falið að gera frumathugun er myndi annars vegar ná til byggingar nýs skólahúss eða koma skólanum fyrir í eldra húsnæði.

Fyrir lá að ef ráðist yrði í byggingu nýs skólahúss yrði það á skóla- og íþróttasvæðinu í Ólafsfirði er afmarkaðist af Aðalgötu í norðri, Ægisgötu í vestri, Túngötu í austri og íþróttasvæði bæjarins í suðri. Í skýrslu Verkís eru dregin fram helstu áhersluatriði er hafa þyrfti að leiðarljósi við hönnun nýs skóla:

  • Öll aðkoma utandyra fyrir nemendur og starfsfólk skólans og vörumóttöku verði greið og örugg.
  • Móttaka, afgreiðsla og aðrar skrifstofur verði í beinum tengslum við anddyri.
  • Matsalur og fjölnotasalur og skólatorg verði í beinum tengslum við anddyri.
  • Kennslurými verði saman í klasa.
  • Æskilegt er að „verkstæði“ fyrir listgreinar og handverk verði í tengslum við önnur kennslurými og aðkoma og aðgengi fyrir efnislager til verklegrar kennslu sé góð.

Verkís áætlaði að heildarkostnaður við byggingu nýs skólahúss í Ólafsfirði yrði 440 milljónir króna á verðlagi í maí 2008. Hönnun byggingarinnar áætlaði Verkís að yrði lokið í maí 2010 og útboðs- og samningagerð í júlí sama ár. Byggingin yrði þá tilbúin til notkunar síðari hluta ágúst 2011.

Verkís skoðaði einnig að koma skólastarfinu fyrir í eldra húsnæði. Tvö hús voru skoðuð, annars vegar hús Gagnfræðaskóla Siglufjarðar við Hlíðarveg og hins vegar hús Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar við Ægisgötu. Athugun leiddi fljótlega í ljós að Gagnfræðaskólahúsið á Siglufirði var slegið út af borðinu. Um það segir í skýrslu Verkís:

Að okkar mati liggur ljóst fyrir að staðsetning framhaldsskólans á þessum stað er óheppileg og lausn á bílastæðum vegna skólans er ekki í sjónmáli. Auk þess má ætla að ráðast þyrfti í svo umfangsmiklar endurbætur, að heildarkostnaður verksins yrði vart undir nýbyggingarkostnaði. Í ljósi þessa er það niðurstaða okkar, að ekki sé fýsilegt né hagkvæmt að koma nýjum framhaldsskóla fyrir í þessari byggingu.

Alt texti
Gagnfræðaskólahúsið á haustdögum 2010 þegar unnið var að því hörðum höndum að endurbótum á húsnæðinu til þess að geta þar hafið kennslu fyrsta skólaárið. Mynd: Sksiglo.is

Þá var í raun bara einn kostur eftir varðandi nýtingu á eldra húsnæði, Gagnfræðaskólahúsið í Ólafsfirði, sem Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir arkitektar höfðu teiknað á sínum tíma, um 1000 fermetrar að grunnfleti.

Niðurstaða Verkís var að unnt væri að koma skólastarfinu fyrir í húsinu en byggja þyrfti um 200 fermetra álmu við skólann. Tekið er fram í skýrslu Verkís að umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu séu óhjákvæmilegar til þess m.a. að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um brunahólfun og flóttaleiðir. Verkís áætlaði kostnað við endurbætur á húsinu 190 milljónir króna á verðlagi í maí 2008. Að öllu samanlögðu var áætlað að kostnaður við endurbætur og viðbyggingu við Gagnfræðaskólahúsið væri 280 milljónir króna samanborið við 440 milljónir króna sem áætlað var að nýtt 1200 fermetra hús myndi kosta.

Í aðdraganda að stofnun Menntaskólans á Tröllaskaga höfðu verið háværar raddir í Fjallabyggð um mikilvægi þess að ráðast í nýbyggingu fyrir skólann, bæði myndi hún skapa umtalsverða vinnu fyrir iðnaðarmenn á svæðinu á meðan á byggingu skólahússins stæði og þegar til lengri tíma yrði litið væri byggðarlaginu mikilvægt að skólinn væri í húsnæði sem yrði hannað utan um starfsemi hans. Að þessari hugmyndafræði vann byggingarnefndin fram eftir ári 2009 en þegar kom að lokaákvörðun um bygginguna reyndist ekki vera til staðar sá stuðningur frá ríkisvaldinu sem var nauðsynlegur til þess að ráðast í nýbyggingu. Hafa ber í huga að á síðari hluta ársins 2009 var eitt ár liðið frá efnahagshruninu og mikils aðhalds gætti hjá ríkinu í fjárveitingum til nýframkvæmda. Fyrir lágu framangreindar kostnaðartölur frá Verkís og niðurstaðan var sú að fara þá leið að koma hinum nýja framhaldsskóla fyrir í Gagnfræðaskólahúsinu og gerði ríkið í framhaldinu langtímaleigusamning við Fjallabyggð, sem á húsið, um afnot af því fyrir skólann.

Skammur tími var til stefnu því skólastarf skyldi hefjast seinnihluta ágúst. Ljóst var að ýmislegt þurfti að gera áður en kennsla gæti hafist. Brunavörnum var ábótavant og vitað var að gera þyrfti við leka á nokkrum stöðum. Þegar þarna var komið sögu var sumarleyfistími og því erfitt að fá iðnaðarmenn til starfa. Sigurður Valur Ásbjörnsson var nýlega tekinn til starfa sem bæjarstjóri í Fjallabyggð og sýndi hann málinu mikinn áhuga og fylgdi því fast eftir. Hann kallaði iðnaðarmenn í Fjallabyggð á sinn fund og féllust þeir á að taka verkið að sér með skömmum fyrirvara og höfðu orð á því að það gerðu þeir fyrst og fremst í þágu hins nýja skóla og nemenda hans. Hratt var unnið og mikill fjöldi iðnaðarmanna var við störf í húsinu í júlí og ágúst. Stefán Ragnar Hjálmarsson, bæjartæknifræðingur í Fjallabyggð, hafði eftirlit með framkvæmdum fyrir hönd sveitarfélagsins en Sigurður Hlöðvesson, tæknifræðingur á Siglufirði, var eftirlitsmaður ríkisins við framkvæmdirnar.

Eins og oft vill verða við endurbætur á eldra húsnæði þurfti að laga ýmislegt fleira en lagt var upp með þegar í framkvæmdir var ráðist.  Vegna krafna um eldvarnir þurfti m.a. að skipta um hurðir  og veggi í kennslustofum, raf- og tölvulagnir þurfti að endurnýja, lagaðar voru rakaskemmdir og ýmislegt fleira. Þessar endurbætur tóku þó ekki til norðurálmu hússins, því fyrsta veturinn hafði MTR hana ekki til afnota, hún var þann vetur nýtt af Grunnskóla Fjallabyggðar. Haustið 2012 fékk skólinn  norðurálmuna, sem er 365 fermetrar að grunnfleti, til afnota. Við það vænkaðist hagur skólans í húsnæðismálunum enda hafði þrengt veruleqa að starfsemi hans fyrstu tvö skólaárin. En eftir sem áður skorti rými fyrir mötuneyti og samkomusal. Málið var rætt á fundi skólanefndar 30. október 2012 og gerð eftirfarandi samþykkt:

Skólanefnd Menntaskólans á Tröllaskaga skorar á yfirvöld menntamála að huga hið allra fyrsta að lausnum á húsnæðisvanda skólans og felur skólameistara og formanni skólanefndar að fylgja málinu eftir.

Af hálfu skólayfirvalda var málinu fylgt eftir og sent bréf til menntamálaráðuneytisins undir vor 2013 þar sem segir m.a. að í ljósi rýmisþarfar og nemendaspár sé óskað eftir að hafin verði vinna að undirbúningi viðbyggingar við skólann. Svar ráðuneytisins var á þann veg að ríkið myndi ekki byggja við skólann enda væri húsnæðið ekki í eigu ríkisins heldur Fjallabyggðar.

Í ágúst 2014 komst aftur hreyfing á húsnæðismálin þegar skólayfirvöld tóku upp viðræður við bæjaryfirvöld í Fjallabyggð. Síðar var settur á stofn vinnuhópur um bygginguna sem í áttu sæti skólameistari og aðstoðarskólameistari MTR, bæjarfulltrúar, bæjarstjóri og tæknifræðingur Fjallabyggðar. Þann 2. september 2016 tók Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra fyrstu skóflustungu að 231 fermetra viðbyggingu við skólann. Fjallabyggð samdi við BB byggingar á Akureyri, lægstbjóðanda í bygginguna, sem átti liðlega 110 milljóna króna boð í bygginguna, og hófust jarðvegsframkvæmdir 12. september.

Alt texti
Við vígslu Hrafnavoga 25. ágúst 2017.

Tímaáætlun stóðst og var byggingin, sem fékk nafnið Hrafnavogar, tekin formlega í notkun 25. ágúst 2017 við hátíðlega athöfn. Henni stýrði Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, en ávörp fluttu Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs Fjallabyggðar, og Lára Stefánsdóttir skólameistari. Kristján Þór og Kristinn G. Jóhannsson, listmálari og fyrrverandi skólastjóri Gagnfræðaskólans í Ólafsfirði, klipptu á borðann og opnuðu húsið með formlegum hætti. Í Hrafnavogum er mötuneyti auk fundar- og félagsaðstöðu fyrir nemendur. Rekstur mötuneytis hófst í salnum 25. september og var fyrsta daginn á borðum lasanja með sósu, salati og hvítlauksbrauði.

Fyrsta skólasetningin 21. ágúst 2010

Laugardaginn 21. ágúst 2010 kl. 14:00 var komið að fyrstu skólasetningu Menntaskólans á Tröllaskaga í Tjarnarborg í Ólafsfirði. Til hennar var íbúum Fjallabyggðar boðið auk fjölmargra annarra gesta. Af þessu tilefni fékk skólinn leyfi Háfells, sem vann að frágangi Héðinsfjarðarganga, til þess að opna þau fyrir Siglfirðinga sem vildu vera viðstaddir skólasetninguna. Var bílalestinni fylgt í gegnum göngin frá Siglufirði kl. 12:30 og aftur til baka kl. 16:00.

Við skólasetninguna var Láru Stefánsdóttur skólameistara efst í huga þakklæti til allra þeirra sem hefðu unnið að því að skólinn yrði að veruleika og gæti hafið starfsemi; íbúum Fjallabyggðar, ráðamönnum og iðnaðarmönnum sem margir hefðu fórnað sumarfríum sínum í þágu nemenda skólans til þess að unnt yrði að hefja skólastarfið á tilsettum tíma.

Gestir fluttu ávörp við skólasetninguna. Þar á meðal Ólafsfirðingurinn Björn Valur Gíslason, alþingismaður Norðausturkjördæmis, sem flutti ávarp Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Einnig tóku til máls Kristján L. Möller samgönguráðherra, Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, Birkir Jón Jónsson, alþingismaður Norðausturkjördæmis, og fulltrúar sveitarfélaganna sem standa að skólanum.

Að lokinni formlegri skólasetningu í Tjarnarborg var athöfn við hús Menntaskólans á Tröllaskaga þar sem steinn úr Héðinsfjarðargöngum, sem Háfell færði skólanum að gjöf í tilefni af upphafi skólastarfs, var afhjúpaður. Séra Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Ólafsfirði, blessaði skólahúsið og starfsemi hins nýja skóla. Að því loknu var opið hús í skólanum og boðið upp á veitingar.

Margar fleiri gjafir bárust skólanum af þessu tilefni. Akureyrarbær gaf ljósmynd af Akureyri og Sögu Akureyrar, Dalvíkurbyggð gaf Sögu Dalvíkur og Sögu Sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur gáfu ljósmyndir úr sínum byggðarlögum, Fjallabyggð gaf skólanum listaverk eftir Garúnu, Kristinn G. Jóhannsson, myndlistarmaður og skólastjóri Gagnfræðaskólans í Ólafsfirði til fjölda ára, og Guðbjörg Sigurðardóttir, eiginkona hans, gáfu skólanum þrjú málverk eftir Kristin, Katrín Sif Andersen gaf málverk eftir Bergþór Morthens, Pedrómyndir á Akureyri gáfu skólanum ljósmynd af Ólafsfirði eftir Gísla Kristinsson og sparisjóðirnir á Siglufirði og í Ólafsfirði færðu skólanum málverk eftir Garúnu og Bergþór Morthens, samtals að verðmæti 500 þúsund krónur.

Síðar hefur skólanum borist fjöldi veglegra gjafa. Nefna má að árið 2012 gaf Brynhildur Briem skólanum Íslendingasögurnar í tólf bindum auk nafnaskrár, Riddarasögur í sex bindum, Karlamagnússögu og fleiri perlur úr fornbókmenntunum. Árið 2013 færði  séra Sigurður Ægisson, sóknarprestur á Siglufirði, skólanum að gjöf vatnslitamynd sem hann málaði árið 2009 og ber heitið Tímans tönn. Snemma árs 2016 gaf Kristinn G. Jóhannsson skólanum málverk og á hann nú tíu málverk sem Kristinn hefur málað.

Við upphaf skólastarfs í MTR haustið 2010 voru 73 nemendur skráðir til náms en fyrirfram höfðu skólayfirvöld áætlað að á milli 40 og 50 nemendur myndu hefja nám við skólann á fyrstu önninni. Flestir voru þeir úr Fjallabyggð; í fyrsta lagi nemendur sem höfðu veturinn 2009-2010 stundað nám í fjarkennsluverum á Siglufirði og í Ólafsfirði frá VMA, í öðru lagi nemendur sem luku 10. bekk grunnskóla vorið 2010, í þriðja lagi eldri íbúar Fjallabyggðar sem höfðu ekki áður haft tækifæri til að sækja framhaldsskóla utan byggðarlagsins en gátu nú stundað nám í heimabyggð og í fjórða lagi nemendur úr Fjallabyggð sem höfðu verið í öðrum framhaldsskólum en kusu að ljúka námi sínu í heimabyggð.

Menntaskólinn á Tröllaskaga hóf störf haustið 2010 samkvæmt nýrri námskrá sem veitti honum tækifæri til fjölbreytni og sveigjanleika í námsframboði. Á fyrstu dögum skólastarfsins birtist þetta viðtal við Láru Stefánsdóttur skólameistara í Fréttablaðinu.

Alt texti
Nemendur í sjósundsnámi í útivistaráfanga.

Námsbrautirnar sem voru í boði í upphafi voru ferða- og útivistarbraut, félags- og hugvísindabraut, listabraut (þar sem nemendur gátu valið fagurlistir, listljósmyndun eða tónlist), náttúruvísindabraut og fisktæknibraut. Síðastnefnda brautin var ekki að fullu mótuð þegar skólinn hóf starfsemi, þá hafði verið stofnað undirbúningsfélag um hana í samstarfi við sveitarfélög, sjávarútvegsfyrirtæki og stéttarfélög og var Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, stjórnarformaður þess. Við skólasetninguna 21. ágúst færði Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Ramma í Fjallabyggð, skólanum að gjöf eina milljón króna sem skólinn ákvað að færi í uppbyggingu fisktækninámsins.

Alt texti
Brautskráðir fisktæknar vorið 2018.

Nám í fisktækni hófst í MTR haustið 2012 og var auk kjarnagreina boðið upp á nám í sjávarútvegsfræðum, vinnuvistfræði, námstækni, fiskvinnslu og rekstri fiskvinnslufyrirtækja. Verkefnisstjóri námsins var Anna María Jónsdóttir, sjávarútvegsfræðingur. Þeir nemendur sem hófu fisktækninámið haustið 2012 luku því ekki og það lagðist í dvala í nokkur ár en þráðurinn var tekinn upp í samstarfi MTR, SÍMEY, Fisktækniskóla Íslands og Samherja á Dalvík og vorið 2018 brautskráðust tuttugu nemendur í fisktækni frá MTR.

Alt texti
Tígrisdýrin tvö áttu að vera við aðalinngang skólans til skamms tíma en með tíð og tíma urðu þau eitt af táknum skólans og órjúfanlegur hluti hans.

Tígrisdýrin og MTR

Framkvæmdum við endurbætur á Gagnfræðaskólahúsinu var ekki lokið fyrr en langt var liðið á haustið 2010 enda reyndust þær töluvert umfangsmeiri en ráð var fyrir gert. Þegar kennsla hófst var verið að mála skólann, engar hurðir voru á kennslustofunum og að hluta til var notast við bráðabirgðahúsgögn sem voru fengin að láni í Ólafsfirði.

Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir hóf störf sem aðstoðarskólameistari 1. júní 2010 og Gísli Kristinsson, umsjónarmaður húseigna skólans, hóf störf þegar liðið var á júlí. Aðrir starfsmenn hófu störf 1. ágúst. Gengið hafði verið frá ráðningum starfsfólks um vorið og haldinn fundur með því. Lára skólameistari segir að ýmsir hafi spáð því að illa myndi ganga að ráða gott fagfólk að skólanum en annað hafi komið á daginn:

Við fengum mjög góðar umsóknir og því var engum vandkvæðum bundið að ráða gott fólk að skólanum. Heimafólk með réttindi til kennslu í framhaldsskóla hafði lengi beðið eftir skólanum og einnig fluttu kennarar úr öðrum byggðarlögum til þess að starfa við hann. Ekki var lokið við að ráða kennara fyrir allar námsgreinar fyrr en árið 2011, fyrir annað skólaárið. Frá 2011 hafa orðið litlar breytingar á starfsliði skólans.

Ég minnist þess að áður en skólinn hóf starfsemi heyrði ég efasemdaraddir í Fjallabyggð um að þessi nýi framhaldsskóli  myndi geta boðið upp á fullt nám til stúdentspróf, sumir höfðu þá hugmynd um skólann að nemendur myndu taka fyrsta árið eða fyrstu tvö árin í skólanum og stúdentsprófinu myndu þeir síðan ljúka í einhverjum öðrum framhaldsskóla. Ein af ástæðunum fyrir því að ég lagði áherslu á menntaskólaheitið var einmitt þessi vantrú á að skólinn væri alvöru framhaldsskóli þar sem nemendur gætu lokið námi sínu.

Einhvern tímann vorum við Bergþór Morthens listgreinakennari að velta vöngum yfir því hvað væri hægt að gera til þess að styrkja ímynd skólans sem öflugs framhaldsskóla. Fyrir utan Skiltagerð Norðurlands í Ólafsfirði sáum við tígrisdýrastyttur. Við fengum þá skyndihugmynd að fá tígrisdýrin að láni til þess að setja fyrir utan skólann þannig að fólk fengi þá tilfinningu að hann væri alvöru hefðarsetur. Við sömdum við Tómas Einarsson í Skiltagerðinni um að fá tígrisdýrastytturnar lánaðar í nokkra mánuði til þess að hafa við inngang skólans.

Fljótlega urðu tígrisdýrin fólki svo hjartfólgin og höfðu svo sterk tengsl við skólann að það endaði með því að hann keypti þau af Tómasi og þau standa enn við aðalinngang skólans. Eitthvað sem átti að vera fyrst og fremst skemmtilegt varð smám saman órjúfanlegur hluti af skólanum.

Nemendur og kennarar skólans bjuggu bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði. Héðinsfjarðargöngin voru ekki tilbúin þegar skólastarfið hófst 23. ágúst 2010 og því vandaðist málið að komast til og frá skóla. Eina augljósa leiðin var að aka 62 seinfarna kílómetra um Lágheiði og Fljót á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Lára skólameistari ræddi við Háfell, verktaka við Héðinsfjarðargöngin, og úr varð að vöktum gangamanna var hliðrað til þess að liðka fyrir því að nemendur og starfsmenn bæði Grunnskóla Fjallabyggðar og MTR gætu ekið göngin á milli bæjanna að morgni dags. Oftast tókst að koma þessu heim og saman á morgnana en síðdegis, eftir að skólastarfi lauk, var ekki unnt að opna göngin og þá var ekki um annað að ræða en að aka Lágheiðina. Á þessum tíma sóttu grunnskólanemendur 7.-10. bekkjar í Ólafsfirði skóla á Siglufirði.

Háfellsmenn kepptust við að ljúka Héðinsfjarðargöngum og þau voru loks opnuð 2. október 2010. Eftir það var Lágheiðaraksturinn, sem hafði gengið vonum framar, úr sögunni. Í einni ferðinni um Lágheiði ákvað Bergþór Morthens, listgreinakennari, sem bjó á Siglufirði og fór því daglega á milli, að nýta hristinginn í rútunni á heiðinni til listsköpunar. Hann lét blýant fylgja torfærunum á mörgum blöðum á leiðinni og útkoman var nokkuð skemmtileg abstrakt tímaskráning leiðarinnar um Lágheiði milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, nokkurs konar táknrænn svanasöngur Lágheiðar sem þjóðvegar.

Frá fyrsta degi hefur Menntaskólinn á Tröllaskaga lagt áherslu á dreifnám og upplýsingatækni - að nemendur læri jöfnum höndum á veraldarvefnum og í staðbundnu námi. Á fyrstu tíu árum í sögu skólans hefur nemendum fjölgað ár frá ári og mikill meirihluti þeirra er í dreifnámi, búsettur bæði hér á landi og í útlöndum. Sumir taka nokkra áfanga í námi við MTR en aðrir nemendur eru í fullu námi til stúdentsprófs.

Lára Stefánsdóttir skólameistari segir að bjartsýni og samheldni hafi einkennt hóp nemenda og kennara sem ýtti skólastarfinu úr vör haustið 2010:

Við vorum í senn vongóð og ánægð með það sem við vorum að gera og settum upp áætlun sem gekk upp í stórum dráttum. Það sem einkenndi starf okkar frá upphafi var hinn einbeitti áhugi starfsmanna á að vel tækist til og jafnframt höfðum við ómælda trú á því verkefni sem okkur var falið. Vissulega heyrðust efasemdaraddir utan skólans en þær hljóðnuðu smám saman.

Stöðug fjölgun nemenda

Á haustönn 2010 voru 73 nemendur skráðir til náms í MTR og hófst kennsla sem fyrr segir 23. ágúst. Gabríel Reynisson, var brautskráður frá MTR 18. desember í Ólafsfjarðarkirkju og varð hann þar með fyrsti nemandinn sem skólinn brautskráði.

Gabríel er fæddur og uppalinn á Siglufirði. Að loknum grunnskóla var hann eina önn í Framhaldsskólanum á Laugum í Reykjadal og síðan tvö ár í Menntaskólanum á Akureyri. Veturinn 2009-2010 stundaði Gabríel fjarnám í námsveri VMA á Siglufirði og lauk síðan því sem upp á vantaði til stúdentsprófs á fyrstu önninni í MTR. Eftir stúdentspróf tók við sjómennska og ferðalög um fjarlæg lönd en árið 2015 lá leiðin í frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík og í framhaldinu í lyfjafræði í Háskóla Íslands. Gabríel fann sig ekki í því námi en ákvað þá að breyta alveg um stefnu og fór í húsasmíðanám í Tækniskóla Íslands. Vorið 2018 flutti hann norður í heimahagana á Siglufirði og hélt áfram í húsasmíðinni í lotunámi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Því lauk hann með sveinsprófi árið 2020 og hóf störf sem húsasmiður á Siglufirði.

Á vorönn 2011 hófst kennsla í MTR 4. janúar og voru 79 nemendur skráðir í skólann, 43 konur og 36 karlar. Kynjahlutfallið var síðan nánast jafnt á haustönn 2011, við upphaf annars skólaársins, þegar 91 nemandi var skráður í skólann. Kennsla hófst 22. ágúst.

Tveir nemendur útskrifuðust í maí 2011 í Ólafsfjarðarkirkju og í desember 2011 var einn nemandi útskrifaður í húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga.

Í ársskýrslu MTR fyrir 2011, fyrsta heila starfsárið, er dregin fram sérstaða skólans:

  1. Allir nemendur skólans eru með eigin fartölvur sem tengdar eru neti skólans.
  2. Skólinn notar opinn hugbúnað í starfi sínu.
  3. Haldið er utan um allt námsefni og kennslu í kennslukerfinu Moodle.
  4. Í skólanum er viðhaft símat og því engir formlegir prófadagar.
  5. Námið er skipulagt í vikulöngum lotum og fá nemendur reglulega endurgjöf á verkefni sín og frammistöðu.
  6. Miðannarvika, skólastarfið er brotið upp eina viku um miðja önn og þá kenndir aðrir stuttir áfangar en nemendur eru í þá önnina.
  7. Nýsköpunaráfangi, Tröllaskagi.
  8. Allir nemendur taka einn áfanga í listum.

Á vorönn 2012 hófst kennsla 4. janúar og voru 105 nemendur skráðir. Af þeim luku 96 önninni. Tæplega níutíu prósent nemenda sem hófu nám á vorönn komu úr Fjallabyggð.
Tólf nemendur brautskráðust í Ólafsfjarðarkirkju í maí 2012.

Mikil fjölgun nemenda varð á haustönn 2012, þá voru 170 nemendur skráðir til náms við skólann. Þar af voru 129 í dagskóla en 41 í fjarnámi. Á önninni var í fyrsta skipti boðið upp á fjarnám við MTR.
Sex nemendur brautskráðust í Ólafsfjarðarkirkju í desember 2012.

Á vorönn 2013 hófu 173 nemendur nám við skólann á níu námsbrautum. Þar af voru 130 í dagskóla og 43 í fjarnámi. Rösklega 70% nemenda komu úr Fjallabyggð, 10% úr Dalvíkurbyggð og 17% nemenda frá öðrum stöðum á landinu. Á haustönn 2013 voru 179 nemendur skráðir í skólann. Morgunblaðið sótti skólann heim í september 2013 og birti þessa grein
Tólf stúdentar brautskráðust í Ólafsfjarðarkirkju í maí 2013 og átta í desember 2013, einnig í Ólafsfjarðarkirkju.

Á vorönn 2014 var í fyrsta skipti frá stofnun skólans eilítil fækkun nemenda, þá hófu 168 nemendur nám, þar af 125 í dagskóla og 43 í fjarnámi. Fjarnámsnemendum fjölgaði síðan umtalsvert á haustönn 2014, þá voru þeir 83, nemendur í dagskóla 130 og heildarfjöldinn því 213. Í fyrsta skipti í sögu skólans fór nemendafjöldinn yfir 200. Í nóvember 2014 heimsótti blaðamaður fréttamaður Vísis.is skólann og sagði í máli og myndum frá útivistaráfanga MTR.
Tuttugu og fimm nemendur brautskráðust frá skólanum árið 2014, sautján í maí og átta í desember. Báðar brautskráningar voru í Ólafsfjarðarkirkju.

Á vorönn 2015 fjölgaði nemendum áfram, þá hófu 227 nemendur nám. Á haustönninni voru þeir 230. Nemendum fækkaði hlutfallslega í dagskóla og að sama skapi fjölgaði fjarnemendum umtalsvert. Jafnframt fækkaði hlutfallslega nemendum skólans úr Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð og fór hlutfall þeirra á haustönn 2015 í fyrsta skipti undir 50%.
Á árinu 2015 voru 42 nemendur brautskráðir frá skólanum, í maí var 31 nemandi útskrifaður í Tjarnarborg og 11 í Ólafsfjarðarkirkju í desember.

Á árinu 2016 fækkaði áfram dagskólanemendum en fjarnemendum fjölgaði að sama skapi. Við upphaf vorannar 2016 voru 234 nemendur skráðir til náms en 268 á haustönn. Athygli vekur að þetta skólaár var um þriðjungur nemenda úr Fjallabyggð, á bilinu 7-17% úr Dalvíkurbyggð en yfir 60% úr öðrum byggðarlögum. Þetta rímar við mikla fjölgun fjarnema.
Þrjátíu og þrír nemendur útskrifuðust á skólaárinu, sautján í maí og sextán í desember. Báðar brautskráningar voru í Ólafsfjarðarkirkju.

Á vorönn 2017 fór fjöldi nemenda í fyrsta skipti yfir 300. Þá voru 354 nemendur skráðir til náms og 367 á haustönn. Fjarnemum hélt áfram að fjölga og voru um tvöfalt fleiri en nemendur í dagskóla. Á haustönn 2017 voru 30% nemenda úr Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð en 70% nemenda komu annars staðar frá. Tæplega þriðjungur nemenda þetta skólaár var eldri en 26 ára.
Þrjátíu og fimm nemendur brautskráðust frá skólanum, sautján í Ólafsfjarðarkirku í maí og átján í desember í Hrafnavogum. Þetta var fyrsta brautskráning MTR í nýjum salarkynnum skólans og þær hafa verið þar síðan.

Á vorönn 2018 hóf 361 nemandi nám við MTR, þar af 114 í dagskóla og 247 í fjarnámi. Á haustönn hófu 337 nemendur nám.
Brautskráningarhópurinn var sá stærsti frá upphafi eða sextíu og sex, 45 í maí og 21 í desember.

Í byrjun vorannar 2019 voru 362 nemendur en 346 við upphaf haustannar. Athyglisvert er að á haustönn voru samtals 20% nemenda úr Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð en 80% nemenda komu annars staðar frá. Það segir sína sögu um aukið vægi fjarnáms að á haustönn 2019 voru 73% nemenda skólans í fjarnámi.
Fjörutíu nemendur útskrifuðust frá skólanum árið 2019, 34 í maí og 12 í desember.

Við upphaf vorannar 2020 voru 388 nemendur við skólann, þar af 312 í fjarnámi. Á vorönninni voru 172 nemendur á félags- og hugvísindabraut, 63 á náttúruvísindabraut, 44 á listabraut og 35 á íþróttabraut. Þrjátíu og tveir nemendur brautskráðust frá MTR á vorönn 2020.

Á haustönn 2020 hófu 285 nýir nemendur nám við MTR, þar af 16 beint úr grunnskóla. Tuttugu og sjö nemendur brautskráðust frá skólanum í desember 2020.

Samanlagt, frá haustönn 2010 til og með haustönn 2020, hafa 348 nemendur útskrifast frá skólanum. 

Alt texti
Merki Fjarmenntaskólans.

MTR og Fjarmenntaskólinn

Á vordögum árið 2013 tóku sjö framhaldsskólar utan höfuðborgarsvæðisins upp samstarf um fjarnám, með áherslu á starfsnám, undir heitinu Fjarmenntaskólinn. Auk Menntaskólans á Tröllaskaga tóku þátt í samstarfinu Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Framhaldsskólinn á Húsavík, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskóli Austurlands og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu.

Síðar bættust fimm skólar við; Menntaskólinn á Ísafirði, Menntaskólinn á Laugarvatni, Menntaskóli Borgarfjarðar, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Framhaldsskólinn á Laugum.

Frá upphafi hefur markmið með samstarfi skólanna verið að auka framboð náms á framhaldsskólastigi á starfssvæði skólanna og landinu öllu. Fyrst og fremst hefur verið horft til þess að auka framboð á sérgreinum starfsnámsbrauta en einnig býður hver skóli upp á fjarnám í almennum bóklegum greinum.

Fjarmenntaskólinn hefur verið þessum skólum á landsbyggðinni mikilvægur vettvangur til þess að stilla saman strengi, ræða reglulega málefni fámennari framhaldsskóla á landsbyggðinni og auka framboð á fjölbreyttu námi.

Í þessu samstarfi hefur Menntaskólinn á Tröllaskaga m.a. boðið upp á listljósmyndun og myndlist.

Dæmi eru um samstarf skóla um námsbrautir, til dæmis hafa Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Verkmenntaskóli Austurlands samstarf um nám á fiskeldisbraut og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Menntaskólinn á Ísafirði og Verkmenntaskóli Austurlands vinna saman að námi á sjúkraliðabraut.

Hugmyndir um sameiningu framhaldsskóla á Norðausturlandi

Á vordögum 2015 viðraði Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, hugmyndir um mögulega sameiningu framhaldsskóla á Norðausturlandi; annars vegar Menntaskólans á Tröllaskaga, Menntaskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Húsavík og hins vegar Framhaldsskólans á Laugum og Verkmenntaskólans á Akureyri. Strax var mikil andstaða við þessar sameiningarhugmyndir í Fjallabyggð og í fleiri byggðarlögum á Norðurlandi. Afstaða fólks á Siglufirði og í Ólafsfirði endurspeglast í ályktun sjálfstæðisfélaganna í Fjallabyggð 19. maí 2015 þar sem þessum hugmyndum var mótmælt og harmaður skortur á samráði um þær við heimamenn:

MTR hefur frá stofnun skólans aukið lífsgæði íbúa sveitarfélagsins og verið það fjöregg sem sveitarfélagið vill hlúa að og standa vörð um. Skólinn starfar eftir nýrri námskrá og útskrifar nemendur á þremur árum. Af ört vaxandi hópi nemenda má sjá að skólinn stendur undir öllum væntingum hvað varðar sérstöðu, gæði náms, fjölbreytni og þarfir nemenda. Starfsbraut skólans hefur t.a.m. sýnt og sannað að skólinn kemur til móts við alla nemendur.  Fyrirhugaðar breytingar ráðuneytisins á rekstrarumhverfi skólans eru til þess fallnar að ógna starfsemi skólans, lækka menntunarstig í sveitarfélaginu og ýta undir fólksfækkun. Sjálfstæðisfélögin skora á ráðherra að skoða nánar aðrar leiðir til að ná markmiði um nauðsynlegar úrbætur á framhaldsskólastigi t.a.m. aukið samstarf milli framhaldsskóla á svæðinu.

Málið var skoðað frá ýmsum hliðum og skipaði mennta- og menningarmálaráðuneytið starfshóp sem Þórunn Jóna Hauksdóttir stýrði. Í starfshópnum voru m.a. skólameistarar skólanna og verkefnastjóri var Svanfríður Jónsdóttir. Í skipunarbréfi kom fram að starfshópnum væri ætlað að skoða grunnþætti í starfsemi skólanna og leggja fram sameiginlega tillögu að framtíð framhaldsskólastarfs á svæðinu. Markmiðið væri að nemendur á svæðinu hafi jafnan og greiðan aðgang að lögbundnu og fjölbreyttu námsframboði, að stoðþjónusta skólanna væri fullburða og reksturinn sjálfbær.

Fljótlega eftir að starfshópurinn hóf störf var ljóst að ekki kæmi til sameiningar skólanna og það var staðfest í áliti sem starfshópurinn skilaði ráðherra í janúar 2016. Þar var hins vegar lögð til aukin samvinna skólanna. Í frétt á Vísi 3. febrúar fagnar Lára Stefánsdóttir skólameistari MTR tillögum starfshópsins: 

Mér líst vel á þessar hugmyndir og það verður spennandi að fást við þetta verkefni. Samvinnuleiðin er farsælli, þá fer orka í að efla nám fyrir nemendur, auka valmöguleika og styrkja faglega innviði í stað þess að orkan fari í stjórnsýslubreytingar.

Foreldraráð og Nemendafélagið Trölli

Foreldraráð Menntaskólans á Tröllaskaga var stofnað 19. janúar 2011 og sátu í fyrstu stjórn þess Sigríður Karlsdóttir, Sóley Reynisdóttir, Kristín Bogadóttir, Björg Traustadóttir og Guðný Róbertsdóttir.

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skal starfa foreldraráð við þá og er hlutverk þess að styðja við skólastarfið og efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólana. Í foreldraráði skólans skólaárið 2019-2020 voru Anna Hulda Júlíusdóttir, Birgitta Sigurðardóttir, Heimir Birgisson, Kristján Sturlaugsson og Ólöf Ásta Salmannsdóttir.

Alt texti
Nemendafélagið Trölli hefur starfað við Menntaskólann á Tröllaskaga frá upphafi.

Nemendafélagið Trölli var stofnað haustið 2010 og er hlutverk þess að halda utan um félagslífið í skólanum.

Stjórnir Trölla 2010-2020

2010-2011
Birgitta Þorsteinsdóttir formaður
Hafey Björg Pétursdóttir
Kristlaug Inga Sigurpálsdóttir
Sigrún Sigmundsdóttir
Sunna Björg Valsdóttir

2011-2012
Linda Ósk Birgisdóttir formaður
Atli Tómasson varaformaður

2012-2013
Guðni Brynjólfur Ásgeirsson formaður / Lilja Björk Jónsdóttir formaður
Atli Tómasson varaformaður
Lilja Björk Jónsdóttir gjaldkeri
Kristófer Leví Skjóldal meðstjórnandi
Jóhanna Kristín Jóhannsdóttir meðstjórnandi
Helga Guðrún Sigurgeirsdóttir meðstjórnandi

2013-2014
Arndís Lilja Jónsdóttir formaður
Þórhildur Sölvadóttir varaformaður

2014-2015
Elsa Hrönn Auðunsdóttir formaður 
Ívan Darri Jónsson varaformaður
Snjólaug Anna Traustadóttir ritari
Erla Vilhjálmsdóttir meðstjórnandi / Katrín Helga Karlsdóttir 
Hulda Vilhjálmsdóttir meðstjórnandi

2015-2016
Haukur Orri Kristjánsson formaður
Snjólaug Anna Traustadóttir ritari
Óskar Helgi Ingvason meðstjórnandi

2016-2017
Rebekka Ellen Daðadóttir formaður
Marín Líf Gautadóttir varaformaður
Viktor Freyr Heiðarsson gjaldkeri 
Ólöf Rún Ólafsdóttir ritari
Viktor Snær Þórisson meðstjórnandi

2017-2018
Haukur Orri Kristjánsson formaður
Dagný Ásgeirsdóttir varaformaður
Karen Ásta Guðmundsdóttir gjaldkeri
Kara Mist Harðardóttir meðstjórnandi
Sólveig Lilja Brinks Fróðadóttir ritari

2018-2019
Jón Pétur Erlingsson formaður
Skarphéðinn Sigurðsson varaformaður
Dagný Lára Heiðarsdóttir meðstjórnandi
Ingigerður Lilja Jónsdóttir meðstjórnandi
Ingibjörg Einarsdóttir meðstjórnandi
Sóley Lilja Magnúsdóttir meðstjórnandi

2019-2020
Jón Pétur Erlingsson formaður
Ásdís Ósk Gísladóttir varaformaður/ritari
Dagný Lára Heiðarsdóttir
Sólveig Lilja Brinks Fróðadóttir / Einar Örn Arason
Gabríela Rós Gunnlaugsdóttir
Hörður Ingi Kristjánsson

 

Farsæll rekstur og starfsánægja

Frá upphafi hefur rekstur skólans gengið vel og starfsmannavelta verið lítil. Árin 2015, 2016, 2017 og 2019 var hann efstur í útnefningu stofnunar ársins í flokki meðalstórra ríkisstofnana, þar sem starfsmenn eru 20-49, og í öðru sæti árin 2014 og 2018. Val á stofnun ársins byggir á mati starfsmanna og er m.a. horft til starfsanda, trúverðugleika stjórnenda, launakjara, sjálfstæðis í starfi, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu og ímynd stofnunarinnar. 

Alt texti
Lára og Jóna Vilhelmína stoltar og ánægðar með viðurkenningu MTR sem stofnunar ársins árið 2015.

Sem fyrr segir hefur Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir verið aðstoðarskólameistari MTR frá upphafi. Þar áður kenndi hún til fjölda ára í Ólafsfirði og tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum. Hún þekkir því vel þann jarðveg sem MTR spratt upp úr og aðdragandann að stofnun skólans. Fyrstu árin var Jóna Vilhelmína íslenskukennari við MTR auk starfs aðstoðarskólameistara en hefur hin síðari ár gegnt starfi aðstoðarskólameistara í fullu starfi:

Þegar við hófum skólastarfið í MTR haustið 2010 hafði ég mikla trú á því að það myndi ganga vel. En ég sá ekki endilega fyrir að tíu árum síðar yrði skólinn eins og hann er í dag, með mikinn meirihluta nemenda í fjarnámi. Við Lára skólameistari vorum þó strax sammála um mikilvægi fjarnáms fyrir skólann því til framtíðar yrðu ekki nógu margir staðnemar til þess að geta boðið upp á nægilegt námsframboð. Lára hafði lengi horft til fjarnáms og hafði kynnt sér ýmislegt í þeim efnum og ég hef alltaf verið opin fyrir tækninýjungum í skólastarfi. Þeim hafði ég m.a. kynnst þegar ég starfaði við Gagnfræðaskólann í Ólafsfirði. Þar fór Þórir Jónsson kennari, sem var í hópi þeirra fyrstu til þess að nota Íslenska menntanetið, að nýta sér tölvutæknina í skólastarfinu og kenndi nemendum á tölvur. Ég smitaðist af þessum tölvuáhuga Þóris þegar ég hóf störf við Gagnfræðaskólann árið 1991og fór að nýta mér þessa tækni og sá í auknum mæli möguleikana sem hún bauð upp á í kennslu. 

Í ljósi þess að við töldum fjarkennsluna mikilvægan þátt í skólastarfi MTR lögðum við strax áherslu á hana og frá fyrsta degi gekk vel að fá starfsfólk til þess að tileinka sér þessa hugmyndafræði og tækni. Það skipti öllu máli.

Við ákváðum að nýta okkur kennslukerfið Moodle sem ramma utan um námið og þannig hefur það verið frá byrjun. Settar voru upp vikulotur sem hafa gefist vel og þetta fyrirkomulag hefur ekki tekið stórum breytingum frá 2010. Í byrjun var mikil vinna að móta áfangana og við hófum skólastarfið í nýju þriggja ára kerfi. Við höfðum ekki margar fyrirmyndir til þess að vinna eftir og útfæra námið í Moodle kerfinu – setja námsefnið þar inn, verkefni o.fl. En það tókst og kennarar og nemendur vinna alfarið í Moodle og það hefur alltaf gengið mjög vel.

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur tvímælalaust verið þessu samfélagi mikilvæg stofnun. Núna eru margir nemendur á framhaldsskólaaldri í heimabyggð og það skiptir verulegu máli. Það hefur líka komið í ljós að margir þeirra staðnema sem stunda nám við skólann búa áfram hér eftir að hafa lokið námi við MTR og stunda fjarnám við aðrar menntastofnanir – t.d.  Háskólann á Akureyri eða skóla á höfuðborgarsvæðinu. Þessir staðnemar hafa, rétt eins og fjarnemar við MTR, tileinkað sér nám í Moodle kennslukerfinu og vex því ekki í augum að takast á við háskólanám í fjarnámi. Það má heldur ekki gleyma því að skólinn hefur skapað störf fyrir vel menntað fólk í byggðarlaginu sem skiptir líka miklu máli.

Mér hefur fundist skólastarfið hafa gengið mjög vel þessi fyrstu tíu ár og við getum verið stolt af því sem við höfum verið að gera og hversu sterk staða skólans er í dag. Ég tel að MTR muni áfram þróast á þeirri braut sem hann er, þar sem fjarnám er stór þáttur í skólastarfinu.

Starfsmenn Menntaskólans á Tröllaskaga 2010-2020
Anna María Jónsdóttir, verkefnastjóri 2012-2013
Arnfríður Kjartansdóttir, námsráðgjafi (tímabundið verkefni)
Ásdís Sigurðardóttir, kennari 2012-2013
Bergþór Morthens, kennari 2010– (námsleyfi 2013-2015)
Birgitta Birna Sigurðardóttir, kennari 2013-
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, kennari 2011-2016 (leyfi vegna setu á Alþingi 1.4.2013-31.12.2016)
Bjarki Þór Jónsson, kennari 2014-2015
Björg Traustadóttir, bókavörður/skrifstofa 2010-
Brynjar Kristjánsson, kennari 2013-2014
Edda Rún Aradóttir, stuðningsfulltrúi 2016-2018
Edda Björk Jónsdóttir, þroskaþjálfi 2017 (vorönn)
Gestur Hansson, kennari 2016 (haustönn)
Gísli Kristinsson, umsjónarmaður húseigna og tækja 2010-
Guðmann Sveinsson, kennari 2019-
Guðrún Ingimundardóttir, kennari 2011 (vorönn)
Guðrún Þorvaldsdórtir, iðjuþjálfi 2017-
Guðrún Þórsdóttir, kennari 2015 (haustönn)
Harpa Jörundardóttir, kennari 2010-2011
Heiðdís Björk Gunnarsdóttir, verkefnastjóri 2012 (vorönn)
Helen Svala Meyers, stuðningsfulltrúi 2012-2014
Hjördís Finnbogadóttir, kennari 2011-
Hólmar Hákon Óðinsson, kennari 2014-
Ida Marguerite Semey, kennari 2011-
Inga Eiríksdóttir, fjármálastjóri 2010-
Jeromy J. Thorarensen, kennari 2013 (haustönn)
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari 2010-
Jónas Helgason, kennari 2014 (haustönn)
Jónína Kristjánsdóttir, ritari 2017-
Karolína Baldvinsdóttir, kennari 2017-
Klara Mist Pálsdóttir, stuðningsfulltrúi 2011-2012
Kolbrún Halldórsdóttir, kennari 2020-
Kristín Anna Guðmundsdóttir, þroskaþjálfi 2017-
Lára Stefánsdóttir, skólameistari 2010-
Lísbet Hauksdóttir, kennari 2013-
Magnús Sigurður Guðmundsson, kennari 2013-2015
Magnús Guðmundur Ólafsson, kennari (stundakennsla til skamms tíma)
Margrét Líney Laxdal Bjarnadóttir, kennari 2011-
Margrét Líf Kjartansdóttir, almennur starfsmaður 2019-
Marías Benedikt Kristjánsson, kennari 2016-2018
Óliver Hilmarsson, kennari 2011-2014
Óskar Þórðarson, kennari 2010-
Ragnar Geir Brynjólfsson, kennari 2016-2017
Rodrigo Junqueira Thomas, kennari 2013-2018
Sigríður Ásta Hauksdóttir, námsráðgjafi – 2017-
Sigurður Mar Halldórsson, kennari – 2012-
Svanfríður Inga Jónasdóttir, kennari 2017-2018
Sæbjörg Ágústsdóttir, stuðningsfulltrúi 2014-
Timothy A. Knappett, kennari (stundakennsla til skamms tíma)
Tryggvi Hrólfsson, kennari 2011-
Unnur Erla Hafstað, kennari 2017-
Úlfur Agnarsson, stuðningsfulltrúi 2013-2015
Valgerður Ósk Einarsdóttir, kennari 2010- (námsleyfi 2014-2016)
Vera Sólveig Ólafsdóttir, kennari 2014-2017 (kenndi áfanga á vorönn 2019)
Þórarinn Hannesson, kennari 2013-
Þuríður L. Rósenbergsdóttir, verkefnastjóri (tímabundið verkefni vegna námsráðgjafar)

Útskrifaðir nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga desember 2010 – maí 2020

2010
Gabríel Reynisson, félags- og hugvísindabraut

2011
Bára Dögg Þórisdóttir, félags- og hugvísindabraut
Fannar Örn Hafþórsson, félags- og hugvísindabraut
Helga Kristín Einarsdóttir, íþróttir og útvist

Alt texti
Brautskráningarhópur vorið 2012.

2012
Alexander Magnússon, félags- og hugvísindabraut
Brynja María Brynjarsdóttir, listabraut – myndlist
Egill Örn Benediktsson, náttúruvísindabraut
Gísli Hvanndal Jakobsson, félags- og hugvísindabraut
Greta Kristín Ólafsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Guðni Brynjólfur Ásgeirsson, náttúruvísindabraut
Hafey Björg Pétursdóttir, félags- og hugvísindabraut
Harpa Hrönn Harðardóttir, félags- og hugvísindabraut
Helgi Már Guðmundsson, félags- og hugvísindabraut
Kolbrún Björk Bjarnadóttir, félags- og hugvísindabraut
Kristófer Baldur Jakobsson, félags- og hugvísindabraut
Lilja Rós Aradóttir, félags- og hugvísindabraut
Rakel Anna Knappett, náttúruvísindabraut
Sigurður Þór Gunnarsson, félags- og hugvísindabraut
Sigurður Hrannar Sveinsson, náttúruvísindabraut
Sigurlína Káradóttir, félags- og hugvísindabraut
Sveinn Þór Kjartansson, starfsbraut
Þórdís Arna Jakobsdóttir, félags- og hugvísindabraut

2013
Adda María Ólafsdóttir, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Anna Lena Victorsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Atli Tómasson, listabraut – myndlist
Ástþór Árnason, listabraut – myndlist
Birgir Egilsson, félags- og hugvísindabraut
Brynja Sigurðardóttir, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Eva Dögg Sigurðardóttir, náttúruvísindabraut
Eva Rún Þorsteinsdóttir, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Finnur Ingi Sölvason, náttúruvísindabraut
Guðbjörg Ýr Víðisdóttir, félags- og hugvísindabraut
Guðrún Ósk Gestsdóttir, íþróttir og útvist – íþróttasvið
Halldór Ingvar Guðmundsson, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Harpa Hlín Jónsdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Jóhann Már Sigurbjörnsson, félags- og hugvísindabraut
Kári Ólfjörð Ásgrímsson, félags- og hugvísindabraut
Kristlaug Inga Sigurpálsdóttir, náttúruvísindabraut
Pálmar Hafþórsson, náttúruvísindabraut
Pétur Þormóðsson, félags- og hugvísindabraut
Rebekka Rún Sævarsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Sandra Finnsdóttir, listabraut – myndlist

2014
Aldís Vala Gísladóttir, listabraut – myndlist
Arndís Lilja Jónsdóttir, náttúruvísindabraut
Björn Guðnason, náttúruvísindabraut
Finnur Mar Ragnarsson, félags- og hugvísindabraut
Friðrik Örn Ásgeirsson, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Geirrún Jóhanna Sigurðardóttir, starfsbraut
Guðný Rós Þorsteinsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Halldóra Freyja Pétursdóttir, náttúruvísindabraut
Helga Guðrún Sigurgeirsdóttir, náttúruvísindabraut
Helga Ingibjörg Þorvaldsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Hermann Ingi Jónsson, félags- og hugvísindabraut
Hrafn Örlygsson, náttúruvísindabraut
Hugrún Pála Birnisdóttir, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Ingibjörg Ellen Davíðsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Kristín Gunnþóra Oddsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Kristófer Þór Jóhannsson, íþróttir og útvist – íþróttasvið
Magnús Andrésson, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Sindri Þór Jónsson, félags- og hugvísindabraut
Sindri Valþórsson, félags- og hugvísindabraut
Soffía Adda A. Guðmundsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Sæþór Ólafsson, félags- og hugvísindabraut
Torfi Sigurðarson, náttúruvísindabraut
Tómas Atli Einarsson, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Una Matthildur Eggertsdóttir, íþróttir og útivist - íþróttasvið
Þórhildur Sölvadóttir, náttúruvísindabraut

Alt texti
Vorið 2015 brautskráðist 31 nemandi frá MTR. Þetta var stærsta brautskráningin í fimm ára sögu skólans og hún fór fram í Tjarnarborg.2015

2015

Alexía María Gestsdóttir, náttúruvísindabraut
Anna Lára Ólafsdóttir, listabraut – myndlist
Aníta Róbertsdóttir, félags- og hugvísindadeild
Aníta Sara Sigurðardóttir, félags- og hugvísindadeild
Arna Rós Bragadóttir, náttúruvísindabraut
Aron Óli Árnason, listabraut – myndlist
Birgitta Þorsteinsdóttir, listabraut – ljósmyndun
Brynja Sól Guðmundsdóttir, náttúruvísindabraut
Dana Rún Magnúsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Daníela Jóhannsdóttir, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Elfa Sif Kristjánsdóttir, félags- og hugvísindadeild
Elín María Jónsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Elva Hrund Árnadóttir, félags- og hugvísindadeild
Erla Vilhjálmsdóttir, félags- og hugvísindadeild
Grétar Áki Bergsson, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Guðrún Elísabet Guðmundsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Guðrún Stefanía Jakobsdóttir, íþróttir og útivist – íþróttasvið
Hákon Leó Hilmarsson, íþróttir og útivist, íþróttasvið
Heiðar Karl Rögnvaldsson, starfsbraut
Heimir Ingi Grétarsson, félags- og hugvísindadeild
Helga Eir Sigurðardóttir, félags- og hugvísindadeild
Hrönn Helgadóttir, listabraut – ljósmyndun
Hulda Vilhjálmsdóttir, náttúruvísindabraut
Ívar Örn Guðmundsson, félags- og hugvísindadeild
Jóhanna Kristín Jóhannsdóttir, félags- og hugvísindadeild
Kara Gautadóttir, náttúruvísindabraut
Karen Ósk Jónsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Katrín Elva Ásgeirsdóttir, starfsbraut
Kolbrún Helga Gunnlaugsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Kristín Ágústa Eiðsdóttir, félags- og hugvísindadeild
Kristófer Andri Ólafsson, náttúruvísindabraut
Ólafía Þóra Tómasdóttir, íþrótta- og útvistarbraut – útivistarsvið
Rafn Haraldur Ingimarsson, starfsbraut
Sif Þórisdóttir, náttúruvísindabraut
Sigurjón Sigtryggsson, starfsbraut
Sigþór Andri Gunnlaugsson, félags- og hugvísindadeild
Súsanna Svansdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Trausti Karl Rögnvaldsson, starfsbraut
Vilhjálmur Reykjalín Þrastarson, kjörnámsbraut
Þórdís Rögnvaldsdóttir, félags- og hugvísindadeild
Ægir Örn Arnarson, náttúruvísindabraut
Örn Elí Gunnlaugsson, íþróttir og útivist – íþróttasvið

2016
Aðalsteinn Ragnarsson, félags- og hugvísindabraut
Andri Mar Flosason starfsbraut
Arnar Már Sigurðsson, náttúruvísindabraut
Baldur Bragi Baldursson, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Bertha Þ. Steingrímsdóttir, náttúruvísindabraut
Bryndís Erla Róbertsdóttir, listabraut - myndlist
Dóra Sif Jörgensdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Gunnar Óli Ármannsson, náttúruvísindabraut
Hallgrímur Sambhu Stefánsson, starfsbraut
Helga Liv Gísladóttir, félags- og hugvísindabraut
Hildur Guðmundsdóttir, náttúruvísindabraut
Jóhann Örn Guðbrandsson, félags- og hugvísindabraut
Jón Fannar Björnsson, náttúruvísindabraut
Jódís Jana Helgadóttir, félags- og hugvísindabraut
Kristján Valur Sigurgeirsson, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Kormákur Ægisson, náttúruvísindabraut
Kristinn Már Þrastarson, náttúruvísindabraut
Patrekur Þórarinsson, náttúruvísindabraut og íþrótta- og útivistarbraut - útivistarsvið
Rebekka Dagmar Elísarbetardóttir, félags- og hugvísindabraut
Rúnar Gunnarsson, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Róslaug Anna Gunnlaugsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Salína Valgeirsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Sigurþór Ingi Sigurþórsson, náttúruvísindabraut
Silfá Sól Sigrúnardóttir, félags- og hugvísindabraut
Sindri Ólafsson, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Snjólaug Anna Traustadóttir, náttúruvísindabraut
Sonja Kristín Guðmundsdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Sólrún Anna Óskarsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Sölvi Sölvason, náttúruvísindabraut
Tinna Óðinsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Vaka Rún Þórisdóttir, náttúruvísindabraut
Þórdís Sigrún Gunnarsdóttir, félags- og hugvísindabraut 

Alt texti
Fyrsta útskriftin í Hrafnavogum, sal MTR, var 16. desember 2017 þegar átján stúdentar voru brautskráðir frá skólanum.

2017
Alda Hrönn Magnúsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Alexandra S. Sumarliðadóttir, félags- og hugvísindabraut
Anna Kristín Semey Bjarnadóttir, listabraut – myndlist
Ásta Ragnheiður Thorarensen, félags- og hugvísindabraut
Ástrún Kolbeinsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Birna Björk Hölludóttir, félags- og hugvísindabraut
Brynja Sif Sigurjónsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Dagný Hrönn Ásgeirsdóttir, náttúruvísindabraut
Daníel Andri Halldórsson, félags- og hugvísindabraut
Erla Marý Sigurpálsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Guðlaug Þórdís Guðjónsdóttir, náttúruvísindabraut
Guðni Brynjar Guðnason, félags- og hugvísindabraut
Hafrún Eva Kristjánsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Hafþór Eggertsson, listabraut – myndlist
Haraldur Kristján Harðarson, starfsbraut
Hreinn Sverrisson, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Jón Áki Friðþjófsson, náttúruvísindabraut
Júlíana Björk Gunnarsdóttir, náttúruvísindabraut
Katla Rún Árskóg, félags- og hugvísindabraut
Katla Borghildur Ólafsdóttir Kroyer, félags- og hugvísindabraut
Katrín Ósk Reykjalín Vilhjálmsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Linda María Sveinsdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Malín Mist Jónsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Margrét Bylgja Elínardóttir, náttúruvísindabraut
Markús Rómeó Björnsson, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Mikael Már Unnarsson, starfsbraut
Ólöf María Einarsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Ólöf Rún Ólafsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Rakel Ýr Björnsdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Rebekka Ellen Daðadóttir, félags- og hugvísindabraut
Sara Lind Þorsteinsdóttir, listabraut – tónlist
Silja Ýr Gunnarsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Sunna Sigríður Sigurðardóttir, félags- og hugvísindabraut
Tania Mihaela Muresan, félags- og hugvísindabraut
Þorbjörg Eva Geirsdóttir, kjörnámsbraut

2018
Agnieszka Mozejko, fisktækni
Alda Hólm Jóhannsdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Andrzej Mozejko, fisktækni
Aníta Guðbrandsdóttir, fisktækni
Anna Danuta Jablonska, fisktækni
Arnar Friðriksson, listabraut – myndlist
Arnar Valur Kristinsson, fisktækni
Arthur Már Eggertsson, fisktækni
Árni Konráð Árnason, kjörnámsbraut
Ásgeir Guðjónsson, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Birna Mjöll Helgudóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Birnir Mikael Birnisson, íþrótta- og útvistarbraut – íþróttasvið
Birta Ósk Friðbertsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Bjarni Viktor Benediktsson, félags- og hugvísindabraut
Eduard Constantin Bors, íþrótta- og útvistarbraut – íþróttasvið
Einar Björn Ólafsson, náttúruvísindabraut
Elsa María Vignisdóttir, félags- og hugvísindabraut
Embla Rut Haraldsdóttir, kjörnámsbraut
Enza Marey Massaro, félags- og hugvísindabraut
Eva Dögg Helgadóttir, listabraut – ljósmyndun
Eva Noomi Dungal, stúdentsbraut- starfsnám
Garðar Þór Pétursson, náttúruvísindabraut
Guðborg Björk Sigtryggsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Guðbrandur Elí Skarphéðinsson, náttúruvísindabraut
Guðrún Ósk Sigurðardóttir, fisktækni
Gunnar Eiríksson, fisktækni
Gunndís Eva Baldursdóttir, listabraut – myndlist
Harpa Birgisdóttir, félags- og hugvísindabraut
Helga Dís Magnúsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Hrafnhildur Lára Ingvarsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Haukur Einarsson, stúdentsbraut – starfsnám
Haukur Orri Kristjánsson, félags- og hugvísindabraut
Hjörleifur Einarsson, íþrótta- og útvistarbraut – íþróttasvið
Hólmfríður Sigurðardóttir, fisktækni
Ingigerður Lilja Jónsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Jóel Heimisson, náttúruvísindabraut
Jóhanna Sólveig Hallgrímsdóttir, fisktækni
Karen Ásta Guðmundsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Katrín Dögun Þorsteinsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Katrína Kruzmane, fisktækni
Konný Ósk Bjarnadóttir, félags- og hugvísindabraut
Kristín M. Dagmannsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Lára Norðfjörð Guðmundsdóttir, félags- og hugvísindabraut
María Rakel Pétursdóttir, fisktækni
Marín Líf Gautadóttir, listabraut – myndlist
Olga Kuznecova, fisktækni
Ólína Ýr Jóakimsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Pétur Geir Gíslason, starfsbraut
Rebekka Ýr Sigurþórsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Ritthichai Khamsa-Ing, fisktækni
Ronnachai Khamsa-Ing, fisktækni
Rúnar Smári Ásgeirsson, starfsbraut
Rögnvaldur Ingvason, fisktækni
Saga Karen Björnsdóttir, fisktækni
Sara Ósk Duffield, félags- og hugvísindabraut
Sigríður Þórunn Jósepsdóttir, fisktækni
Sigurjón Daði Valdimarsson, íþrótta- og útvistarbraut – íþróttasvið
Silvia Morais Delgado, fisktækni
Sóley Lilja Magnúsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Stefanía Veiga Sigurjónsdóttir Finnsson, félags- og hugvísindabraut
Stefán Haukur Árnason, starfsbraut
Súsanna Sigurðardóttir, fisktækni
Valur Reykjalín Þrastarson, íþrótta- og útvistarbraut – íþróttasvið
Vitor Vieira Thomas, íþrótta- og útvistarbraut – íþróttasvið
Þorgeir Örn Sigurbjörnsson, náttúruvísindabraut
Þuríður Guðjónsdóttir, félags- og hugvísindabraut

2019
Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Arnar Máni Iansson Gray, félags- og hugvísindabraut
Aron Ágústsson, náttúruvísindabraut
Arnór Orri Einarsson, félags- og hugvísindabraut
Auður Linda Sonjudóttir, stúdentsbraut – starfsnám
Aþena Marey Jónsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Ágúst Örn Jónsson, stúdentsbraut – starfsnám
Ásta Kristín Óskarsdóttir, náttúruvísindabraut
Berglind Soffía Jónsdóttir, stúdentsbraut – starfsnám
Bergljót Sunna Elíasdóttir, félags- og hugvísindabraut
Birta Kristrún Berg Vilhjálmsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Bjarki Snær Ragnarsson, félags- og hugvísindabraut
Brynja Ragnarsdóttir, viðbótarnám til stúdentsprófs af starfsnámsbrautum
Brynjar Bjarkason, kjörnámsbraut
Brynjar Þór Ólafsson, stúdentsbraut – starfsnám
Dagný Ásgeirsdóttir, náttúruvísindabraut
Einar Baldvin Baldvinsson, félags- og hugvísindabraut
Elísa Björnsdóttir, stúdentsbraut – starfsnám
Ellen Sif Skúladóttir, stúdentsbraut – starfsnám
Eydís Benediktsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Eydís Ólafsdóttir, náttúruvísindabraut
Fannar Ingi Ingvarsson, náttúruvísindabraut
Gamithra Marga, náttúruvísindabraut
Guðjón Snær Einarsson, félags- og hugvísindabraut
Guðríður Hanna Sigurðardóttir, félags- og hugvísindabraut
Guðrún Fema Sigurbjörnsdóttir, náttúruvísindabraut
Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir, stúdentsbraut – starfsnám
Ingibjörg Einarsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Ingibjörg Jóna Guðrúnardóttir, félags- og hugvísindabraut
Katla Guðbjörg Gunnarsdóttir, listabraut – myndlist
Kolbrún Tanja Eggertsdóttir, náttúruvísindabraut
Kristín Edda Sveinsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Margrét Líf Kjartansdóttir, starfsbraut
Sandra Sif Halldórsdóttir, listabraut – myndlist
Sigrún Björk Ingunnar Reynisdóttir, stúdentsbraut – starfsnám
Silfá Björk Jónsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Skarphéðinn Sigurðsson, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Skúli Lórenz Tryggvason, íþrótta- og útivistarbraut – útivistarsvið
Sólveig L. Brinks Fróðadóttir, listabraut - myndlist
Steinar Logi Þórðarson, félags- og hugvísindabraut
Steinunn María Daníelsdóttir, listabraut – myndlist
Telma Ýr Róbertsdóttir, listabraut- ljósmyndun
Tinna Gná Lárusdóttir, félags- og hugvísindabraut
Unnar Friðrik Steinarsson, íþrótta- og útivistarbraut – íþróttasvið
Vigdís Anna Sigurðardóttir, náttúruvísindabraut
Þórir Garibaldi Halldórsson, félags- og hugvísindabraut

Alt texti
Útskriftarnemar vorið 2020.

2020
Andrea Ýr Ómarsdóttir, náttúruvísindabraut 
Andrea Stefánsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Anna Rósa Ósk Magnúsdóttir, félags og hugvísindabraut
Aron Freyr Kristinsson, starfsbraut
Arnór Valsson, listabraut - myndlist
Auðunn Orri Sigurvinsson, félags- og hugvísindabraut
Ágúst Freyr Hallsson, félags- og hugvísindabraut
Ásdís Ósk Gísladóttir, kjörnámsbraut
Ásta María Harðardóttir, félags- og hugvísindabraut
Birgir Bjarkason, félags- og hugvísindabraut
Bjarki Freyr Magnússon, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Bríet Ísis Elfar, kjörnámsbraut
Bryndís Lilja Friðriksdóttir, stúdentsbraut - starfsnám
Bryndís Þorsteinsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Daníel Mjöll Ólafsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Elísa Mjöll Sigurðardóttir, félags- og hugvísindabraut
Emilía Björt Pálmarsdóttir, kjörnámsbraut
Fannar Snær Antonsson, náttúruvísindabraut
Gabríela Rós Gunnlaugsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Guðni Berg Einarsson, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Guðný Ólafsdóttir, stúdentsbraut - starfsnám
Guðrún Elva Heiðarsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Guðrún Ösp Sævarsdóttir, kjörnámsbraut
Hafþór Daði Halldórsson, kjörnámsbraut
Haukur Freyr Hafsteinsson, félags- og hugvísindabraut
Helena Margrét Ingvarsdóttir, náttúruvísindabraut
Hildur Árnadóttir, stúdentsbraut - starfsnám
Hildur Ýr Róbertsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Hilmar Örn Magnússon, félags- og hugvísindabraut
Hrannar Snær Magnússon, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Ísak Óli Ólafsson, félags- og hugvísindabraut
Jason Nói Arnarsson, stúdentsbraut - starfsnám
Kara Mist Harðardóttir, listabraut - myndlist
Kristófer Arnþórsson, félags- og hugvísindabraut
Lotta Karen Helgadóttir, náttúruvísindabraut
Margrét Heba Atladóttir, stúdentsbraut - starfsnám
María Guðný Rögnvaldsdóttir, kjörnámsbraut
Marsý Dröfn Jónsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Nína Björk Grétarsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Ólína Erna Jakobsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Páll Helgi Baldvinsson, listabraut - myndlist
Rakel Ýr Birgisdóttir, náttúrvísindabraut
Rögnvaldur Brynjar Rúnarsson, listabraut - myndlist
Sara Hlín Halldórsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Sigrún Emelía Karlsdóttir, náttúruvísindabraut
Sigurjón Karl Viðarsson, félags- og hugvísindabraut
Sóley Sonja Guðjónsdóttir, náttúruvísindabraut
Sólveig Anna Brynjudóttir, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Sunneva Lind Gunnlaugsdóttir, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Svala Marý Sigurvinsdóttir, félags- og hugvísindabraut
Svana Sigurrós Urban, félags- og hugvísindabraut
Tanja Dögg Sigurðardóttir, náttúruvísindabraut
Telma Rut Hafþórsdóttir, stúdentsbraut - starfsnám
Theodóra Dís Halldórudóttir, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Viktor Karl Einarsson, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Viktor Freyr Heiðarsson, íþrótta- og útivistarbraut - íþróttasvið
Viktor Axel Þorgeirsson, félags- og hugvísindabraut
Þóra Kristín Hjaltadóttir, stúdentspróf - starfsnám
Þórir Óskar Björnsson, kjörnámsbraut